Hoppa yfir valmynd

Sögulegt efni

Þegar Ísland fékk heimastjórn árið 1904 tók stjórnarráð til starfa í Reykjavík og tók það yfir þau störf sem íslenska ráðuneytið í Kaupmannahöfn hafði haft til meðferðar, ásamt stærstum hluta þeirra starfa sem landshöfðingi, amtmenn, stiftsyfirvöld og amtsráð höfðu sinnt (Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, Reykjavík; Sögufélagið, 1969).

Í fyrstu var stjórnarráðinu skipt í þrjár skrifstofur einnig oft nefndar deildir og var einn skrifstofustjóri yfir hverri skrifstofu en þær voru:

  • skrifstofa (kennslumála- og dómsmáladeild), 
  • skrifstofa (atvinnu- og samgöngumáladeild) og
  • skrifstofa (fjármála- og endurskoðunardeild).

Ráðherra var einungis einn í fyrstu og hafði hann landritara sér til aðstoðar, en hann var nokkurs konar yfirskrifstofustjóri stjórnarráðsins, gekk næstur ráðherra og var staðgengill hans.

Árið 1917 urðu þær breytingar á að stjórnarráðið hætti að vera ein heildarstofnun með því að ráðherrarnir urðu þrír og fékk hver ráðherra sitt afmarkaða verksvið eða deild. Sama ár var embætti landritara lagt niður og urðu skrifstofustjórar hvers ráðuneytis þá næstir ráðherra. Árið 1922 var heiti deildanna formlega breytt í ráðuneyti og hefur það heiti haldist síðan.

Þessi skipan hélst formlega í nær 50 ár. Á þeim tíma áttu sér stað miklar breytingar á stjórnarráðinu við sundurgreiningu hinna gömlu ráðuneyta og stofnun og útþenslu nýrra.

Undirbúningur löggjafar fyrir stjórnarráðið stóð í rúman áratug og lauk með samþykkt laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969 en þau tóku gildi hinn 1. janúar 1970. Upphaflega voru ráðuneytin þrettán þ.e. forsætisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Hagstofa Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, utanríkisráðuneyti og viðskiptaráðuneyti. Eitt ráðuneyti bættist við árið 1990 þegar samþykkt voru lög um sérstakt umhverfisráðuneyti. Jafnframt var lögfest ákvæði um að hvorki mætti stofna nýtt ráðuneyti né leggja niður nema með lögum og að ekki megi skipta verkefnum ráðuneytis á milli ráðherra.

Fjármálaráðuneytið er eitt af tólf ráðuneytum sem saman mynda Stjórnarráð Íslands. Við gildistöku laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, féllu þrjár stjórnardeildir undir ábyrgð fjármálaráðherra þ.e. hið almenna ráðuneyti, ríkisendurskoðun og fjárlaga- og hagsýslustofnun. Árið 1986 var ríkisendurskoðun færð undir Alþingi, 1991 var fjárlaga- og hagsýslustofnun sameinuð hinu almenna ráðuneyti og 1998 var launadeild starfsmannaskrifstofu færð til Ríkisbókhalds.

Þann 1. september 2012 var fjármálaráðuneytinu breytt í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fjármálaráðherratal frá 1917

Arnarhvoll, húsnæði fjármála- og efnahagsráðuneytisins var tekið í notkun árið 1930.

Fjármálaráðuneytið og Arnarhvoll

Arnarhvoll, sem hýsir fjármála- og efnahagsráðuneytið, hefur þjónað ýmissi starfsemi á vegum ríkisins í hátt í 90 ár. Árið 1929 var í fjárlögum veitt heimild til þess að reisa á Arnarhólstúni byggingu sem hýsa skyldi opinberar skrifstofur. Brýn þörf þótti á þessu enda voru skrifstofur ríkisins dreifðar víða og oft í óhentugu leiguhúsnæði.

Húsið var upprunalega 428 fermetrar að grunnfleti, þrjár hæðir og kjallari. Fyrstu skrifstofurnar fluttu inn í Arnarhvol sumarið 1930. Fyrstu árin voru í húsinu m.a. Búnaðarbanki Íslands, Skipaútgerð ríkisins, lögreglan í Reykjavík, skrifstofur vegamálastjóra, teiknistofa húsameistara, skrifstofur landlæknis og tollstjórans í Reykjavík, skrifstofur lögmannsins í Reykjavík, Áfengisverslunar ríkisins, fræðslumálastjóra, Brunabótafélags Íslands, ríkisféhirðis og ríkisbókhaldsins og einnig skrifstofa gjaldkera Arnarhvols.

Listamaðurinn Ríkarður Jónsson var fenginn til að gera veglega útidyrahurð á húsið, sem enn prýðir það. Í hurðina eru skornar tvær myndir og sýnir önnur Ingólf Arnarson varpa öndvegissúlum sínum fyrir borð. Á hinni má sjá þræla Ingólfs þegar þeir fundu öndvegissúlurnar og er Esjan í baksýn.

Á árunum 1945-1948 var byggt við Arnarhvol en þegar viðbyggingin var tilbúin taldist húsið vera 744 fermetrar að grunnfleti en gólfflöturinn samtals 3.700 fermetrar. Á sama tíma var hús Hæstaréttar byggt, sem er áfast seinni áfanga Arnarhvols.

Þegar viðbyggingin var tekin í notkun voru ráðuneyti jafnframt komin með aðsetur í Arnarhvoli, þar á meðal fjármála-, atvinnumála-, samgöngumála- og viðskiptaráðuneyti, en fyrstu ráðuneytin komu í húsið árið 1939. Fjármálaráðuneytið er það ráðuneyti sem lengst hefur haft aðsetur í Arnarhvoli en þar hefur ráðuneytið verið til húsa óslitið frá árinu 1939.

Arnarhvoll er í húsverndarflokki 20. aldar bygginga með byggingarsögulegt, menningarlegt eða listrænt gildi. Ásýnd Arnarhvols og Hæstaréttarhússins frá Lækjartorgi, Hörpu og víðar er rótgróin borgarmyndinni og henni mikilvæg. Byggingarnar eru báðar teiknaðar í klassískum stíl og saman mynda þær heild í þyrpingu með Þjóðleikhúsinu, sem einnig var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, Safnahúsinu og dómhúsi Hæstaréttar.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum