Hoppa yfir valmynd
15. maí 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar 15.maí 2018.

 

Talað orð gildir

Landsvirkjun og fullveldið


Ágætu fundargestir.

Það er á þessu ári sem við Íslendingar minnumst þess að 100 ár eru liðin frá því
að Ísland fékk fullveldi. Sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar er okkur því ofarlega í huga á þessu ári, þessi vilji okkar til að ráða okkur og öllum okkar málum sjálf. En engin þjóð er fyllilega sjálfstæð nema hún njóti um leið efnahagslegs sjálfstæðis. Þar hefur nýting auðlindanna skipt höfuðmáli, og lagt grunn að þeim lífsgæðum sem við í dag njótum.

Nýting vatnsafls til framleiðslu raforku hófst hér á landi um svipað leyti og fullveldis var krafist frá Danmörku. Frumkvöðlar þess tíma voru margir og smáir en fyrir dugnað og framsýni þeirra færðist íslenskt samfélag fram veginn og nær hinum iðnvæddu þjóðum allt í kringum okkur. Það er líka áhugavert að sjá, þegar litið er til baka, hvernig samspil einkaframtaksins og hins opinbera náði fljótt að finna sér farveg öllum til hagsbóta þegar kom að nýtingu orkuauðlinda landsins. Þannig voru það bæjarlækir landsins sem fyrst voru virkjaðir, til að mynda í Hafnarfirði en síðar óx mönnum ásmegin og brátt stækkuðu verkefnin og þar leystist úr læðingi hugvit og kraftur okkar Íslendinga.

Ég hef talað um það áður á þessum vettvangi hversu mikil áhrif stofnun Landsvirkjunar hafði á íslenskt efnahagslíf. Stórfelld nýting vatnsafls varð undirstaða nýrrar stoðar í efnahag landsins en auk þess gerðu þessar breytingar öðrum og rótgrónari atvinnuvegum kleift að þróa áfram starfsemi sína og stórauka afköst og framleiðni. Í hönd fóru gríðarmiklar fjárfestingar í orkuvinnslu með byggingu virkjana og innviða við orkuflutning. Áhrif þessara fjárfestinga sáust fljótt í íslensku atvinnulífi og samfélagi og enn í dag má sjá ný áhrif þessara fjárfestinga, t.a.m. með tilkomu nýrra atvinnutækifæra í formi hátækniiðnaðar og ýmissar afleiddrar starfsemi.

Þannig var ég á Reyðarfirði fyrir nokkrum dögum síðan, að taka á móti nýsmíðuðu flutningaskipi frá Kína sem þjónustar Fjarðaál. Með þessu nýja skipi er ekki einungis verið að þjónusta Fjarðaál heldur einnig að opna nýja flutningamöguleika fyrir atvinnusvæðið allt sem aftur styrkir byggð á svæðinu. Mér varð hugsað til þess þar sem ég stóð í brúnni á skipinu að grundvöllur þessarar starfsemi lá í þeirri ákvörðun að reisa Kárahnjúkavirkjun, sem gerði Alcoa kleift að hefja starfsemi fyrir austan og nú, meira en áratug síðar, verða enn til ný tækifæri, eins og þessi nýjasta viðbót við flutningaleiðir til og frá landinu.

Það má því með sanni segja að Landsvirkjun hafi frá upphafi skilað eiganda sínum, íslensku þjóðinni, ávinningi sem hefur leikið lykilhlutverk í framþróun samfélagsins. Og nú stöndum við einnig á öðrum tímamótum í framlagi Landsvirkjunar.

***
Góðir fundargestir.

Fyrir réttum þremur árum hélt ég ávarp á ársfundi Landsvirkjunar þar sem ég reifaði hugmyndir um stofnun sjóðs um arðgreiðslur Landsvirkjunar og eftir atvikum annarra orkufyrirtækja ríkisins. Það má segja að hér sannist hið fornkveðna gilt að góðir hlutir gerist hægt.

En það ber ekki skilja sem svo að ekkert hafi verið gert í millitíðinni. Starfshópur um þjóðarsjóðinn hefur verið að störfum og stjórnarflokkarnir hafa verið sammála um að koma á fót slíkum sjóði, þetta birtist í stjórnarsáttmálanum, Ég hef líka lagt áherslu á það að það geti tekist um slíkt verkefni sem allra breiðust sátt, sérstaklega um útfærsluna og fyrirkomulag sjóðsins. En ég get ekki annað sagt en að ég myndi gjarnan vilja sjá þessa hugmynd verða að veruleika og að við innsiglum hana á aldarafmæli fullveldis Íslands.

***
Hugmyndin að þjóðarsjóði á sér rætur í mjög sterkum rekstri Landsvirkjunar. Fjárhagsleg staða Landsvirkjunar hefur aldrei verið betri, niðurgreiðsla lána verið umtalsverð á undanförnum árum, samhliða miklum framkvæmdum. Bætt lánshæfismat rennir enn styrkari stoðum undir þessa eina stærstu eign þjóðarinnar.

Þessi góða staða gerir það að verkum að á næstu árum geta umtalsverðar arðgreiðslur runnið til eigenda félagsins en eins og áður var nefnt er gert ráð fyrir að komið verði á fót sérstökum sjóði á næstu árum.

Landsvirkjun, sem stofnuð var árið 1965 er félag sem hefur gengið í gegnum mjög misjafna tíma. Jafnvel þótt ekki gusti mjög mikið um starfsemi félagsins þessi misserin er fjarri því að sátt hafi ríkt um alla starfsemi þess. Þar er auðvelt að vísa til umdeildustu virkjanaframkvæmda. Oft hefur mikið gengið á í öllu samfélaginu vegna áforma félagsins um virkjanaframkvæmdir. Þar hafa menn tekist á um jafnvægið milli nýtingar og verndar og öll sú umræða hefur haft mikil áhrif á lagaumhverfi um þau efni, allt frá rammaáætlun og orkustefnu til laga um umhverfismat. Það eru stóraukin tækifæri fyrir almenning og hagsmunaðaila að koma sjónarmiðum að áður en endanlegar ákvarðanir um framkvæmdir eru teknar. Þrátt fyrir að við stöndum á þessum sterka stað í dag er það ekki svo að félagið hafi, á þessum áratugum sem liðnir eru, ávallt siglt lygnan sjó.

Fyrir utan þessi umhverfislegu mál og þá umhverfislegu þætti sem tengst hafa virkjunum, þá hefur líka verið iðulega deilt um mögulega arðsemi verkefna sem eru á dagskrá. Margar hliðar geta verið á slíkri umræðu. Fjárfestingarsamningar sem ríkið gerir koma þar við sögu sem og ríkisábyrgðir. Í langan tíma gilti mjög lítið gagnsæi um orkusölusamninga og var kannski ekki að hjálpa í umræðunni. Sannarlega hefur félagið tekið há lán og full ástæða til þess að gæta varúðar og ekki óeðlilegt að menn hafi viljað fá svör við öllum spurningum þegar stórar ákvarðanir voru undir og ríkisábyrgð á bak við allt saman. Og sannarlega hefur félagið oft á líftíma sínum verið í lakari stöðu en það er nú.

En hvað sem allri þessari sögu líður er félagið í þeirri stöðu sem það er í dag. Staðan er sú að Landsvirkjun hefur aldrei staðið betur.

Saga Landsvirkjunar er samofin bæði atvinnu- og hagsögu landsins. Engar áhyggjur, ég mun ekki að rekja hana hér. Þess í stað fletti ég yfir alla kaflana og fer beint á öftustu blaðsíðuna. Hún er að skrifa sig hér þar sem við erum samankomin og það munu bætast við nýir kaflar í þessa sögu á komandi árum. En ég ætla að draga efnið fram til þessa saman í eina setningu. Stofnun Landsvirkjunar var mikið gæfuspor. Það sjáum við á öllum tölunum sem hér verður farið yfir á eftir, meðal annars.

Góðir ársfundargestir,

Mér er til efs að við höfum áður séð jafn hátt hlutfall atvinnustarfseminnar í landinu í opinberri eigu eða í óbeinni eigu almennings í gegnum lífeyrissjóðina og í dag. Orkufyrirtækin og stórir bankar eru í opinberri eigu, fyrir utan fjölmiðil, flugstöðina, flugvellina og margt fleira sem ég gæti talið upp. Þegar við leggjum þetta saman við það hversu mjög umsvif lífeyrissjóðanna hafa aukist í atvinnulífinu á Íslandi, þar sem þeir fara í dag með með rúmlega helmings hlut í skráðum fyrirtækjum og eiga alls um þriðjung alls fjármagns í landinu, dregst upp þessi athyglisverða mynd: Að við höfum líklega aldrei áður séð jafn hátt hlutfall atvinnustarfseminnar í landinu í ýmist beinni opinberri eigu eða í óbeinni eigu almennings í gegnum lífeyrissjóðina.

Starfshópur sem ég skipaði á síðasta ári tók til umfjöllunar þessa stöðu varðandi lífeyrissjóðina, lýsti ákveðnum áhyggjum og lagði til að við gripum til vissra aðgerða og benti á að ef helstu gallar þessara miklu umsvifa lífeyrissjóðanna myndu koma fram og upp á yfirborðið gæti þetta birst í hærra verði fyrir almenning og lakari þjónustu við neytendur ef ekki yrði brugðist við. Þessar tillögur eru til skoðunar í stjórnkerfinu

Ef við lítum til raforkumarkaðar, þar sem það eru ekki lífeyrissjóðirnir, heldur hið opinbera sem er lang fyrirferðarmest, reyndar nær allsráðandi, þá var samkeppni um framleiðslu og sölu raforku innleidd með raforkulögum árið 2003.

Árið 2008 var dreifiveitum gert óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem er þeim nauðsynleg til að geta rækt skyldur sínar samkvæmt sérleyfum. Opinberu fyrirtækin hafa þurft að aðskilja samkeppnishlutann frá sérleyfishlutanum, en báðir þættir eru þó enn á hendi sama eiganda.

Þannig að þrátt fyrir þessar breytingar á lögum sem má rekja aftur til ársins 2003, er í reynd fátt sem hefur breyst í rekstrarumhverfinu. Þannig fór ekkert nýtt fyrirtæki inn á samkeppnishluta raforkusölumarkaðar fyrr en í fyrra.

Hið opinbera er yfir og allt um kring á raforkumarkaði. Hið opinbera fer með leyfisveitingar - og reglusetningarvaldið. Ríki og sveitarfélög eiga nær alfarið framleiðslufyrirtækin. Flutningakerfið og dreifiveiturnar eru í opinberri eigu og háð sérleyfum. Á raforkusölumarkaði, þar sem ætlunin var að ná fram samkeppni, eru fá merki um að hún sé í reynd til staðar.

Ég ætla hér að leyfa mér að velta upp þeirri spurningu hvort það sé hafið yfir allan vafa að þetta fyrirkomulag eignarhalds á raforkumarkaði sem hefur þróast yfir tímann, frá framleiðslu til sölu, og ég er þá sérstaklega að horfa til smásölunnar, getur verið að þetta fyrirkomulag bjóði heim svipaðri hættu og bent var á varðandi hið umfangsmikla eignarhald lífeyrissjóðanna á atvinnustarfseminni í landinu? Að það kunni að vera að þetta fyrirkomulag geti dregið úr kostum þess sem við ætluðum okkur að ná fram á árinu 2003, að við séum ekki að ná fram kröftum markaðarins til þess að skila betri þjónustu og betra verði til neytendanna í landinu? Það var ætlunin með breytingunum árið 2003.

Ef við byrjum á Landsvirkjun, sem er nærtækt hér í dag, þá er alveg ljóst að fyrirtækið er í yfirburðarstöðu í framleiðslu og heildsölu. Ákvörðun Landsvirkjunar um verðgólf í heildsölu verður óhjákvæmilega af þessari ástæðu ráðandi í verðmyndun á smásölumarkaði. Er hugsanlegt að við þurfum að auka gagnsæi um þær ákvarðanir Landsvirkjunar? Er mögulegt að ef í hlut ætti fyrirtæki á einkamarkaði sem væri í sambærilegri stöðu að við myndum krefjast þess að gagnsæi væri aukið, til þess að við skildum hvað lægi að baki því sem á endanum réði mestu um söluverð til almennings á Íslandi? Ég held við verðum að spyrja okkur að þessu. Ég held líka að það sé augljóst að við myndum gera slíka kröfu á einkaaðila.

Og þarna er hægt að halda áfram.

Eigum við mögulega að stefna að því að verðmyndun á heildsölumarkaðnum geti ráðist á markaði, eins og á við víða annars staðar, m.a. á Norðurlöndunum. Það er auðvitað tómt mál að tala um það ef engin er samkeppnin þannig að við myndum þá þurfa að stefna að því að búa til alvöru samkeppni, en það eru opinber fyrirtæki sem eru allsráðandi á smásölumarkaðnum.

En er ekki nóg að hið opinbera framleiði og haldi á flutningskerfi og dreifiveitum? Þarf það líka að reka smásölufyrirtækin? Ef svarið við því er já, að ríkið þurfi líka að reka smásölufyrirtækin, til hvers í ósköpunum vorum við þá að þessu öllu saman árið 2003? Að brjóta þetta upp og skilja þarna á milli. Og höfum við spurt okkur nægilega sterkt í millitíðinni hvort þeim markmiðum sem að var stefnt árið 2003 hafi verið náð? Ég held að þetta séu spurningar sem við þurfum að færa framar í forgangsröðina í umræðunni í dag.

Það er fleira sem skiptir hér miklu máli. Það er oft rætt um það að það sé lítið framboð eftir til að mæta eftirspurn á Íslandi. Þar kemur augljóslega upp sú spurning, hver eigi að vera ábyrgur fyrir því að útvega orku fyrir heildsölumarkaðinn. Er Landsvirkjun með þá ábyrgð og hvað felst í þeirri ábyrgð?

Auðvitað er það svo að við erum á undanförnum árum búin að ræða sum af þessum álitamálum margoft og við höfum náð nokkuð breiðri samstöðu um það að það sé rétt að selja orku á því verði sem markaðurinn er tilbúinn til þess að greiða fyrir hana. En þarna kemur upp þessi spurning, er í raun og veru einhver eðlilegur markaður til staðar. Er eiginlegur samkeppnismarkaður til staðar þar sem lögmál framboðs og eftirspurnar stjórna ferðinni? Ég held satt best að segja að það sé nú meira í orði en á borði. Í það minnsta er augljóst að samkeppni á smásölumarkaði er mun minni hér á landi en í nágrannalöndunum þó við tækjum ekki annað en bara til vitnis um það hversu margir skipta um smásöluaðila á ári á Íslandi. Það er svona 0,5 til 1% prósent en á Norðurlöndunum liggja þessar tölur í kringum 10%.

Ég ætla ekki að draga fjöður yfir það, að þegar við veltum þessum hlutum fyrir okkur hafa þeir auðvitað tengingu við hitt sem ég hef hér líka komið inn á, sem er krafan til Landsvirkjunar um arðsemi. Þetta er vandratað einstigi að þræða, að gera annars vegar miklar arðsemiskröfur til félagsins en fara fram á það um leið að menn gangi þannig fram að það séu hafðir í huga þeir hagsmunir fyrirtækja, jafnt sem almennings, sem við ætlumst til þess að séu hafðir með við alla ákvörðunartöku. Við höfum sagt þetta með lögunum, við höfum haldið því fram að þetta sé það sem við stefnum að en mér finnst við ekki hafa náð jafn langt á þeirri leið eins og að var stefnt.

Góðir fundarmenn

Við mótum nú í stjórnarráðinu eigendastefnu fyrir Landsvirkjun. Það hefur áður komið fram og ég ætla ekki að staldra lengi við þau atriði sem þar verða fyrirferðarmest, þau hafa áður komið til umræðu á þessum vettvangi. En mig langar að fylgja því eftir þannig að það er mjög mikil samstaða um mikilvægi þess að við útfærum sérstaka eigendastefnu fyrir fyrirtækið.

Áður hef ég komið inn á þessi stakkaskipti sem hafa orðið í lífsgæðum á Íslandi, við þær breytingar sem urðu ekki aðeins með starfsemi Landsvirkjunar heldur því að við fórum í virkjanaframkvæmdir um allt land síðustu öldina. Mér finnst eins og við séum nú að nálgast ný tímamót þar sem það er að verða algjör bylting í umræðu um endurnýjanlega orkukosti. Við höfum notið ákveðins forskots hvað það varðar í samanburði við önnur lönd en það er mikil gerjun og framþróun á því sviðinu hvar sem maður fer. Þetta sjáum við meðal annars þegar við förum til Evrópu, maður sér nýja vindmyllugarða nánast í hvert sinn sem maður fer þar yfir lönd. Það er sama hvert litið er, til hvaða heimsálfu litið er, alls staðar er allt á fullri ferð við að finna leiðir til þess að nýta endurnýjanlega orkukosti. Rekstrarárangurinn er að sama skapi glæsilegur, aldrei meiri umsvif, góður hagnaður og framtíðin afar björt. Við Íslendingar getum svo sannarlega verið stolt af því sem við höfum áorkað á þessu sviði, meðal annars fyrir tilstilli Landsvirkjunar. Við þurfum áfram að vera virkir þáttakendur í þeim breytingum sem ég hef hér stuttlega vikið að, vegna þess að við höfum mikið til málanna að leggja. Með þeim orðum lýk ég mínu innleggi hér í dag og hvet fyrirtækið og starfsmenn áfram til dáða til þess að sækja ný tækifæri og þar með auka lífsgæði landsmanna allra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum