Hoppa yfir valmynd
12. júní 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ávarp Bjarna Benediktssonar á hádegisverðarfundi Samtaka atvinnulífsins um samkeppnishæfni Íslands

Ávarp Bjarna Benediktssonar á hádegisverðarfundi Samtaka atvinnulífsins um samkeppnishæfni Íslands, 12. júní 2018

Samkeppnishæfni og samanburður við aðrar þjóðir á getu okkar og árangur á ýmsum sviðum er mikið alvörumál. Og ekki síst er þetta alvörumál innanlands, fyrir okkur sem búum í þessu umhverfi og þurfum að takast á við rekstur frá degi til dags, hvort sem er í fyrirtækja-, ríkis- eða heimilisrekstri. Allt er þetta jú órjúfanleg heild. Það, að fyrirtækin í landinu geti rekið sig vel, vaxið, dafnað og skilað arði til eigenda sinna og samfélagsins er grundvöllur velferðar og góðra lífskjara.

En hvað vitum við? Jú, við vitum að þetta er eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið sem ríkt hefur hér á landi. Við vitum líka, að þrátt fyrir mikið áfall í efnahagslífinu árið 2008, risum við hratt upp og erum nú komin á betri stað en við vorum á hagvaxtarskeiðinu sem kennt er við árið 2007, þótt það hafi varað frá 2002 til hruns. Við vitum að þessi efnahagsuppsveifla sem nú ríkir hefur nokkra sérstöðu miðað við fyrri uppsveiflur, því að þrátt fyrir mikinn vöxt hefur ytra jafnvægi þjóðarbúsins verið gott.

Það er stundum sagt að ekki megi láta efnahagskrísu fara til spillis. Í þrengingum skapast tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt, gera nauðsynlegar breytingar, ná samstöðu um stefnubreytingu, aðrar áherslur. Þetta höfum við gert.

Okkur tókst að leysa eina stærstu áskorun eftirhrunsáranna sem var greiðslujafnaðarvandinn. Samhliða hefur ríkissjóður losað sig við 500 milljarða af skuldum. Erlend staða okkar hefur aldrei verið betri, ríkisfjármálin hafa tekið stakkaskiptum og skulda- og eignastaða bæði heimila og fyrirtækja er allt önnur en á síðasta hagvaxtarskeiði.

En við teljum okkur líka vita að þessi uppsveifla hafi náð hámarki árið 2016. Árið 2016 var betra í rekstri fyrirtækja en árið 2017, en samanlagður hagnaður fyrirtækja sem skráð eru á aðallista kauphallarinnar dróst saman í fyrra. Á það var bent í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika nú í apríl, að væntingakönnun Deloitte meðal 300 stærstu fyrirtækja landsins gæfi til kynna að bjartsýni stjórnenda færi minnkandi.

Útflutningsgreinarnar hafa þurft að laga sig að sterkara gengi. Tvær milljónir ferðamanna hafa haft veruleg áhrif á gengið til styrkingar. Það var ekki úr lausu lofti gripið þegar sagt var að ferðaþjónustan væri fórnarlamb eigin velgengni. Mat manna er að nær öll styrking krónunnar verði rakin til aukins innstreymis gjaldeyris vegna ferðamanna. Þessum nýja veruleika getur verið erfitt að aðlagast - ef fólk er í útflutningi. Á móti kemur að almenningur nýtur styrkingarinnar á ýmsan máta. Kaupmáttur launafólks hefur vaxið verulega, launahækkanir ekki ratað út í verðlagið. Verðhjöðnun hefur mælst þegar litið er fram hjá húsnæðisliðnum.

Hér á landi hefur meginþungi allrar umræðu um stöðu útflutningsgreinanna snúist um gjaldmiðilinn og skráð gengi krónunnar. Og vissulega hefur styrkur gjaldmiðilsins mikil áhrif á útflutning. Það gera laun líka. Og margir aðrir þættir. Þegar rætt er um samkeppnishæfni þjóða er verið að líta til mun fleiri þátta en gjaldmiðilsins og launakostnaðar.

Þar kemur t.d. til skoðunar hvernig stjórnkerfið styður við samkeppnishæfni, hvaða stefnumörkun af hálfu stjórnvalda getur stutt við aukna framleiðni. Að mörgum þessum þáttum höfum við unnið á undanförnum árum, m.a. á Samráðsvettvangi um aukna hagsæld. Grunnur þess starfs var byggður á skýrslu McKinsey og sannarlega höfum við víða náð árangri.

Framleiðni hefur vaxið en þó ekki framleiðni vinnuafls og það sem einna helst hefur vantað upp á er að sjá alþjóðageirann auka hlutdeild sína í útflutningstekjunum. Við höfum aukið áherslu á nýsköpun og þróun, styrkt samkeppnissjóði og hugsum meira um störf framtíðarinnar. Á þessu sviðinu hefur orðið mikil hugarfarsbreyting sem ég held við finnum öll fyrir. Í opinbera geiranum hafa orðið miklar breytingar á skömmum tíma. Með því að gera stafræn þjónustu að meginsamskiptaleið við hið opinbera fyrir 2020 má gróflega áætla að allt að 200 ársverk sparist.

Það sem veldur mörgum áhyggjum um þessar mundir eru átökin sem brjótast fram á vinnumarkaði með skeytasendingum milli forystumanna og hástemmdar yfirlýsingar um róttækar aðgerðir. Í aðdraganda kjarasamninga er þetta líklega það sem heldur vöku fyrir flestum stjórnendum.

Framleiðni hefur löngum verið vandamál hjá okkur og of margar greinar á Íslandi glíma við of litla framleiðni í alþjóðlegum samanburði. Það er áhyggjuefni þegar launakostnaður vex en framleiðnin ekki, því líkur eru þá á því að verið sé að byggja upp spennu sem losnar um með látum síðar. Á Íslandi er launakostnaður sem hlutfall af rekstrarreikningi fyrirtækja með því hæsta sem gerist í OECD.

Alþjóðaefnahagsráðið, World Economic Forum, gefur árlega út skýrslu um samkeppnishæfni ríkja. Það skilgreinir samkeppnishæfni sem samspil stofnana, stefna og þátta sem ákvarði framleiðni ríkja. Framleiðni er því lykilhugtak í samkeppnishæfni.

Á lista tíu efstu komast bæði Svíþjóð og Finnland. Noregur og Danmörk eru næst inn, númer 11 og 12. Við erum númer 28. Ég geri reyndar ráð fyrir að höftin hafi enn litað stöðu okkar þegar listinn var tekinn saman og vænti þess vegna betri einkunnar í næstu skýrslu.

Það er ýmislegt sem þau ríki sem raða sér efst á listann eiga sameiginlegt, mest þó þegar kemur að hlutum sem takmarka samkeppnishæfni þeirra. Þar er ósveigjanlegur vinnumarkaður og skattamál oftast nefnd. Það er þó margt annað en laun og skattar sem skipta máli þegar kemur að samkeppnishæfni. Þannig eru aðrir þættir en lág laun sem gera það að verkum að Sviss situr í 1. sæti þessa lista World Economic Forum.

Við Íslendingar stöndum okkur best í því sem er kallað grunnkröfur (basic requirements), erum þar í 14. sæti, en undir það falla þættir eins og heilbrigðismál og grunnmenntun, innviðir og hagkerfi.

Við komum verst út í framleiðniaukandi þáttum (efficiency enhancers) og að mati World Economic Forum megum við herða okkur í þróun fjármálamarkaðarins.

Á tveimur sviðum stöndum við okkur best allra: Afkomu ríkisfjármálanna og stöðugu verðlagi. Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar.

Það eru ákveðnir þættir sem við ráðum ekki vel við. Stærð innlenda markaðarins verður ekki auðveldlega breytt, en við getum lagt okkur fram um að stækka markaðinn út fyrir landsteinana. Við getum haldið áfram að byggja upp innviði og treysta stóru myndina, efnahagsumhverfið og stöðu þjóðarbúsins og efla traust á íslensku viðskiptalífi á heimsvísu. Við þurfum að skoða alvarlega upplifun þeirra sem hér reka fyrirtæki og taka mark á henni við endurskoðun regluverks á hverjum tíma.

Og svo eru það vinnumarkaðsmálin. Það er mikilvægt að það samtal sem framundan er fari fram þannig að öllum sé ljóst hvað er í húfi. Ef við ætlum að halda áfram að bæta lífskjör landsmanna, þarf það að gerast þannig að við öll róum í sömu átt.

Mín megin borðsins höfum við þegar tilkynnt að við viljum leggja okkar af mörkum til að auka ráðstöfunartekjur með 14 milljarða árlegri innspýtingu sem verður útfærð við endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa. Fyrstu aðgerðir verða kynntar í haust með það að markmiði að koma til framkvæmda á næsta ári.

En fyrst og síðast verður þetta samtal að fara fram milli aðila vinnumarkaðarins. Kjarasamningar eru milli vinnuveitenda og launþega. Stóru málin verða ekki leyst með tilfærslum við fjárlagagerð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira