Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. mars 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu slökkviliðsstjóra 2010

Ágætu slökkviliðsstjórar og aðrir ráðstefnugestir.

Ég þakka þann heiður sem mér er sýndur með því að fá að setja árlega ráðstefnu slökkviliðsstjóra á Íslandi.

Eins og ykkur er kunnugt um þá urðu talsverðar breytingar á starfsemi Brunamálastofnunar á síðasta ári þegar Alþingi ákvað að eftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga skildi flutt frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar. Þann 1. júní 2009 kom þessi breyting til framkvæmdar þegar fimm starfsmenn á sviði rafmagnsöryggis fluttust til Brunamálastofnunar.

Enn meiri breytingar eru áformaðar sem varða starfsemi Brunamálastofnunar. Í byrjun þessa mánaðar lagði ég fram á Alþingi tvö lagafrumvörp sem munu hafa mikil áhrif á starfsemi stofnunarinnar og lagalegt starfsumhverfi slökkviliðsstjóra, en þar á ég við frumvarp til laga um mannvirki og frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir.

Í frumvarpi til laga um mannvirki er lagt er til að sett verði á fót Byggingarstofnun, sem hafi yfirumsjón með stjórnsýslu mannvirkjamála, þar með talið þeim verkefnum sem Brunamálastofnun sinnir nú. Áfram er gert ráð fyrir að stjórnsýsluleg ábyrgð á beinu eftirliti með byggingu mannvirkja verði í höndum byggingarfulltrúa sveitarfélaganna en að eitt af meginverkefnum Byggingarstofnunar verði að tryggja samræmt byggingareftirlit um allt land. Svipuðu hlutverki hefur Brunamálastofnun einmitt sinnt hvað brunamál snertir. Ef þetta frumvarp verður að lögum, sem ég tel miklar líkur á að svo verði, mun Brunamálastofnun verða lögð niður í lok 40. starfsár stofnunarinnar. Þótt fyrirhugað sé að stofnunin verði lögð niður í núverandi mynd er gert ráð fyrir að starfsemin haldi að miklu leyti óbreytt áfram undir merkjum nýrrar stofnunar sem ætlað er að hafa mun víðtækara hlutverk. Þá verður framkvæmd byggingarmála færð frá Skipulagsstofnun til Byggingarstofnunar.

Hitt frumvarpið sem ég nefndi, frumvarp til laga um breytingar á lögum um brunavarnir, mun hins vegar hafa mun beinni áhrif á starfsumhverfi slökkviliðsstjóra. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem eru nauðsynlegar vegna tilkomu frumvarps til laga um mannviki en einnig eru lagðar til nokkrar breytingar í ljósi reynslu þeirra níu ára sem lögin hafa verið í gildi.

Meðal breytinga má nefna að lagt er til að björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum verði eitt af lögbundnum hlutverkum slökkviliða. Í meira en áratug hafa langflest slökkvilið landsins sinnt þessu verkefni án lagaskyldu og því mjög brýnt að binda þetta hlutverk slökkviliða í lög. Með því er tryggt að þjónustan sé fyrir hendi á öllu landinu og hún uppfylli tilteknar lágmarkskröfur.

Einnig er lagt til að lögfest verði að slökkviliðsmenn þurfi að standast læknisskoðun til að mega stunda reykköfun. Rætt hefur verið um að nauðsynlegt sé að lögfesta það verklag, sem mörg slökkvilið hafa tekið upp, að skylda starfsmenn sína til að standast læknisskoðun áður en þeim er heimilt að stunda reykköfun. Reykköfun er hættulegt og erfitt starf eins og þið vitið og gerir ákveðnar kröfur hvað varðar heilsu og þjálfun fólks. Þess vegna er talið nauðsynlegt að krefjast reglubundinnar læknisskoðunar.

Síðastliðinn þriðjudag fékk ég tækifæri til að kynnast starfsemi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ég fékk að taka þátt í útköllum, sjúkraflutningum og taka á við að klippa sundur bíl. Það var vægast sagt magnað að fá að kynnast þessari starfsemi. Að sjá þá einbeitingu og samhæfinu sem er hjá slökkviliðsstjórum og slökkiliðs- og sjúkraflutningsmönnum. Að upplifa og sjá þá miklu kunnáttu og fagmennsku sem er innan raða slökkviliðsins, þeim útbúnaði sem beitt er og síðast en ekki síst þeirri einbeitingu og vinnugleði sem ríkir í þessum samstillta hópi. Ég er þess fullviss að starf slökkviliðsstjóra, slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna getur verið okkur öllum mikilvæg fyrirmynd í því að skilja aðalatriði frá aukaatriðum og vera fljót að bregaðst við þegar raunveruleg verkefni knýja dyra.

Ég geri mér grein fyrir því að sú fagmennska og sú sérhæfing sem ykkar stétt býr yfir kemur ekki að sjálfu sér. Ég tel mjög mikilvægt að staðið sé vel að menntun slökkviliðsstjóra og slökkviliðsmanna, ekki aðeins vegna öryggis borgaranna heldur einnig vegna starfsánægju ykkar og öryggis í starfi. Þekking og fagmennska verður ekki eingöngu kennd með því að setjast á skólabekk en möguleikar til náms og endurmenntunar eru engu að síður nauðsynlegir til að viðhalda starfsánægju og þar með þekkingu og reynslu innan slökkviliða. Menntunarmál slökkviliðsstjóra sem og slökkviliðsmanna hafa því grundvallarþýðingu við skipulag og uppbyggingu brunavarna hér á landi. Það var því ekki að ástæðulausu að ég skipaði Kristínu Jónsdóttur, endurmenntunarstjóra Háskóla Íslands, sem formann skólaráðs Brunamálaskólans. Mér er tjáð að starf skólaráðsins gangi vel og að þegar liggi fyrir áætlanir um breytt fyrirkomulag í menntun slökkviliðsmanna á þessu ári. Gert er ráð fyrir að hluti af bóklegum námskeiðum sem hafa verið haldin í sveitarfélögum víðsvegar um landið verði fyrirkomið í fjarnámi. Með þessu fyrirkomulagi er gert ráð fyrir töluverði hagræðingu sem vonandi má nýta til menntunarmála. Er rétt að taka fram að þrátt fyrir þessar breytingar fá nemendur áfram stuðning við námið eins og verið hefur. Ef vel tekst til er reiknað með að þetta fyrirkomulag verði um allt land, þ.e. að umrædd námskeið verði kennd í fjarnámi.

Í þessu sambandi vil ég nota tækifærið og hvetja ykkur til að skoða nýtt frumvarp um breytingu á lögum um brunavarnir með gagnrýnum augum, sérstaklega hvað varðar fyrirkomulag menntunar slökkviliðsstjóra og slökkviliðsmanna og nýta ykkur þann möguleika sem er á að koma með athugasemdir við frumvarpið á umsagnartímanum.

Góðir gestir

Þegar skoðaðar eru tölur um tjón af völdum eldsvoða á Íslandi og tölur bornar saman við það sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar, kemur í ljós að manntjón af völdum eldsvoða eru um helmingi minni á íbúa hér á landi en í nágrannalöndunum. Það sama gildir um fjárhagslegt tjón vegna eldsvoða. Ég tel því óhætt að fullyrða að slökkviliðin í landinu eru almennt að standa sig vel og er þáttur ykkar slökkviliðsstjóra í því starfi ekki síst mikilvægur.

Að lokum vona ég að ráðstefnudagarnir tveir verði ykkur ánægjulegir og óska ykkur farsældar í ykkar störfum í þágu öryggis fólksins í landinu.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum