Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. apríl 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu Lagnafélags Íslands

Svandís Svavarsdóttir flutti ávarp á ráðstefnu Lagnafélags Íslands sem haldin var 8. apríl 2010.

Ágætu ráðstefnugestir

Það er mér ánægja að fá að setja ráðstefnu Lagnafélags Íslands um lokafrágang hita- og loftræstikerfa. Sá staður sem þessari ráðstefnu hefur verið valinn hér í Lauganesi minnir okkur á þann tíma sem var þegar konur gengu oft langar leiðir eftir Laugaveginum inn í Þvottalaugar, með þungan þvott á bakinu í misjöfnum veðrum og unnu oft vinnu sína við mikla vosbúð. Við þekkjum flest sögurnar um aðbúnað þessara kvenna og hrikaleg örlög margrar þeirra við þvottalaugarnar.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því reykvískar konur báru þvott að Þvottalaugunum. Í dag er litið á rennandi vatn, heitt eða kalt, sem sjálfsagðan hlut í okkar daglega lífi. Við treystum því að þau mannvirki sem við búum í eða störfum í séu byggð á grundvelli faglegrar þekkingar þannig að líf okkar, heilsa og umhverfi sé verndað. Það traust byggjum við m.a. á þeim sérfræðingum sem koma að byggingu mannvirkja og þeim reglum sem löggjafinn setur sem varða hýbýli okkar og önnur mannvirki.

Í byrjun síðasta mánaðar lagði ég fram á Alþingi lagafrumvarp sem mun hafa mikil áhrif á byggingarstarfsemina í landinu og lagalegt starfsumhverfi þeirra sem starfa innan byggingariðnaðarins, en þar á ég við frumvarp til laga um mannvirki.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót Byggingarstofnun, sem hafi yfirumsjón með stjórnsýslu mannvirkjamála, þar með talið þeim verkefnum sem Brunamálastofnun sinnir nú. Áfram er gert ráð fyrir að stjórnsýsluleg ábyrgð á beinu eftirliti með byggingu mannvirkja verði í höndum byggingarfulltrúa sveitarfélaganna en að eitt af meginverkefnum Byggingarstofnunar verði að tryggja samræmt byggingareftirlit um allt land. Svipuðu hlutverki hefur Brunamálastofnun einmitt sinnt hvað brunamál snertir.

Ef og þegar þetta frumvarp verður að lögum, en ég tel að miklar líkur séu á að svo verði, mun Brunamálastofnun verða lögð niður eða réttara sagt verkefni hennar færð undir Byggingarstofnun og ábyrgð á framkvæmd byggingarmála færð frá Skipulagsstofnun til Byggingarstofnunar. Byggingarstofnun mun m.a. annast gerð skoðunarhandbóka, verklagsreglna og leiðbeininga fyrir byggingarfulltrúa auk þess getur stofnunin gefið út bindandi álit um einstök mál.

Í frumvarpinu er lögð áhersla á að efla gæðavitund og gæðaeftirlit. Ákvæði varðandi byggingarstjóra eru mun ítarlegri en áður. Gerð er krafa um að þeir hafi sérstakt starfsleyfi frá Byggingarstofnun auk ákvæða um að þeir hafi gæðastjórnunarkerfi. Jafnframt eru kröfur í frumvarpinu um að hönnuðir og iðnmeistarar hafi gæðastjórnunarkerfi. Þá eru ákvæði í frumvarpinu um öryggisúttekt sem skal fara fram áður en mannvirki er tekið í notkun og ítarlegri ákvæði um lokaúttekt en í núverandi löggjöf.

Af framansögðu tel ég ljóst að gildistaka frumvarps til laga um mannvirki mun stuðla að því að gæði og virkni hita- og loftræstikerfa verði í samræmi við væntingar hönnuða, efnissala, meistara og rekstraraðila.

Þá vil ég geta þess hér að frá því snemma á þessu ári hefur starfað nefnd undir formennsku Björns Karlssonar, brunamálastjóra sem hefur það hlutverk að semja byggingarreglugerð með hliðsjón af nýju frumvarpi um mannvirkjalög. Markmiðið með þeirri vinnu er framsæknasta byggingarreglugerð á Norðurlöndum hvað varðar sjálfbæra þróun þar sem opin stjórnsýsla, gagnsæi og lýðræðisumbætur eru höfð að leiðarljósi.

Lögð er áhersla á að nefndin hafi víðtækt samráð við ýmsa hagsmunaaðila við endurskoðun reglugerðarinnar hvort heldur er með einstaka fundum eða með skipan bakhópa um ákveðin verkefni. Hagsmunaaðilar verði skýrt skilgreindir og þeim kynnt ferli samráðsins. Það verður því óskað eftir samvinnu við Lagnafélag Íslands um gerð reglugerðarinnar og vænti ég góðs af þeirri samvinnu.

Góðir gestir ég vona að ráðstefnan muni reynast ykkur lærdómsrík og óska ykkur farsældar í ykkar störfum innan byggingariðnaðarins.

Takk fyrir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum