Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á þingi LSS 2010

Svandís Svavarsdóttir flutti eftirfarandi á varp á 13. þingi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem haldið var 16. apríl 2010.

Góðir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og aðrir gestir.

Á því tæpa ári sem ég hef staðið vaktina sem umhverfisráðherra hef ég að minnsta kosti í tvígang haft tækifæri til að kynnast ykkar starfi og sjá um leið mikilvægi þess fyrir samfélagið.

Í nóvember 2009 var ég viðstödd opnun Eldvarnarviku Landsambands slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna í Ísaksskóla og í mars sl. heimsótti ég Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.

Eldvarnarátak Landssambandsins þar sem sér í lagi börn eru frædd um eldvarnir í tengslum við aðventuna er orðin einn af föstu liðunum fyrir jólin og upp vaxa kynslóðir eftir kynslóðir sem hafa lært hvernig ber að umgangast eld þannig að ekki hljóti skaði af og hvernig bregðast á við ef út af ber. Þetta forvarnastarf hefur skilað ótrúlegum árangri ekki síst vegna þess að fræðslan hefur verið þess eðlis að hún hefur vakið áhuga barna og hvatt þau til að gerast erindrekar um brunaöryggismál í sínum fjölskyldum. Árangurinn má ekki síst rekja til þess að átakið hefur verið fastur liður ár eftir ár. Átakið endurspeglar það úthald sem hafa verður í öllum þeim verkefnum sem hafa að markmiði að upplýsa og fræða og breyta hegðun fólks. Úthald sem er nauðsynlegt ætli maður að breyta til hins betra. Þið sem og forverar ykkar í starfi eigið heiður skilið fyrir þetta mikilvæga samfélagsverkefni og má margt af því læra ekki síst fyrir þá sem vinna að breyttu viðhorfi til umhverfis- og náttúruverndarmála.

Í mars síðastliðinn fékk ég tækifæri til að kynnast starfsemi Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ég fékk að taka þátt í útköllum, sjúkraflutningum og taka á við að klippa sundur bíl. Það var vægast sagt magnað að fá að kynnast þessari starfsemi. Að sjá þá einbeitingu og samhæfinu sem er hjá slökkiliðs- og sjúkraflutningsmönnum. Að upplifa og sjá þá miklu kunnáttu og fagmennsku sem er innan raða slökkviliðsins, þeim útbúnaði sem beitt er og síðast en ekki síst þeirri einbeitingu og vinnugleði sem ríkir í þessum samstillta hópi. Ég er þess fullviss að starf slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna getur verið okkur öllum mikilvæg fyrirmynd í því að skilja aðalatriði frá aukaatriðum og vera fljót að bregaðst við þegar raunveruleg verkefni knýja dyra.

Ég geri mér grein fyrir því að sú fagmennska og sú sérhæfing sem ykkar stétt býr yfir hefur ekki komið af sjálfu sér. Hún hefur krafist áralangra baráttu hjá ykkur sem komið að Landsambandinu og hjá forverum ykkar um að fá starfsgreinina viðurkennda sem löggilta starfsgrein og þið hafið stöðugt minnt á mikilvægi þjálfunar og sérhæfingar slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna.

Sú barátta og ykkar metnaður hefur skilað miklu ekki aðeins til ykkar sem starfstéttar heldur einnig til samfélagsins alls sem getur reitt sig á að slökkviliðs- og sjúkraflutningsmenn geta gripið inn hvar og hvernig sem er nánast óháð aðstæðum.

Ég tel mjög mikilvægt að staðið sé vel að menntun og þjálfun slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna, ekki aðeins vegna öryggis borgaranna heldur einnig vegna starfsánægju ykkar og öryggis í starfi. Þekking og fagmennska verður ekki eingöngu kennd með því að setjast á skólabekk en möguleikar til náms og endurmenntunar eru engu að síður nauðsynlegir til að viðhalda starfsánægju og þar með þekkingu og reynslu innan slökkviliða. Menntunarmál slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna hafa því grundvallarþýðingu við skipulag og uppbyggingu brunavarna hér á landi.

Það var því ekki að ástæðulausu að ég skipaði Kristínu Jónsdóttur, endurmenntunarstjóra Háskóla Íslands, sem formann skólaráðs Brunamálaskólans. Mér er tjáð að starf skólaráðsins gangi vel og að þegar liggi fyrir áætlanir um breytt fyrirkomulag í menntun slökkviliðsmanna á þessu ári. Gert er ráð fyrir að hluti af bóklegum námskeiðum sem hafa verið haldin í sveitarfélögum víðsvegar um landið verði fyrirkomið í fjarnámi. Með þessu fyrirkomulagi er gert ráð fyrir töluverði hagræðingu sem vonandi má nýta til menntunarmála. Er rétt að taka fram að þrátt fyrir þessar breytingar verður áfram veittur stuðning við námið eins og verið hefur. Ef vel tekst til er reiknað með að þetta fyrirkomulag verði við lýði um allt land, það er að umrædd námskeið verði kennd í fjarnámi.

Ykkur er flestum kunnugt um tvö frumvörp sem ég lagði fram á Alþingi í mars sem hafa munu áhrif á starfsemi Brunamálastofnunar og lagalegt starfsumhverfi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Ég er hér að tala um frumvarp til laga um mannvirki og frumvarp til laga um breytingu á lögum um brunavarnir. Ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að rekja helstu atriði þessara frumvarpa þar sem þið þekkið þau vel. Ég veit að þið hafið beðið eftir að þau nái fram að ganga en þau hafa verið lögð fram áður af forverum mínum. Ég er full bjartsýnar á að frumvörpin nái fram að ganga á þessu þingi í ljósi þeirra viðbragað sem málið fékk þegar það var flutt á Alþingi.

Góðir gestir.

Þegar skoðaðar eru tölur um tjón af völdum eldsvoða á Íslandi og tölur bornar saman við það sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar, kemur í ljós að manntjón af völdum eldsvoða eru um helmingi minni á íbúa hér á landi en í nágrannalöndunum. Það sama gildir um fjárhagslegt tjón vegna eldsvoða. Ég tel því óhætt að fullyrða að slökkviliðin í landinu eru almennt að standa sig vel.

Það er gott til þess að hugsa að þrátt fyrir að samfélagssáttmálinn hafi rofnað á tímum gróðrarhyggjunnar, þar sem hagsmunir almennings voru fótum troðnir og peningavaldið og auðhyggjan gegnsýrðu allt samfélagið, þá voru starfsstéttir sem ykkar sem héldu trúnað við sitt starf og við fólkið í landinu.

Það fór ekki og fer ekki mikið fyrir ofurlaunum, digrum starfslokasamningum eða lúxusferðum í ykkar starfsumhverfi. En þið fáið önnur laun sem eflaust eru hvað eftirsóknarverðust í dag hjá þeim sem ofurlaunin höfðu. Laun sem fela í sér traust, virðingu og þakklæti frá almenningi sem treystir á að geta leitað til ykkar hvar og hvenær sem er.

Að lokum vona ég að þingið verði ykkur ánægjulegt og árangursríkt um leið og ég óska ykkur farsældar í hinum mikilvægu störfum ykkar í þágu öryggis fólksins í landinu.

Takk fyrir

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum