Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. apríl 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðUAR Fréttir

Grein umhverfisráðherra í Fréttablaðinu - Á ári líffræðilegrar fjölbreytni

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
svsv2

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra birtist í Fréttablaðinu 23. apríl 2010.

Baráttan fyrir líffræðilegri fjölbreytni er barátta fyrir vexti og viðgangi dýra- og plöntutegunda og búsvæða þeirra. Líffræðilegum fjölbreytileika jarðar er nú meðal annars ógnað af fjölgun mannkyns, stækkandi borgum, stórauknum landbúnaði og aukinni sókn í auðlindir lands og sjávar.

Hér á landi stöndum við frammi fyrir margvíslegum verkefnum til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika. Lúpína og skógarkerfill eru ágengar tegundir og erfitt getur reynst að hemja útbreiðslu þeirra. Í Hrísey hafa lúpína og skógarkerfill til að mynda orðið ríkjandi á þeim hluta eyjunnar sem er á náttúruminjaskrá vegna fjölskrúðugs gróðurs og fuglalífs. Þannig geta þessar plöntutegundir ógnað líffræðilegri fjölbreytni hér á landi. Við því hefur nú verið brugðist með því að hefja undirbúning að upprætingu lúpínu og skógarkerfils á hálendinu, í þjóðgörðum og á öðrum friðlýstum svæðum og auk þess verður dreifingu lúpínu hætt nema á skilgreindum landgræðslu- og ræktunarsvæðum. Einnig hefur verið ákveðið að tilnefna í ár, á ári líffræðilegrar fjölbreytni, fleiri votlendissvæði á skrá Ramsar-sáttmálans um verndun votlendis. Þá hefur á undanförnum vikum og mánuðum verið lögð mikil áhersla á það í umhverfisráðuneytinu að ljúka gerð reglugerðar um takmörkun á losun kjölfestuvatns. Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir að framandi lífverur berist með kjölfestuvatni skipa til hafsvæða og stranda umhverfis Íslands.

Ágengar framandi lífverur ógna ekki aðeins jafnvægi í náttúrunni heldur geta þær líka valdið fjárhagslegu tjóni. Áætlað er að það kosti ríki Evrópusambandsins um 14 milljarða evra á ári að berjast við illgresi og dýraplágur og í Bandaríkjunum er talið að tjón vegna sebraskeljar nemi um fimm milljörðum dala árlega. Hér á landi hefur þurft að hefja kostnaðarfrekar aðgerðir til að halda aftur af lúpínu, t.d. í Skaftafelli. Minkurinn slapp á sínum tíma út í íslenska náttúru og hefur valdið svo miklu tjóni að nú er í gangi mjög kostnaðarsamt þriggja ára átak til að reyna að fækka honum. Beinn kostnaður af völdum ágengra innfluttra tegunda er því mjög mikill.

Sunnudagurinn 25. apríl er dagur umhverfisins og í ár er hann tileinkaður líffræðilegri fjölbreytni. Af því tilefni verður efnt til fjölda viðburða og er áhugasömum bent á að nálgast upplýsingar um daginn á slóðinni www.umhverfisraduneyti.is/dagurumhverfisins.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum