Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. apríl 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Úrvinnslusjóðs 2010

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi á varp á ársfundi Úrvinnslusjóðs sem haldinn var þann 29. apríl 2010.

Fundarstjóri, starfsfólk og stjórn Úrvinnslusjóðs, ágætu ársfundargestir.

Það mér sértök ánægja að ávarpa ársfund Úrvinnslusjóðs hér í dag. Þetta mun vera fyrsti ársfundur Úrvinnslusjóðs frá því ég tók við embætti umhverfisráðherra fyrir næstum einu ári síðan. Mér er það ljóst að tilkoma Spillefnanefndar of síðar Úrvinnslusjóðs hefur átt mikinn þátt í því að auka endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs hér á landi. En hvert stefnum við með þau kerfi og stjórntæki er varða úrvinnslu úrgangs? Ég er viss um að þessi spurning brennur á vörum margar ársfundargesta hér í dag. Lög um úrvinnslugjald eru frá árinu 2002, framleiðendur hafa borið ábyrgð á meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs frá 1. janúar 2009 og Endurvinnslan hf. borið ábyrgð úrvinnslu drykkjavöruumbúða sl. 20 ár. Þessi þrjú kerfi eru mismunandi og enn er mikil gerjun í gangi. Já, hvert á að stefna?

Úrvinnslusjóður, undir stjórn fulltrúa atvinnulífsins, sveitarfélaga og ráðuneytisins, sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Þannig er hagrænum hvötum beitt til að stuðla að skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs. Ég tel að mjög góð almenn sátt hafi ríkt um starfsemi Úrvinnslusjóðs, sem og áður um fovera hans, Spilliefnanefnd. Það er ljóst að úrvinnslugjald hefur átt stóran þátt í því að bæta meðferð og auka úrvinnslu úrgangs hér á landi. Sama má segja um starfsemi Endurvinnslunnar. Hér á landi höfum við að mestu haft fyrirkomulag sem hvetur frekar til endurnýtingar úrgangs en að draga úr myndun hans. Þetta fyrirkomulag hefur skilað miklum árangri varðandi endurnýtingu og má t.d. nefna að hlutfall endurvinnslu miðað við magn úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar hefur aukist mikið frá því að Úrvinnslusjóður tók til starfa. Árið 2007 fór um 42% úrgangs í endanlega förgun miðað við 83% árið 1995. Endurvinnsla drykkjarvöruumbúða hefur verið mjög há hér á landi frá því að Endurvinnslan hf. tók til starfa eða að jafnaði nokkuð yfir 80% umbúða. Við þurfum einnig að huga að aðgerðum er draga úr myndun úrgangs.

Fyrirkomulag við söfnun og endurvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgang er með nokkru öðru sniði og hafa komið fram ýmsir hnökrar sem þurft hefur að leysa. Margt af því er búið að leysa og eða komið í farveg lausnar. Vissulega er hér um að ræða flóknara fyrirkomulag sem fyrir bragðið hefur tekið all nokkurn tíma að koma í gang. Af .þessum sökum hafa mál dregist á stundum en ráðuneytið og Umhverfisstofnun sem gegnir mikilvægu eftirlitshlutverki í framkvæmdinni hafa leitast við að gera sitt besta að styðja við framkvæmdina.

Fyrirkomulagið byggir, eins og þið flest þekkið, á því að framleiðendur og innflytjendur bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri kerfis um úrvinnslu raf- og rafeindatækjaúrgang en jafnframt ber þeim að uppfylla skyldur sínar með aðild að skilakerfum eða að reka slíkt skilakerfi sjálfir. Sérstök stýrinefnd, skipuð fulltrúum framleiðenda og innflytjenda, hefur umsjón með skilakerfum, þar á meðal að gæta þess að fyrirtæki sem bera framleiðendaábyrgð uppfylli skuldbindingar sínar. Stýrinefnd hefur einnig það hlutverk að taka á vandamálum sem upp koma.

Á hinum Norðurlöndunum er komin þó nokkur reynsla af kerfum þar sem framleiðendum og innflytjendum hefur verið falinn rekstur og fjármögnun á úrvinnslu úrgangs.

Ég tel að þetta kerfi í kringum raf- og rafeindatækjaúrgang sé komið til að vera og nú er það komið ágætlega af stað. Ljóst er að sníða þarf af því ýmsa tæknilega vankanta eins og alltaf vill verða. Á þeim tíma frá því að lögin tóku gildi hér á landi hefur reynslan sýnt að það eru þættir sem má einfalda og bæta. Sumt af því kallar á lagabreytingar. Tvennt vil ég nefna. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt er að komið verði á skilvirku jöfnunarfyrirkomulagi á milli skilakerfa. Allur raf- og rafeindatækjaúrgangur skal fara til meðhöndlunar og ber skilakerfum að safna honum í hlutfalli við markaðshlutdeild þeirra framleiðenda og innflytjenda sem eiga aðild að hlutaðeigandi skilakerfi. Upp getur komið sú staða að eitt skilakerfi safni meira en því ber miðað markaðshlutdeild og ber þannig meiri kostnað en það ætti að gera, en getur engu að síður reynst hagkvæmt fyrir framleiðendur í heild sem bera kostnaðin. Til þess að hvetja skilakerfin til þess að safna sem mestum raf- og raftækjaúrgangi með sem minnstum tilkostnaði tel ég mikilvægt að setja sem fyrst skýr ákvæði í lög um að skilakerfi sem safni meira en því ber eigi fjárkröfu gagnvart öðrum skilakerfum. Í öðru lagi er mikilvægt að allir séu með og því þarf að kveða á um það í lögum að tollafgreiðsla raf- og rafeindatækis sé háð því að innflytjandi sé aðili að skilakerfi og skráður í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.

Lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, sem oft hafa verið kölluð „Endurvinnslulögin“ voru sett árið 1989. Þannig hefur núverandi kerfi varðandi endurvinnslu drykkjarvöruumbúða verið við lýði yfir tuttugu ár. Samkvæmt lögum um úrvinnslugjald er gert ráð fyrir að hluti af starfsemi Endurvinnslunnar hf. færist til Úrvinnslusjóðs og í ákvæði til bráðabirgða í sömu lögum að Endurvinnslan hf. starfi til 1. janúar 2011. Í lögunum er gert ráð fyrir því að Úrvinnslusjóði sé heimilt að undirbúa samning við Endurvinnsluna hf. sem byggir á þeim sömu forsendum og eldri löggjöf, þ.e. að skilagjald verði áfram innheimt af framleiðendum og innflytjendum og að innheimtumaður ríkissjóðs innheimti gjaldið. Þessi háttur grundvallast á eldri framkvæmd þessara mála, á því kerfi sem upphaflega var komið á fót með lögbundu einkaleyfi til eins fyrirtækis til að annast rekstur skilakerfis í nánum tengslum við hið opinbera.

Miklar breytingar hafa orðið á allri tilhögun um úrvinnslu úrgangs frá því að lög um úrvinnslugjald voru sett árið 2002 og er m.a. nú lögð aukin áhersla á ábyrgð framleiðenda vegna meðhöndlunar úrgangs og að opinberir aðilar lágmarki þátttöku sína og kostnað af úrgangsmeðhöndlun. Þannig skuli einstaka framleiðslugreinar taka að sér að annast söfnun þess úrgangs sem fellur til í viðkomandi grein og framleiðendur taki því yfir á sína ábyrgð og kostnað að safna, endurnýta úrgang og þar með að vernda umhverfið gegn mengun af völdum þess úrgangs. Frá 1. janúar 2009 hafa framleiðendur og innflytjendur borið ábyrgð á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Þar er kveðið á um að framleiðendur og innflytjendur raftækja skuli fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs. Í skoðun hefur verið að setja drykkjarvöruumbúðir í svipað kerfi sem framleiðendur bæru ábyrgð á, en nauðsynlegt er að huga vel að því að nýtt fyrirkomulag verði ekki til að auka kostnað við söfnun og endurvinnslu frá því sem verið hefur, enda fyrirkomulagið reynst vel.

Sjónarmið um framleiðendaábyrgð eru ekki ný af nálinni í íslenskri löggjöf, sbr. t.d. yfir 25 ára gömul ákvæði sem eru í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda þar sem kveðið er á um að þeim sem annast dreifingu og sölu á olíu sé skylt að taka við olíuúrgangi frá skipum og frá starfsemi í landi og tryggja viðunandi eyðingu og ákvæði í lögum um úrvinnslugjald sem heimilar fyrirtækjum og atvinnugreinum að semja við Úrvinnslusjóð til að tryggja úrvinnslu úrgangs vegna svartolíu og veiðarfæra úr gerviefnum.

Í samræmi við hina almennu kröfu um aukna ábyrgð framleiðenda á meðhöndlun úrgangs hefur verið skoðaður sá möguleiki að framleiðendum og innflytjendum sé gert kleift að starfrækja skilakerfi á eigin ábyrgð sem uppfylli sett markmið samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs. Litið hefur verið til Svíþjóðar og er einnig verið að skoða fyrirkomulag í Danmörku.

Veruleg reynsla er komin á rekstur skilakerfis fyrir einnota drykkjarvöruumbúðir hér á landi. Undanfarin 20 ár hefur verið starfrækt hagkvæmt og skilvirkt skilakerfi sem almenn sátt hefur ríkt um og þjónað hefur þeim hagsmunum sem taka ber tillit til við rekstur slíks kerfis, þ.e.a.s. sjónarmiðum um umhverfis- og neytendaverndar. Skil á einnota drykkjarvöruumbúðum hafa verið góð hér á landi og kerfið frekar aðgengilegt fyrir neytendur þó að þar megi auðvitað alltaf bæta um betur. Mikilvægt er að halda í þann árangur sem Endurvinnslan hf. hefur náð og ber að hafa það að leiðarljósi við breytingar á úrgangslöggjöfinni.

Ráðuneytið hefur átt í viðræðum við Samtök iðnaðarins, framleiðendur og Endurvinnsluna um þetta mál.

Mikilvægt er að niðurstaða liggi fyrir fljótlega og er stefnt að því.

Ég stefni að því að leggja fram til kynningar nú á vorþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs þar sem m.a. verður kveðið á um meðferð drykkjavöruumbúða og breytingar vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs.

Ríkisstjórnin hefur það á dagskrá sinni að endurskoða lög um meðhöndlun úrgangs með þarfir almennings og umhverfis að leiðarljósi í því skyni að ná markmiðum um að dregið verði úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og auka endurnýtingu. Rammatilskipun Evrópusambandsins (2008/98/EB) um úrgang tók gildi í lok árs 2008. Áhersla í nýrri tilskipun er meðal annars á að styrkja aðgerðir til að draga úr myndun úrgangs og innleiða lífferilshugsun. Markmið tilskipunarinnar er að vernda umhverfi og heilsu með því að minnka neikvæð áhrif úrgangsmeðhöndlunar sem og að minnka heildaráhrif auðlindanotkunar og auka hagkvæmni í notkun þeirra.

Ágætu fundarmenn,

Eins og þið heyrið þá eru fjölmargar áskoranir sem bíða okkar á næstunni við að bæta árangur í söfnun, flokkun og endurvinnslu úrgangs. Vissulega eru oft skiptar skoðanir um hvaða leiðir er best að fara og misjöfn sýn manna á það hvernig farsælast er að leysa þessi verkefni af hólmi. Það er ljóst að leiðirnar eru margar. Það þarf að skoða þessi mál í samhengi og hafa í huga aðstæður hér á landi vil val þeirra leiða sem við förum. Ráðuneytið mun hér eftir sem hingað til leitast við að hafa sem best samráð við þá aðila sem hagsmuni eiga að gæta og besta þekkingu hafa á þeim málum sem verið er að vinna með í ráðuneytinu á hverjum tíma. Þannig vænti ég að okkur takist að feta okkar áfram um þær leiðir sem best munu gagnast okkur.

Góðar stundir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum