Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. apríl 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi til heiðurs Ingva Þorsteinssyni áttræðum.

Svandís Svavarsdóttir flutti eftirfarandi ávarp á málþingi sem haldið var til heiðurs Ingva Þorsteinssyni náttúrufræðingi þann 29. apríl 2010.

Kæru gestir,

Í dag erum við samankomin til að heiðra eldhugann Ingva Þorsteinsson. Ég þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum um manninn, aðrir hafa séð um það hér í dag. En afrekalistinn er aðdáunarverður, Ingvi var til að mynda forystumaður í Landvernd og Gróðri fyrir fólk í Landnámi Ingólfs og einn af stofnendum félaganna. Og hann hefur haft veg og vanda að kortlagningu gróðurs hér á landi og Grænlandi.

Með störfum sínum hefur Ingvi hlúð að einni mikilvægustu auðlind íslensku þjóðarinnar; grónu landi og jarðvegi. Þetta er sú auðlind sem þjóðin byggði afkomu sína á að mestu leyti frá landnámi og fram á 20. öld. Ofnýting hennar gerði það að verkum að gróðureyðing og uppblástur hafa um aldir verið stærsta umhverfistjón sem mannskepnan vann á landinu. Jarðvegsrof hefur orðið á um 40% landsins og stærri hluti skóga hefur eyðst hér af mannavöldum en í nær öllum öðrum löndum, eða um 95%.

Það var því af brýnni þörf sem stjórnvöld hófu skipulegar aðgerðir gegn uppblæstri og landeyðingu fyrir réttri öld. Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins og félagasamtök hafa leitt þá baráttu æ síðan og þar hefur Ingvi Þorsteinsson staðið í fremstu röð.

Í störfum sínum hefur Ingvi lagt áherslu á að bændur væru vörslumenn landsins. Það er slíkt hugarfar sem þarf að vera grundvöllur í starfi stjórnvalda og alls áhugafólks um umhverfismál. Það þarf að vekja allan almenning til meðvitundar um að við erum öll vörslumenn landsins og alls náttúrulegs umhverfis okkar. Þessi afstaða Ingva og fleiri forystumanna í landgræðsluhreyfingunni hefur meðal annars skilað sér í því að æ stærri hluti landgræðslustarfs er unninn af bændum sjálfum og nú eru rúmlega fimmhundruð bændur þátttakendur í verkefninu ,,bændur græða landið.” Og sama hugarfar hefur verið haft að leiðarljósi í þeim félögum og samtökum sem Ingvi hefur stofnað og leitt. Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs hefur átt gott samstarf við ýmsar mennta- og uppeldisstofnanir um uppgræðslustarf nemenda og Landvernd hefur haft umsjón með Grænfánanum, líklega best heppnaða umhverfisfræðsluverkefni sem unnið hefur verið hér á landi. Bæði þessi félög hafa því haft það að leiðarljósi að innræta þá hugsun í unga Íslendinga að þeir séu vörslumenn landsins.

Barátta Ingva fyrir bættum landgæðum og endurheimt landkosta hefur ekki einungis skilað árangri hér á landi, heldur hefur hann haft áhrif víða um heim. Störf hans að landgræðslu og kortlagningu gróðurs eru meðal þeirra stoða sem Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna var byggður á hér á landi. Skólastarfið, sem byggir að miklu leyti á reynslu Ingva og hans þekkingu, er eitt markverðasta framlag íslensku þjóðarinnar í alþjóðasamfélaginu nú um stundir, en fyrr á þessu ári var landgræðsluskólinn gerður að formlegum aðila að Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Nú þegar hafa sautján nemendur frá átta þróunarríkjum útskrifast frá skólanum. Ingvi og aðrir forystumenn á sviði landgræðslu hér á landi eru því útrásarvíkingur sem við getum verið stolt af.

Kæru félagar. Hér hefur í dag verið fjallað um stórmerkilegt ævistarf Ingva Þorsteinssonar. Hann hefur unnið sín störf af framsýni og dugnað, en ekki síður af áhuga og ástríðu. Og mér er sagt af þeim sem til þekkja að Ingvi hafi öðrum fremur haft lag á að hrífa fólk með sér. Á næstu árum og áratugum bíða okkur mikil og krefjandi verkefni á vettvangi umhverismála, ekki síst loftslagsmála. Og við megum ekki gleyma því á þeirri vegferð sem er framundan að það er ekki nóg að upplýsa fólk um stöðu umhverfismála, það þarf líka að sannfæra það um þær breytingar sem gera þarf á samfélaginu. Og þá þurfum við að bera okkur að eins og Ingvi, sem hefur nýtt hæfileika sína og þekkingu til þess að fræða samferðarfólk sitt en ástríðuna og áhugann til að sannfæra það.

Um leið og ég þakka Ingva fyrir hans ómetanlega framlag til umhverfismála þá óska ég honum velfarnaðar á komandi árum og brýni fyrir okkur öllum að hafa hans aðferð að leiðarljósi, að hrífa fólkið með okkur, náttúran og umhverfið þurfa á því að halda um ókomna tíð.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum