Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. júlí 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra við opnun Surtseyjarstofu

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarpaði gesti við opnun Surtseyjarstofu í Vestmannaeyjum 2. júlí 2010 með eftirfarandi orðum.

Ágætu gestir

Í dag er opnuð Surtseyjarstofa en undirbúningur að henni hefur formlega staðið yfir undanfarin tvö ár hjá Umhverfisstofnun. Starfsemi Surtseyjarstofu snýst annars vegar um að hafa eftirlit og umsjón með friðlandinu Surtsey og heimsminjasvæðinu Surtsey og hins vegar að veita upplýsingar og fróðleik um friðlandið.

En verndarsaga Surtseyjar á sér miklu lengri sögu. Surtsey var upphaflega friðlýst árið 1965 þegar eldvirkni var enn í gangi. Það var mikil framsýni þeirra einstaklinga sem að komu á þeim tíma að friðlýsa Surtsey enda vissu menn ekki hvort þessi nýja eyja myndi standast ágang sjávar í fyllingu tímans. Vísindamenn sáu einstakt tækifæri til þess að fylgjast með myndun og mótun eyjarinnar og ekki síst að fylgjast með landnámi dýra og plantna, bæði ofansjávar og neðansjávar.

Markmiðið með friðlýsingu Surtseyjar er að tryggja að þróun eyjarinnar verði eftir lögmálum náttúrunnar sjálfrar. Tilgangur friðunarinnar er að tryggt verði að landnám plantna og dýra, framvinda lífríkis og mótun jarðmyndana verði með sem eðlilegustum hætti og truflun af völdum manna verði sem minnst. Friðlýsingin byggir m.a. á því að svæðið hefur hátt vísinda- og náttúruverndargildi á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða, þar eru heildstæðar og óraskaðar náttúruminjar sem endurspegla náttúrulega þróunarferla og eru afar viðkvæmar fyrir röskun.

Það var síðan um haustið 2005 að íslensk stjórnvöld ákváðu að tilnefna Surtsey á heimsminjaskrá UNESCO og sá Náttúrufræðistofnun Íslands um tilnefninguna hennar. Á fundi heimsminjanefndar UNESCO í Québec í Kanada þann 7. júlí 2008 var samþykkt að setja Surtsey á heimsminjalistann sem einstak náttúruminjasvæði á grundvelli mikilvægi rannsókna og vöktunar á landnámi dýra og plantna ásamt þróun eyjunnar og framvindu lífríkis Surtseyjar. Það var mikill heiður og viðurkenning fyrir alla Íslendinga, en sérstaklega fyrir Vestmannaeyinga, að Surtsey skildi vera sett á heimsminjaskrá UNESCO. En við megum ekki gleyma að viðurkenningu sem þessari fylgir jafnframt mikil ábyrgð um áframhaldandi verndun Surtseyjar.

Surtsey er annað svæðið á Íslandi sem er samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO, en Þingvellir voru samþykktir árið 2004 og þá sem einstakur staður menningarminja. Surtsey er í dag á heimsminjaskrá ásamt 176 öðrum náttúruminjasvæðum um allan heim.

Á þessum lista má finna náttúruperlur eins og Kóralrifið mikla í Ástralíu, Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum og Dólómítafjöllin á Ítalíu. Ekki slakur hópur það.

Þegar Surtsey var tilnefnd á heimsminjaskrá UNESCO var ljóst að efla þyrfti fræðslu og kynningarstarf um sérstöðu eyjarinnar. Náttúrufræðistofnun Íslands bauðst til að setja upp sýningu um náttúrufar Surtseyjar til tveggja ára í Þjóðmenningarhúsinu á goslokaafmæli eyjunnar um mitt ár 2007 en einnig var hafinn undirbúningur að gestastofu í Vestmannaeyjum. Nú er þessi hugmynd orðin að veruleika með opnun þessarar glæsilegu gestastofu á goslokahátíð Vestmannaeyja.

Surtseyjarstofa er komin til að vera í Vestmannaeyjum.
Í Surtseyjarstofu er til staðar upplýsingamiðstöð um friðlandið og sýning sem á að endurspegla verndargildi og sérstöðu þessarar merkilegu eldfjallaeyju. Á sýningunni kynnumst við þeim eldsumbrotum sem urðu við myndum Surtseyjar og landnámi og þróun þess lífríkis sem hefur tekið sér bólfestu á eynni.

Hér er mikill fróðleikur samankominn sem nýtist til fræðslu, miðlun upplýsinga og almenna eflingu friðlandsins.

Góðir gestir

Dagurinn í dag markar tímamót fyrir friðlandið og heimsminjasvæðið Surtsey en síðast en ekki síst fyrir Vestmannaeyinga. Líklega eru fá samfélög sem lifa og hrærast í eins miklu návígi við náttúruna og náttúruöflin eins og Vestmannaeyingar. Ykkar samfélag á allt sitt undir náttúruauðlindum og er nærtækast að nefna fiskimiðin í því sambandi. Þið hafið þurft að hörfa tímabundið fyrir náttúruöflum líkt og í gosinu 1973 en ykkar samfélag snéri aftur hóf endurreisn þrátt fyrir það sem á undan var gengið og hélt áfram að lifa í návígi við náttúruöflin. Það er því varla hægt að hugsa sér betri vörsluaðila fyrir náttúruperluna Surtsey en einmitt Vestmannaeyinga sem á eigin skinni þekkja hvað best samspil manns og náttúru.

Ég vil óska Vestmannaeyingum og þeim sem hafa komið að undirbúningi Surtseyjarstofu innilega til hamingju með þennan merka áfanga og óska ykkur velfarnaðar í framtíðinni.

Ég býð ykkur velkomin í Surtseyjarstofu og lýsi hana hér með formlega opnaða.

Takk fyrir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum