Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. nóvember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra við afhendingu Landgræðsluverlaunanna 2010

Hafdís Gísladóttir aðstoðarmaður umhverfisráðherra flutti ávarp ráðherra við afhendingu Landgræðsluverlaunanna í Gunnarsholti 11. nóvember 2010.

Ágætu handhafar Landgræðsluverðlaunanna,
landgræðslustjóri, starfsfólk Landgræðslu ríkisins, góðir gestir,

Það er mér sérstök ánægja og heiður á fá að vera með ykkur hér í dag.

Sérstaklega vil ég óska handhöfum landgræðsluverðlaunanna til hamingju; bændunum Ársæli Hannessyni Stóra-Hálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Hermanni Herbertssyni Sigríðarstöðum í Þingeyjarsveit, Ingólfi Helgasyni og Unni Sveinbjörnsdóttur Dýrfinnustöðum í Skagafirði; sveitarfélaginu Sandgerðisbæ og grunnskólanum Þjórsárskóla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Þið eru öll afar verðugir handhafar þessara mikilvægu viðurkenningar stjórnvalda fyrir afburðastarf við uppgræðslu landsins. Við búum í stóru landi - landi þar sem gengið var ótæpilega á auðlindir gróðurs og jarðvegs um aldir - svo mikið að íslensk vistkerfi eru enn verulega löskuð, líffræðileg fjölbreytni hefur tapast og framleiðsla er lítil.

Sem betur fer hefur hins vegar starf við gróður- og jarðvegsvernd náð að verða sameiginlegt verkefni þjóðarinnar og hefur einstakur árangur náðst í því að virkja þegna samfélagsins í þágu landsins og þar með framtíðarinnar. Þið, þessi glæsilegi hópur verðlaunahafa hér í dag, eruð þverskurður þessa. Stjórnvöld meta afar mikils ykkar óeigingjarna starf, sem verður vonandi til að hvetja aðra til frekari dáða. Gangi ykkur áfram vel í ykkar störfum.

Góðir gestir,

Það er jákvæður andi sem fylgir því að koma hér til Landgræðslunnar í Gunnarsholti.

Að undanförnu hefur mætt mikið á starfseminni hér, en Landgræðslunni voru falin umfangsmikil verkefni til að takast á við afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli fyrr á árinu. Sem betur fer stefnir í, að það verði ekki óviðráðanlegt verkefni og lífið í sveitunum í kring komist fljótt í hefðbundin farveg. Ég lít svo á að við þurfum að læra af viðbrögðunum við þessu eldgosi, til að vera enn betur í stakk búin að takast á við slíkt í framtíðinni. Það var kannski lán hvernig vindáttirnar voru meðan á gosinu stóð, en annars hefði öskufall getað valdið margföldum spjöllum á landi.

Á komandi árum og áratugum eru önnur eldfjöll hér í nágrenninu sem gætu orðið til vandræða, svo sem þær stöllur Hekla og Katla.

Ég vil nota þetta tækifærið til að þakka ykkur starfsfólki Landgræðslunnar fyrir ykkar framlag í verkefnum tengdum eldgosinu, sem ég veit að hafa skipt miklu fyrir uppbygginguna á svæðinu. Ekki bara hvað varðar gróðurbætur og varnir gegn eðjuflóðum, heldur einnig til að byggja upp framtíðartrú meðal íbúa í sveitunum í kringum eldfjallið eftir þetta áfall.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að Landgræðsla ríkisins sé í miklu og nánu sambandi við bændur og aðra vörslumenn lands. Það er staðreynd að stór hluti Íslands er í eigu og umsjón bænda, sem jafnframt eiga réttindi til beitarnytja á þjóðlendum ríkisins. Það þarf að vera sameiginlegt viðfangsefni bænda og Landgræðslunnar að koma málum þannig fyrir að öll landnýting verði sjálfbær, og að haldið verði áfram öflugu starfi við endurheimt þeirra landkosta sem hafa tapast undanfarna áratugi. Þar eiga og þurfa hagsmunir umhverfisyfirvalda og bænda að fara saman.

Íslenskur landbúnaður þarf að byggja á sjálfbærri nýtingu lands - og þannig og einungis þannig - mun hann halda áfram að eflast og dafna.

Í því samhengi - og þar sem líður að jólum - má rifja upp stutt en ágætt ljóð skáldsins Einars Más Guðmundssonar frá árinu 2002 sem heitir „Jólaljóð“:

saklausu lömbin í biblíunni,

eru lærisneiðar á jólunum.

Góðir gestir,

Fyrr í dag kynnti ég á opnum fundi í gamla Tjarnarbíó aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Þar skiptir landgræðsla miklu sem aðgerð til að mæta þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Ég vil jafnframt líta á landgræðsluaðgerðirnar í víðtækara samhengi; sem hluta af því nauðsynlega verkefni að endurheimta tapaða landkosti. Það er mikilvægt starf sem leggur lóð á vogarskálar loftslagsmála, en ekki síður hvað varðar líffræðilega fjölbreytni, vatnsmiðlun og almenna náttúruvernd svo nokkur dæmi séu tekin.

Endurheimt raskaðra vistkerfa var einnig eitt þeirra atriða sem samkomulag náðist um á síðast Aðildarríkjaþingi samningsins um líffræðilega fjölbreytni í Nagoya í Japan í síðasta mánuði, en árið 2010 er einmitt alþjóðlegt ár líffræðilegs fjölbreytileika. Þar var samþykkt áskorun um að ríki heims skuli stefna að endurheimt a.m.k. 15% af þeim vistkerfum sem raskað hefur verið af mannavöldum og það fyrir árið 2020. Þetta er mikilvæg áskorun fyrir Ísland, þar sem rask á votlendi, skógum og öðrum gróðurvistkerfum hefur verið afar mikið.

Þetta eru því allt samhangandi ferlar sem tengjast landgræðslustarfinu í landinu á einn eða annan hátt og sem mikilvægt er að umhverfisráðuneytið og Landgræðslan haldi áfram að eiga gott samstarf um.

Ágætu gestir,

Þó ég hafi komið inn á alþjóðlegt samhengi landgræðslumála er það auðvitað svo að allur árangur byggir síðast en ekki síst á athöfnum heimafyrir.

Hér í dag er verið að veita hópi fólks með mjög fjölbreyttan bakgrunn Landgræðsluverðlaunin.

Þessi fjölbreytti hópur endurspeglar ágætlega mikilvægi þess að stjórnvöld vinni með fólkinu í landinu að verkefnum sem tengjast endurheimt landkosta. Framkvæmdir við endurheimt landgæða og sjálfbæra nýtingu lands þurfa að byggjast á samstarfi og aðkomu almennings og þeirra sem eiga landið. Ég veit að Landgræðslan hefur lagt mikla áherslu á slíkar nálganir – sem oft eru kallaðar grasrótarnálganir - í sínum störfum undanfarin ár með góðum árangri og vil ég brýna ykkur til dáða að halda áfram á sömu braut. Sjálfbær umgengni um landið er siðferðileg skylda okkar allra.

Landgræðslu ríkisins vil ég að síðustu þakka fyrir þennan viðburð og þeirra frumkvæði. Hér í Gunnarsholti hafa verið byggðar upp glæsilegar höfuðstöðvar öflugrar stofnunar á landsbyggðinni. Mínar bestu kveðjur til ykkar allra sem hér starfið.

Að lokum við ég endurtaka heillaóskir mínar til handhafa Landgræðsluverðlaunanna. Gæfa fylgi öllum ykkar störfum áfram.

Takk fyrir

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum