Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. nóvember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á málstofu um náttúruvernd og ferðaþjónustu

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi um náttúruvernd og ferðaþjónustu sem haldið var á Grand Hóteli 18. nóvember 2010.

Góðir gestir,

Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt um árabil og er fyrir löngu orðin ein af mikilvægustu atvinnuvegum landsmanna. Heimsóknir erlendra ferðamenna á ári hverju eru nú mun fleiri en sem nemur íbúatölu landsins, sem er ekki raunin nema hjá vinsælustu ferðamannalöndum heims. Hlutfall erlendra ferðamanna á íbúa er nú hærra á Íslandi en í Frakklandi, Spáni og Ítalíu. Vægi ferðaþjónustunnar hefur aukist enn í kreppunni, tekjur af ferðamönnum námu að talið er um 155 milljörðum árið 2009. Spár benda til að fjöldi ferðamanna gæti farið innan eins eða tveggja áratuga yfir milljón manns, eða sem nemur þrefaldri íbúatölu landsins. Erum við í stakk búin til að taka á móti þeim svo vel sé?

Náttúra Íslands er sú auðlind sem ferðaþjónustan byggir fyrst og fremst á. Mikill meirihluti erlendra ferðamanna segist koma fyrst og fremst til að upplifa náttúruna, sem er mjög ólík því sem þekkist í þéttbýlli löndum og nær því að teljast ósnortin. Náttúra Íslands er óneitanlega stórfengleg, með eldfjöllum sínum, jöklum og fossum, en hún getur líka verið viðkvæm.

Í ferðamálafræðum er talað um að vinsælir ferðamannastaðir eigi á hættu að verða „elskaðir til óbóta“ ef ásýnd þeirra breytist til hins verra með fólksmergð, traðki, rusli, skipulagslausri uppbyggingu og öðrum fylgifiskum mikils álags. Fjölmörg dæmi eru um að falleg svæði hafi orðið skyndilegum vinsældum að bráð, svo aðdráttarafl þeirra dvínar og náttúran bíður skaða af.

Sem betur fer er það ekki regla að vinsældir leiði til vandræða. Það eru fjölmargar leiðir til að koma í veg fyrir slíkt, með því að skipuleggja svæðin vel, byggja innviði sem falla að náttúru og landslagi, efla landvörslu, byggja stíga og fræða ferðamenn um hvað ber að varast. Eitt helsta ferðatímarit heims gefur mörgum helstu ferðamannastöðum heims einkunn árlega eftir því hversu vel hefur tekist til við að bregðast við álagi. Norsku firðirnir eru þar ofarlega á lista yfir staði þar sem eru góðir innviðir til að taka við fjölda ferðamanna án þess að þess sjáist neikvæð merki, svo dæmi sé tekið, en ýmsar sólarstrendur fá falleinkunn fyrir of hraða uppbyggingu og lélegar mengunarvarnir, sem fær vandfýsna ferðamenn til að leita annað.

Ísland er ekki með í þessum samanburði og erfitt að meta hvernig við stöndum í samanburði við önnur ríki sem róa á svipuð mið í ferðaþjónustunni. Rannsóknir eru fáar og aðferðafræðin ekki eins þróuð og t.d. við mat á beitarþoli lands eða veiðiþoli þorsks. Slíkar rannsóknir eru þó til og vant auga getur metið álag og skemmdir. Ég óskaði eftir því fyrir nokkru að Umhverfisstofnun mæti hvaða svæði væru undir mestu álagi og hvað væri til ráða til að bæta úr því.

Niðurstaðan úr þeirri athugun verður birt hér á eftir, en það vekur athygli að margir þekktustu ferðamannastaðir okkar hafa látið á sjá. Geysissvæðið og Gullfoss eru þar á meðal, auk Landmannalauga og Mývatn er einnig meðal þeirra svæða þar sem umbætur eru brýnastar. Þessi svæði eru eins konar andlit Íslands út á við og meðal okkar dýrmætustu náttúrugersema.

Þetta er áhyggjuefni, en við megum þó ekki mikla vandann um of. Vandinn er fyrst og fremst á afmörkuðum svæðum og það er hægt að bregðast við honum. Það þarf heldur ekki að kosta mikið að bæta úr þar sem ástandið er verst, þegar tekið er mið t.d. af þeim tekjum sem ferðaþjónustan skapar. Bætt landvarsla, skipulag, aðstaða og stígagerð eru ekki óyfirstíganlega fjárfrekar aðgerðir, en geta skilað miklu. Það er hins vegar ekki kostur í stöðunni að gera ekki neitt. Sinnuleysi um náttúruperlur okkar er vond fyrir framtíð ferðaþjónustu og þá ímynd sem við viljum skapa af Íslandi sem ferðamannalandi. Frá sjónarhóli náttúruverndar er það óásættanlegt.

Í greinargerð sinni bendir Umhverfisstofnun á ýmsar leiðir til að bæta ástandið. Þær eru fæstar mjög dýrar, en engu að síður er spurning hver eigi að borga. Kostnaður við náttúruvernd er að mestu leyti fjármagnaður af skattfé, enda er náttúra landsins ein okkar dýrmætasta eign sem þjóðar. Það er hins vegar eðlilegt að kostnaður við aðstöðu og umbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum sé á einhvern hátt borinn af ferðamönnunum. Það er í samræmi við nytjagreiðsluregluna svokölluðu, sem er einn af hornsteinum umhverfisréttar og það er í samræmi við almenn sanngirnissjónarmið.

Ferðamenn sýna hóflegri gjaldtöku oftast skilning ef þeir sjá að fénu er sannanlega varið í góða aðstöðu og metnaðarfulla vernd náttúrunnar sem þeir koma til að upplifa. Það eru hins vegar skiptar skoðanir hvaða fyrirkomulag er best í þessu sambandi. Á þessum fundi er ætlunin að velta upp ýmsum sjónarmiðum um hvaða svæði eru helst undir álagi, hvaða aðgerðir duga best við slíku og hvernig sé best og réttast að fjármagna þær.

Umræðan um þessi mál er brýn í ljósi vaxandi fjölda ferðamanna og aukinnar kröfu um náttúruvernd. Ferðamenn eru ekki ógn við náttúruvernd, heldur má segja þvert á móti að vaxandi ferðaþjónusta styrki kröfuna um náttúruvernd. Fyrirhyggjuleysi við móttöku ferðamanna er hins vegar ógn. Vanbúnaður í þeim efnum getur valdið skemmdum á náttúru Íslands og takmarkað möguleika ferðaþjónustu til vaxtar.

Framtíðarsýn okkar getur ekki bara snúist um fjölda ferðamanna – hvort sem hann er milljón á ári eða önnur tala – heldur hlýtur það að vera markmið okkar að Ísland verði eftirsóttur áfangastaður fólks sem vill sjá stórbrotna náttúru og víðerni en njóta um leið öryggis og þæginda. Við megum aldrei taka Gullfossi, Geysi, Mývatni, Skaftafelli, Þingvöllum og öðrum vinsælustu náttúruperlum okkar sem sjálfsögðum hlut. Þær eru hluti af okkar þjóðararfi og þær eru andlit okkar gagnvart umheiminum. Náttúrufegurð Íslands malar okkur gull og mun gera það áfram um langa framtíð, svo fremi að okkur beri gæfa til að vernda náttúruna gegn átroðningi og búa vinsælustu gersemum hennar umgjörð við hæfi. Allir þeir sem starfa að náttúruvernd og ferðaþjónustu þurfa að taka saman höndum til að svo verði.

Takk fyrir,

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum