Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. febrúar 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra - friðlýsing verndarsvæðis fugla í Andakíl.

Svandís Svavarsdóttir flutti eftirfarandi ávarp í athöfn á Hvanneyri sem haldin var á Alþjóðlega votlendisdaginn 2. febrúar 2011 í tilefni að undirritun friðlýsingar verndarsvæðis fyrir fugla í Andakíl.

Landeigendur, aðstoðar-rektor og aðrir gestir,

Ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með daginn en í dag er tvöfalt tilefni til þess að fagna. Fyrst er að nefna stækkun verndarsvæðisins hér á Hvanneyri og síðan er 40 ára afmæli Ramsar samningsins um verndun votlendis með alþjóðlega þýðingu.

Verndarsvæði blesgæsar á Hvanneyri var friðlýst árið 2002 og er um 1700 hektarar að stærð. Hugmyndir um að gera svæðið að Ramsar svæði fyrri 2 árum hleypti af stað umræðu um að stækka svæðið þannig að stærri vistfræðileg heild nyti verndunar og alþjóðlegt gildi verndarsvæðisins yrði meira. Björn Þorsteinsson og Ragnhildur Helga Jónsdóttir hófust þegar handa við að ræða við landeigendur um stækkun svæðisins. Er það sérstaklega ánægjulegt hvað landeigendur tóku þessari málaleitan vel og hafa verið jákvæðir og áhugasamir um þessa friðlýsingu frá upphafi.

Það er eftirtektarvert hvað skilningur og áhugi þeirra hefur verið mikill og fyrst og fremst áhuga landeigenda að þakka að við erum að stækka verndarsvæðið í dag upp í rúmlega 3.000 hektara.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka landeigendum þeirra 13 jarða sem að hluta til bætast við verndarsvæðið fyrir stuðninginn við stækkun svæðisins og óska þeim sérstaklega til hamingju með þessa ákvörðun. Það er ekki á hverjum degi sem friðlýsingu til verndar náttúrunni er mætt með slíkum velvilja og áhuga meðal landeigenda.

Ég vil jafnframt þakka starfsmönnum Landbúnaðarháskólans hér að Hvanneyri fyrir þeirra áhuga og framgöngu við undirbúning þessarar friðlýsingar og fyrir þá alúð sem þeir hafa sýnt þessu verkefni.

Það var sannarlega áhugi fyrir friðlýsingu hér fyrir átta árum þegar Hvanneyrarjörðin var friðlýst og ljóst að sú friðlýsing hefur lagst vel í íbúa svæðisins og frekar aukið áhuga á náttúruvernd.

Stofnun Votlendisseturs hér á Hvanneyri er skýrt vitni um þennan áhuga og lýsir eindregnum vilja háskólans til þess að vinna ötullega að votlendisrannsóknum, verndun votlendis og endurheimt og að loftslagsmálum í heild m.t.t. mikilvægis votlendis í hringrás koltvísýrings og bindingu þess í votlendi.

Alþjóðlegi votlendisdagurinn er haldinn árlega 2. febrúar og eins og ég nefndi í upphafi er samningurinn 40 ára í dag. Á þessum 40 árum hafa orðið miklar breytingar á áherslum samningsins og hefur aukin áhersla verið lögð á skynsamlega nýtingu votlenda samhliða verndun þeirra og eflingu fuglastofna sem nýta votlendi sem búsvæði. Í friðlýsingunni er eimitt lögð áhersla á að hefðbundin nýting votlendisins hér í Andakíl haldist áfram. Þetta griðland skiptir gríðarlega miklu máli fyrir blesgæsina sem hvíldar og fæðusvæði vor og haust á ferðum hennar til og frá varpstöðvunum á Grænlandi. Stofninn telur ekki nema rúmlega 30.000 fugla og stór hluti hans nýtur góðs af þessum gjöfulu votlendis og mýrarsvæðum sem og túnum landeigenda hér í Andakíl. Mikilvægi svæðisins fyrir aðrar tegundir fugla er einnig mikið.

Mikilvægi votlendissvæða er margþætt. Þau hafa mikið efnahagslegt gildi þar sem þau eru uppspretta margvíslegra auðlinda og fæðu, til dæmis fiska og fugla og eru vinsæl svæði fyrir ferðaþjónustu. Votlendi eru mikilvæg við vatnsmiðlun og hreinsun vatns og þau draga einnig úr áhrifum flóða.

Þau eru mikilvæg við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en losun frá framræstu votlendi er veruleg, meira en til dæmis frá allri flugumferð. Vernd og endurheimt votlendis er því mikilsvert verkefni á sviði sjálfbærrar þróunar og til verndar lífríkis og loftslags. Verulega hefur gengið á votlendi hér á landi sem annarstaðar. Í Árþúsundaskýrslu Sameinuðu þjóðanna sem gefin var út 2005 kemur fram að votlendissvæði eyðast hraðar en nokkur önnur vistkerfi á jörðinni.

Markmið Ramsarsamningsins er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, með áherslu á vernd alþjóðlegra mikilvægra svæða sem eru búsvæði votlendisfugla. Hvert aðildarríki samningsins er skuldbundið til að tilnefna að minnsta kosti eitt alþjóðlega mikilvægt svæði á votlendisskrá samningsins. Votlendissvæði telst mikilvægt á alþjóðavísu þegar það fóstrar reglulega plöntu- og dýrategundir á viðkvæmu stigi lífsferils eða veitir þeim athvarf við erfið skilyrði, þegar það fóstrar reglulega 20.000 votlendisfugla og þegar það fóstrar reglulega 1% af einstaklingum stofns einnar tegundar.

Nú telur skráin orðið rúmlega 1.900 svæði sem ná yfir 186 milljónir hektara. Votlendisskrá Ramsarsamningsins er því stærsta net verndarsvæða í heiminum.

Góðir gestir.

Ísland gerðist aðili að Ramsarsamningnum árið 1978 og skuldbatt sig þar með til að fylgja ákvæðum hans sem eru meðal annars þau að tilnefna votlendissvæði á lista samningsins. Í dag eru þrjú íslensk svæði á listanum; Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörð. Búið er að tilnefna tvö ný svæði til viðbótar þ.e. Guðlaugstungur og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið, sem eru mikilvæg varp- og beitilöng heiðagæsa, og er unnið að því að tilnefna Andakíl sem verður þá sjötta Ramsar svæðið á Íslandi sem mikilvægur viðkomustaður blesgæsa og annarra votlendisfugla vor og haust.


Stækkun verndarsvæðisins hér á Hvanneyri er mikilvægur áfangi í verndun votlendis hér á landi. Hann er ekki síst mikilvægur fyrir þær sakir að frá upphafi hafa landeigendur og fræðimenn unnið sameinlega að verkefninu sem undirstrikar þá staðreynd að náttúruvernd er samfélagslegt verkefni sem kallar á aðkomu margra aðila. Ég vil því enn og aftur þakka landeigendum og starfsmönnum Landbúnaðarháskólans hér á Hvanneyri fyrir þeirra mikilvæga framlag við verndun votlendis hér á landi og óska ykkur öllum til hamingju með þennan mikilvæga áfanga.

 

Takk fyrir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum