Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Grein umhverfisráðherra í Fréttablaðinu um brennistein í andrúmslofti

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um brennistein í andrúmslofti birtist í Fréttablaðinu 26. maí 2011.

Brennisteinn í andrúmslofti – hagsmunir almennings

Á síðustu misserum hefur umræða um mengunarmál farið vaxandi og greinilegt að aukinnar vitundar gætir meðal almennings og fjölmiðla um þetta mikilvæga umhverfismál. Því fagna ég og hrósa sérstaklega fjölmiðlum sem hafa staðið fyrir metnaðarfullum og ítarlegum umræðum. Umfjöllun um brennisteinsmengun frá jarðvarmavirkjunum og möguleg neikvæð áhrif hennar á heilsu fólks hefur verið til umræðu síðstu daga. Má rekja þá umræðu til viðbragða heilbrigðiseftirlita hjá Reykjavíkurborg, Kópavogi og Hafnarfirði en þessir aðilar hafa gert alvarlegar athugasemdir við frummatskýrslu vegna fyrirhugaðrar jarðhitavinnslu við Gráuhnjúka. Hafa athugasemdir þeirra meðal annars beinst að ófullnægjandi athugun á áhrifum brennisteinsmengunar á íbúa á höfuðborgarsvæðinu, en mælingar sýna að hún hefur aukist um 140 prósent á síðustu árum.

Mörk í þágu almennings

Fyrir um ári setti ég reglugerð um leyfilegan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Markmið reglugerðarinnar er að draga úr mengun brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum og mögulegum neikvæðum áhrifum hennar á heilsu fólks. Með ríka hagsmuni almennings að leiðarljósi lagði ég áherslu á að setja hámarksreglur um leyfilegan styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Mörkin eru nokkuð lægri en þau mörk sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) hefur sett enda eru mörk stofnunarinnar sett með tilliti til mögulegra bráðaáhrifa á augu en ekki langtímaáhrifa á heilsu fólks en við þær aðstæður þurfum við að miða hér á landi vegna fjölda jarðvarmavirkjana og nálægðar þeirra við þéttbýli. Þessa ákvörðun tók ég á grundvelli þess að mikil óvissa ríkti og ríkir enn um heilsufarsáhrif af langvarandi innöndun brennisteinsvetnis og því nauðsynlegt að setja mörkin þannig að almenningur fái notið vafans.

Kunnugleg viðbrögð

Reglugerðin var harðlega gagnrýnd af Samtökum orku- og veitufyrirtækja á Íslandi sem sögðu ákvörðun mína greinilega tekna á pólitískum forsendum en ekki faglegum. Þessi viðbrögð hljómuðu á sínum tíma kunnuglega og gera reyndar enn. Því miður. Fulltrúi sömu samtaka kvartar sáran yfir sífellt flóknara starfsumhverfi fyrir orku- og veitufyrirtækin og hefur gagnrýnt ýmis frumvörp ríkisstjórnarinnar sem fela í sér breytingu á lagaumhverfi þegar kemur að nýtingu lands og auðlinda. Nefnir hann sem dæmi frumvarp um upplýsingalög en nái það fram að ganga munu orkufyrirtækin verða sett undir upplýsingalögin. Hann telur þá leið ríkisstjórnarinnar að friðlýst svæði séu undanskilin í Rammaáætlun vera til þess að flækja starfsumhverfi orku- og veitufyrirtækja. Sama eigi við um frumvarp til vatnamála og frumvarpsdrög um breytingar á náttúruverndarlögum. Þeir hagsmunir sem hafðir eru að leiðarljósi í þessum frumvörpum þ.e. hagsmunir íslenskrar náttúru og íbúa á Íslandi feli í sér sífellt flóknara starfsumhverfi fyrir þá sem vilja nýta auðlindirnar.

Nýjar áherslur

Sú gagnrýni sem að framan er rakin minnir á þær áherslur sem hagsmunaaðilar viðskiptalífs og fjármálafyrirtæki töluðu fyrir á árunum fyrir hrun. Lagaumgjörðin mátti ekki vera íþyngjandi, stjórnsýslan átti að vera einföld og litið var á eftirlit sem óþarfa afskipti.

Við höfum margoft séð alvarlegar afleiðingar þess að sérhagsmunir eru teknir fram yfir hagsmuni almennings í mörgum greinum samfélagsins í aðdraganda hrunsins og víða á enn eftir að taka til hendinni. Framkvæmdaaðilar og samtök þeirra ættu með stjórnvöldum að nálgast verkefnin út frá hagsmunum náttúrunnar og heildarinnar. Það eru raunverulegir hagsmunar framtíðarinnar og komandi kynslóða. Slík sýn verður og á að vera grundvöllur endurmótunarstarfs íslensks samfélags og í raun eina leiðin út úr kreppunni.

Svandís Svavarsdóttir
umhverfisráðherra

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum