Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. október 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp á 25 ára afmælishátíð Lagnafélags Íslands

Andrés Ingi Jónsson aðstoðarmaður umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp f.h. ráðherra á 25 ára afmælishátíð Lagnafélags Íslands þann 7. október 2011.

Herra forseti Ólafur Ragnar Grímsson
Ágætu lagnamenn,

Það er mér mikil ánægja að fá að vera hér með ykkur í dag til að taka þátt í hátíðardagskrá sem haldið er af Lagnafélagi Íslands í tilefni af 25 ára afmæli félagsins.

Lagnafélag Íslands var stofnað 4. október 1986. Markmið félagsins er að stuðla að þróun í lagnatækni í hönnun og verktækni og gagnkvæmum skilningi milli þeirra stétta, sem að lagnamálum vinna – jafnt utanhúss sem innan.

Mikil vinna hefur farið fram í umhverfisráðuneytinu undanfarinn áratug við undirbúning frumvarps til laga um mannvirki og um síðustu áramót var frumvarpið afgreitt sem lög frá Alþingi. Samkvæmt hinum nýju lögum var sett á fót Mannvirkjastofnun sem er umhverfisráðherra til aðstoðar um brunamál, rafmagnsöryggismál og byggingarmál.

Í febrúar 2010 skipaði umhverfisráðherra nefnd til að endurskoða byggingarreglugerð með hliðsjón af nýju lögunum, sem þá voru að vísu enn aðeins á frumvarpsstigi. Í erindisbréfi til nefndarinnar kom fram að við endurskoðunina skyldi mikil áhersla lögð á að hafa sjálfbæra þróun, opna stjórnsýslu, gagnsæi og lýðræðisumbætur að leiðarljósi. Jafnframt var áhersla lögð á aukna notkun markmiðsákvæða og byggingarstaðla í reglugerðinni. Auk þess skyldi hugað sérstaklega að sjónarmiðum er lúta að neytendavernd, vistvænni byggð, hljóðvist í skólum, byggingum ætluðum börnum og aðgengismálum fatlaðra, svo nokkur atriði séu nefnd.

Nefndin hefur síðan – í rösklega eitt og hálft ár – unnið að þessum markmiðum í samráði við stóran hóp sérfræðinga og hagsmunaaðila og nú sér fyrir endann á gerð reglugerðarinnar. Nefndinni var ætlað hafa víðtækt samráð við marga hagsmunaaðila við endurskoðun reglugerðarinnar og mikið samráð hefur einmitt verið haft við Lagnafélag Íslands.

Helsta markmið allrar þessarar vinnu er að auka gæði í mannvirkjagerð – samhliða því að hagræðis sé gætt. Þar er hlutur lagnakerfa í byggingum mikill, en allar byggingar þurfa hitalagnir, vatnslagnir, frárennsli og loftræstikerfi. Til mikils er að vinna hvað varðar gæði í lagnamálum, en nefna má sem dæmi að tjón af völdum vatnsskaða í byggingum er talið nema um tveimur milljörðum króna á ári. Þegar til þess er litið að verðmæti allra fasteigna í landinu er samkvæmt Þjóðskrá ríflega 4.000 milljarðar króna er ljóst að það er gríðarlegt hagsmunamál að stuðla að sem mestum gæðum í mannvirkjagerð.

Atvinnulífið, sveitarfélögin og ríkið geyma mikinn hluta eigna sinna í mannvirkjum og stór hluti almennings geymir ævisparnað sinn þar. Því er mjög mikilvægt að standa dyggan vörð um gæði í mannvirkjagerð. Mjög hröð þróun hefur verið í byggingariðnaði undanfarna áratugi og sífellt rísa stærri og flóknari mannvirki, um leið og kröfur um öryggi, heilsu og sjálfbærni aukast stöðugt. Að byggingarferlinu koma margs konar aðilar og vörur, tækniferlið krefst menntunar, reynslu og færni á mörgum sviðum, er fjármagnsfrekt og unnið er undir mikilli tímapressu.

Það er því engan veginn einfalt viðfangsefni að undirbúa laga- og reglugerðarumhverfi málaflokksins byggingarmál þannig að gæði séu tryggð um leið og gætt er að hagkvæmni í ferlinu öllu og gagnsærri og lýðræðislegri stjórnsýslu málaflokksins. Það er fullvíst að sú mikla vinna sem ég hef lýst hér hafi skilað samfélaginu góðum grunni að lögum og reglum málaflokksins mannvirkjamál. Samfélagið allt á mikið undir því, til langrar framtíðar, að vel sé staðið að vinnu við þetta flókna verkefni.

Ég vil færa Lagnafélagi Íslands þakkir umhverfisráðherra fyrir aðkomu félagsins að þessari vinnu um leið og ég óska félaginu innilega til hamingju með 25 ára afmælið fyrir hönd ráðherra.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum