Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. nóvember 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra á ráðstefnu um Jökulsárlón

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ráðstefnu sem haldin var í Freysnesi 17. nóvember 2011 og fjallaði um deiliskipulag og hugmyndir um friðlýsingu vestanverðs Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi 

Góðir gestir,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þessa ráðstefnu um Jökulsárlón, sem er haldin af sveitarfélaginu Hornafirði og umhverfisráðuneytinu. Tilefnið er að nú er unnið að deiliskipulagi fyrir svæðið við lónið og einnig á skoða að gera það að hluta af Vatnajökulsþjóðgarði. Jökulsárlón er náttúruperla á heimsvísu og ætti að vera eitt helsta krúnudjásn þjóðgarðsins. Jakaborgin á lóninu er verðug táknmynd eina landsins í heiminum sem ber nafn íss og kulda í nafni sínu og prýðir enda forsíður ófárra ferðahandbóka um Ísland.

Jökulsárlón er íslensk póstkortafyrirsæta, en líka alþjóðleg kvikmyndastjarna. Lónið hefur verið sviðsmynd í fleiri en einum Hollywood-smelli. Hér hafa Leðurblökumaðurinn og hörkukvendið Lara Croft komið við í baráttu sinni gegn myrkum öflum og á frosnu lóninu var njósnari hennar hátignar James Bond eltur af þrjótum og ökuföntum. Samkvæmt fræðimönnum á því sviði mun það vera æsilegasti bílaeltingarleikur sem sést hefur á hvíta tjaldinu, þótt það myndi seint teljast vistvænn samgöngumáti og er ekki til eftirbreytni að mati umhverfisráðherra.

Jökulsárlón getur tekið að sér alvarlegri hlutverk en býðst í Bond-myndum. Lónið er ein sýnilegasta birtingarmynd loftslagsbreytinga í okkar heimshluta. Það hefur orðið til við hopun Breiðamerkurjökuls, birtist fyrst í núverandi mynd á 4. áratug síðustu aldar og hefur stækkað um fjórfalt á síðustu fjórum áratugum eftir því sem jökultungan færist í átt til fjalla. Losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu hefur aldrei verið meiri en nú og vex meira en svartsýnustu spár fyrir nokkrum árum gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir nær endalausar samningaviðræður um að reyna koma böndum á losunina. Vísindamenn telja nú nær útilokað að hnattrænt markmið um að halda hlýnun innan við 2 gráður muni nást. Það eru ákaflega slæmar fréttir, en jafnvel þótt allri losun yrði hætt á morgun myndi enn halda áfram að hlýna um sinn. Íslenskir vísindamenn telja að jöklar landsins geti að stórum hluta horfið á næstu einni til tveimur öldum vegna loftslagsbreytinga.

Jökulsárlón mun koma til með að taka miklum breytingum á komandi áratugum og raunar Vatnajökull allur. Góðar upplýsingar eru um hegðun jökulsporða á Íslandi allar götur frá 1930. Jöklarannsóknafélag Íslands hefur mælt legu þeirra um áratugaskeið og byggt þannig upp gagnasafn sem hefur mikið gildi á heimsvísu. Nýlega var jökulmassinn kortlagður nákvæmlega með radarmælingum og við ættum að geta fylgst nákvæmar en áður með búskap jökulsins í framtíðinni. Vatnajökull og ístungurnar úr honum hér í Skaftafellssýslu gera áhrif hnattrænna breytinga sýnileg öllum þeim sem hér búa og eiga leið um. Ríki Vatnajökuls hefur mikið gildi fyrir fræðslu og vakningu um loftslagsbreytingar og má gera margt til að efla það hlutverk og nýta svæðið hér sem risavaxna kennslustofu um þetta eitt mikilvægasta viðfangsefni mannkyns.

Jökulsárlón er heimsþekkt, en er þó auðvitað fyrst og fremst skaftfellsk náttúruperla. Sem slík hefur það mikið gildi fyrir byggð hér á svæðinu og atvinnu og afkomu heimamanna. Við notum oft stór orð til að lýsa Vatnajökulsþjóðgarði. Hann er stærsti þjóðgarður Evrópu með mesta jökli álfunnar ofan á einhverju virkasta eldvirknissvæði jarðar. Á fáum eða engum stað er hægt að sjá betur landmótunaröfl elds og ísa og straumvatna að verki. Öfugt við sumar aðrar glannalegar fullyrðingar um ágæti lands og þjóðar er góð innistæða fyrir þessum lýsingum. Ég tel að reynslan sýni að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hafi verið gæfuspor fyrir þjóðina í heild og ekki síður fyrir næstu nágranna hans. Það örlar stundum á misskilningi að Vatnajökulsþjóðgarði sé miðstýrt úr umhverfisráðuneytinu, en um hann gilda lög sem tryggja aðkomu heimamanna og hagsmunaaðila að ákvarðanatöku og stefnumótun. Ég tel að þetta fyrirkomulag hafi reynst vel við stofnun þjóðgarðsins og við grunvallarstefnumótun hans. Vinna sem nú er hafin við að skoða möguleika á sameiginlegri yfirstjórn þjóðgarða og friðlýstra svæða þarf að taka þann þátt inn í greiningu á þeirri hugmynd.

Hér á suðursvæði þjóðgarðsins hafa heimamenn byggt upp fjölbreytta ferðaþjónustu, sem byggir á náttúru svæðisins og afurðum úr heimahögum og miðum. Hér er mannlíf samofið stórbrotinni náttúru og gestir eru forvitnir um hvoru tveggja. Ekkert lát er á straumi ferðamanna sem sækja Ísland heim. Íbúar og sveitarstjórnir á Hornafirði og í öðrum sveitarfélögum þurfa að búa í haginn fyrir þá þróun með uppbyggingu innviða og skipulagningu sem gerir mönnum kleift að taka við fleiri gestum án þess að náttúra og ásýnd svæða láti á sjá. Gerð deiliskipulags við Jökulsárlón er mikilvægt skref í þessu skyni. Það skiptir miklu hvernig ásýnd hins manngerða umhverfis í kringum eina þekktustu og merkilegustu náttúruperlu Íslands er og verður.

Umhverfisráðuneytið hefur efnt til átaks á síðustu misserum við að bæta umgjörð og aðbúnað á friðlýstum svæðum, sem einnig eru vinsælir viðkomustaðir ferðamanna. Aðgerðirnar eru oftast hvorki dýrar né umfangsmiklar og felast meðal annars í gerð göngustíga og bættum merkingum og efldri landvörslu. Auknu fé er nú varið til náttúruverndar og umbóta á ferðamannastöðum, meðal annars fyrir tilverknað gjalds á ferðamenn sem er sérstaklega ætlað til verkefna á því sviði. Ferðaþjónusta er ein meginstoð efnahagslífsins á Íslandi og við verðum að hlúa að grunnstoðum og innviðum hennar. Sem betur fer þarf ekki stórkarlalegar fjárfestingar sem mælast í milljarðatugum eða meira til að undirbyggja ferðaþjónustuna og sérstaklega á slíkt ekki við varðandi aðstöðu við náttúruperlur. Þar fer best á því að öll aðstaða sé hófstillt og látlaus, en reyni ekki að keppa við náttúruna um athygli. Í nærliggjandi byggðum þarf hins vegar að vera næg gisting og önnur þjónusta og þar þarf augljóslega uppbyggingu ef spár um þróun ferðamennsku ganga eftir. En þótt aðgerðir við náttúruperlur séu tiltölulega ódýrar megum við ekki halda að þær séu með öllu óþarfar. Við verðum að hætta að taka landinu og undrum þess og fegurð eins og sjálfsögðum hlut og gera okkur grein fyrir að náttúruvernd er undirstaða sjálfbærrar ferðaþjónustu.

Góðir gestir,

Ég hef rætt hér nokkuð um gildi Jökulsárlóns og Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir byggð og fyrir budduna, en við megum þó aldrei gleyma helstu ástæðunni fyrir því að vernda Jökulsárlón. Það er ekki vegna þess að það er nytsöm mjólkurkú fyrir ferðamenn og glæsileg leikmynd fyrir draumaverksmiðjur kvikmyndiðnaðarins. Lónið er einstök náttúrusmíð og okkur ber að umgangast það með virðingu og vernda sem gimstein í íslenskri náttúru. Síkvik náttúran býður upp í nýtt sjónarspil á lóninu hverjum degi. Jakar brotna út í vatnið, sigla þar um, sporðreisast og bráðna - eða skolast út í Atlantshafið, þar sem brot úr þeim rekur aftur á land og svört sandfjaran er stráð glitrandi klakademöntum. Síld og loðna villast stundum hina leiðina, úr hafinu í gegnum stystu jökulá Íslands yfir í næstdýpsta stöðuvatn landsins. Mávar og æður og aðrir fuglar leita að æti innan um ísjakana og ósjaldan má sjá seli svamla þar. Hér er veisla fyrir augað árið um kring og góður staður til að gleyma amstri og streitu og viðra fúlar hugsanir úr sálarkimum. Slíkir staðir verða æ fágætari á jörð þar sem umsvif sjö milljarða manna setja sífellt meiri svip á umhverfið. Ég vona og veit að við fáum hér gott yfirlit yfir náttúru og hlutverk Jökulsárlóns í dag, sem mun hjálpa okkur að taka upplýstar ákvarðanir um skipulag svæðisins og framtíð þess.

Takk fyrir,

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum