Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. janúar 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Grein umhverfisráðherra í Fréttablaðinu - Á grundvelli skynsemi og upplýsinga

 

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um verndun svartfugla birtist í Fréttablaðinu 10. janúar 2012.

Tillögur starfshóps umhverfisráðuneytisins um verndun og endurreisn svarfuglastofna hafa vakið nokkra umræðu sem að stofninum til er af hinu góða. Þó er ástæða til að velta fyrir sér stöðu náttúruverndar í þessu sambandi. Hæstu gagnrýnisraddirnar heyrast frá þeim sem ættu að hafa mestan hag hafa af því að neikvæðri þróun stofnanna verði snúið við sem fyrst, nú síðast í grein formanns Skotveiðifélags Íslands í Fréttablaðinu 9. janúar.

Svo  rifjuð sé upp staðan  eins og ég lýsti henni í Fréttablaðinu þegar tillögur starfshópsins lágu fyrir, sýna mælingar að árleg fækkun álku er um 20%, fækkun langvíu um 7% á ári og stuttnefju um 24%. Auk þess hefur verið viðvarandi brestur hjá lundastofninum í nokkur ár, en á síðasta ári varð algjört hrun í lundavarpi á stórum hluta landsins. 

 Löggjöf okkar er nú með þeim hætti að ekki er unnt að ákveða veiðistjórnun eftir því sem staða þessara fuglastofna gefur tilefni til. Hlunnindaveiði er þar undanskilin þótt hún geti verið allt að 70% af  heildar veiðinni.Mikilvægt er að hafa hugfast að markmið (villidýra?)laganna er ekki einungis að mynda ramma utan um skipulag veiða, heldur fyrst og fremst að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna. Þegar svo háttar að nýliðun er nánast engin og hrun er í einstaka stofnum á landsvísu verður að bregðast við með öllum tiltækum ráðum. Annað væri ábyrgðarleysi.

Yfirvöldum á Íslandi er heldur ekki frjálst að stýra veiðum á dýrategundum algjörlega eftir eigin höfði. Okkur ber samkvæmt alþjóðlegum samningum skylda til að standa sérstaklega vörð um þá stofna sem eru hlutfallslega stórir á Íslandi. Við höfum þar hlutverki að gegna gagnvart stofnunum í heild, lífríkinu og komandi kynslóðum.

Tillögur meirhluta starfshópsins snúast ekki um stöðu fuglastofnanna í einstökum fuglabjörgum, tilteknum landsvæðum eða á stuttu árabili. Tillögurnar byggja á viðvarandi neikvæðri þróun í stofnunum, þróun sem okkur ber skylda að bregðast við. Frelsi fólks til að stunda skynsamlegar veiðar eða að síga í fuglabjörg er ekki mikils virði, ef fuglarnir hverfa. Ábyrg nýting á gæðum landsins felur stundum í sér verndun. Þar eigum við öll samleið, á grundvelli skynsemi, yfirvegunar og upplýsinga. Bæði umhverfisyfirvöld, Fuglavernd, Bændasamtökin og Skotvís.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum