Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. maí 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um aukna útiveru Íslendinga

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi sem Umhverfisstofnun og Embætti landlæknis stóðu að þann 16. maí 2012 undir yfirskriftinni Er hægt að auka útiveru Íslendinga?

 

Góðir gestir,

Við Íslendingar búum við einhver mestu lífsgæði sem þekkjast meðal jarðarbúa, ef mark er takandi á mælistikum sem reyna að meta slíkt, svo sem þróunarstuðul Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar lifa lengi. Heilbrigðisþjónusta og menntun er góð, þótt alltaf megi gera betur og það hafi reynt á grunnstoðir samfélagsins í því efnahagshruni sem varð, en við erum að vinna okkur út úr.

Í fyrra var tilkynnt í heimspressunni um niðurstöður alþjóðlegrar könnunar, sem sögðu að best væri að vera kona á Íslandi. Nú fyrir skömmu komust alþjóðasamtökin Save the Children, eða Barnaheill, að því að börn hefðu það hvergi betra en á Íslandi, en íslenskar mæður væru í öðru sæti á eftir norskum. Eflaust hafa karlar það líka gott á Íslandi, en útlenskir tölfræðingar virðast gefa þeim minni gaum. Deila má um aðferðarfræði og nákvæma niðurröðun ríkja í svona úttektum, en þær sýna okkur að við eigum mikil verðmæti í samfélagi okkar, sem ekki verða öll mæld í krónum og aurum.

Með aukinni velmegun skjóta stundum ný vandamál upp kollinum. Þægindum á borð við bíla og skyndibita geta fylgt kvillar sem stafa af hreyfingarleysi og óhollu mataræði. Fáar þjóðir eiga fleiri bíla en Íslandingar, miðað við sitjandatölu. Bíllinn er úlpa Íslendingsins, segja sumir og lyftur og rúllustigar létta okkur enn frekar lífið í starfi og leik. Til hvers að vera úti í rysjóttu veðri ef hægt er að sitja við tölvu eða sjónvarp og hringja á pizzu?

Málþingsgestir hér vita að sjálfsögðu svarið við þessari spurningu. Það er vitundarvakning um gildi hreyfingar og útivistar, sem nær til æ fleiri. Við sjáum hana m.a. í því að læknastéttin er nú farin að ávísa hreyfingu sem lið í lækningu á ýmsum kvillum. Við sjáum hana í ágætri þátttöku í átakinu hjólað í vinnuna. Þeim fjölgar sem hjóla og ganga styttri ferðir og ekki bara þegar átaksverkefni standa yfir. Með þessu dregur úr mengun og heilsan batnar hjá þeim sem hvíla bílinn.

Útivera snýst ekki bara um að koma sér á milli staða í þéttbýlinu. Hún snýst ekki síður um tækifæri okkar til að njóta samvista við náttúruna. Í lögum um náttúruvernd er eitt helsta markmiðið að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum. Sérstakur kafli fjallar um almannarétt, umgengni og útivist og sérstakt ákvæði er um útivistarsvæði. Þar segir að til stuðnings við útivist geti sveitarfélög, Umhverfisstofnun eða náttúruverndarnefndir gengist fyrir að halda opnum göngustígum, vatnsbökkum og strandsvæðum til sjóbaða - og gert annað það er þurfa þykir til að tryggja för og aðgang að náttúrunni. Almannarétturinn er ekki viðurkennd réttarregla í öllum ríkjum og brýnt er að við Íslendingar stöndum vörð um hann. Til stendur að styrkja ákvæði um almannarétt í endurskoðun á náttúruverndarlögum, sem nú stendur yfir.

Sveitarfélög hafa mörg sett sér stefnu um umhverfi og lýðheilsu og má þar nefna sem dæmi Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ, sem hafa sett fram stefnu og áætlanir um að efla útivist og aðgang að fjölbreyttum útivistarsvæðum. Það er sameiginlegt markmið ríkis og sveitarfélaga að stuðla að bættri útivist meðal annars með friðlýsingu svæða og uppbyggingu sem miðar að því að hvetja til náttúruskoðunar í sátt við umhverfið og verndarmarkmið á hverju svæði.

Það er mikilvægt skref að tryggja rétt manna til farar og útiveru og taka frá svæði sem fólkvanga og önnur verndarsvæði, en það er ekki síður mikilvægt að hvetja fólk til þess að nýta sér þau gæði sem þar er í boði. Gests augað er glöggt og við sjáum að útlendingar kunna að meta Ísland sem útivistarparadís. Komum erlendra ferðamanna hefur fjölgað ört á undanförnum árum og á þessu ári kann fjöldi þeirra að verða tvöfaldur á við Íslendinga, en örfá lönd í Evrópu taka á móti viðlíka fjölda gesta miðað við höfðatölu. Langflestir koma hingað til að njóta náttúru landsins. Hér eru víðerni og lítt snortin náttúra, sem eru hverfandi gæði víðast annars staðar.

Það er ákaflega brýnt að byggja hér innviði fyrir græna ferðaþjónustu við náttúruperlur landsins, sem munu ella láta á sjá. Öflug náttúruvernd er forsenda fyrir sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu. Öflug náttúruvernd og efling útivistar eru tvær hliðar á sama pening.

Okkar þekktasti tónlistarmaður, Björk, hefur vakið mikla athygli fyrir síðustu tónsmíð sína og tónleikaferð, undir heitinu Biophilia. Það hugtak gæti á íslensku kallast einfaldlega lífsást, en það var sett fram af náttúruvísindamanni, sem telur að það sé innbyggt í manneskjuna að finna til samkenndar með lífríkinu og náttúrunni. Ýmsar rannsóknir benda til að þetta sé ekki neinar grillur eða nýaldarspeki, heldur auki það merkjanlega vellíðan á sál og líkama að umgangast náttúruna. Það þarf svo kannski engar rannsóknir til fyrir marga, sem finna það á eigin skrokk og sál að náttúran togar þá til sín og að þar gefst tækifæri til að viðra burt streitu og amstur.

Náttúran og útivistarsvæði eiga þó í harðri samkeppni við afþreyingariðnaðinn, sem er fjáður og alltumlykjandi. Í borgarsamfélaginu er ekki sjálfsagt að menn heyri kall óbyggðanna – nú eða bara Elliðaárdalsins – í gegnum I-podinn í eyrunum. Auðlindin til útivistar hér á Íslandi er nær ótæmandi, en það þarf að gera hana aðgengilega öllum.

Það er fastur liður hjá mörgum að fara í ræktina, eins og það er kallað, en hún þarf ekki alltaf að vera inni við. Tilraunaverkefnið Green Gym, eða útiræktin, hefur breiðst hratt út í Bretlandi, en það eru opin svæði þar sem fólk sem glímir til dæmis við offitu, hefur aðgang að stígakerfi og leiðsögn. Reynslan sýnir að skipulögð útivist linar marga kvilla og eykur vellíðan. Samkvæmt einni athugun dró miðlungs virkni í Green Gym úr áhættu á hjartasjúkdómum um 50% hjá þátttakendum.

Með skipulögðu átaki að byggja upp stíga, upplýsingaskilti og aðra aðstöðu má gera fjölmörg svæði á Íslandi meira aðlaðandi til útivistar og náttúruskoðunar - að grænum líkamsræktarstöðvum. Landverðir sem þekkja svæðin leiða gesti um þau og ljúka upp leyndardómum landsins.

Nú eru uppi ýmsar stórbrotnar hugmyndir um fjárfestingar í ferðaþjónustu, en hægt er gera Ísland að réttnefndri paradís náttúruskoðenda og útivistarfólks með tiltölulega ódýrum aðgerðum og eflingu á landvörslu. Til þess þurfum við framsýni, virka náttúruvernd og fé til uppbyggingu innviða.

Náttúruauðlindir Íslendinga felast ekki bara í fiskimiðum og orkulindum. Við höfum hér aðgang að hreinni náttúru við bæjardyrnar hvar sem er á landinu. Það er hlutverk skóla, heilbrigðisyfirvalda, umhverfisyfirvalda, sveitarfélaga, félagasamtaka og annarra að virkja þá auðlind enn frekar, okkur til hagsbóta og heilsubótar.

Hér verða flutt erindi, sem ég sé fyrirfram að verða áhugaverð og síðan stendur til að efna til vinnustofu og smíða þar tillögur um að efla hreyfingu og útiveru Íslendinga. Ég óska ykkur góðs gengis og þakka öllum þeim sem komu að þessu frábæra framtaki.

Takk fyrir,

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum