Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. október 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra - Skaðleg áhrif hávaða í námsumhverfi barna: Hvernig er ástandið, hvað er hægt að gera?

Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra setti málþing um skaðleg áhrif hávaða í námsumhverfi barna sem haldin var 12. október 2012 með eftirfarandi orðum.

 

Góðu gestir,

Það er ánægjulegt að haldin sé ráðstefna um hljóðvist í umhverfi barna er. Í dag og á morgun verður fjallað um skaðleg áhrif hávaða á rödd, heyrn og líðan í námsumhverfi barna. Eins og önnur málefni er varða velferð barna þá er hér um gríðarlega mikilvægt málefni að ræða.

Sífellt verða til fleiri uppsprettur hávaða í umhverfi mannsins og má slá því föstu að áreiti vegna hávaða sé mun meira en á árum áður – og fólk búi jafnvel við stöðugt áreiti, daginn út og inn.

Getur verið að umhverfi okkar sé orðið svo árásagjarnt og krefjandi að börn með „fulla“ heyrn séu almennt hætt að nema umhverfishljóð og geti ekki notið hljóðsins, þagnarinnar og margbreytileikans sem umhverfið býður upp á? Hvar þýtur í laufi, malar köttur eða syngur lítill fugl?

Hljóðin sem umlykja okkur – oft í óhófi – eru hluti af þróun sem hefur fært mannskepnuna fjær náttúrunni, sem hún er þó órjúfanlegur hluti af. Ákveðin tengsl hafa slitnað, náttúran er nær því að vera hugmynd en raunveruleiki í hugum margra. Maðurinn hefur vafið sér inn í þykkt teppi nútímans, tækninnar og manngerðs umhverfis, sem oft heldur náttúrunni mátulega fjarri. Samhliða þessu dregur úr mætti skynfæranna, þau verða síður næm á margbreytileika umhverfisins.

Þetta á bæði við um umhverfi okkar utanhúss sem innan, svo sem þar sem börn dveljast í námi og leik.

Við þekkjum öll hvaða áhrif óæskilegur hávaði hefur. Hann veldur oftar en ekki höfuðverk, streitu og skorti á einbeitingu. Heyrnarskaði, eyrnasuð, seinkun námsgetu og málþroska eru einnig fylgikvillar hávaða. Börn eru mun viðkvæmari í þeim efnum en fullorðnir og veruleikinn er sá að einmitt í umhverfi barna verður sífellt meiri hávaði.

Röddin er líka dýrmætt töfratæki. Heilbrigð rödd og áheyrileg kemur töluðu máli vel til skila. Röddin er atvinnutæki margra. Hún er atvinnutæki kennara, leikara, leiðsögumanna og stjórnmálamanna. Fólk í þessu störfum eru á meðal þeirra sem þurfa með rödd sinni að ná til annarra.

Strax frá fæðingu fara ungabörn að nýta þessa eiginleika til að leggja grunn að því að tala og móta sitt mál. Málþroski barna byggist á því að talað sé við þau og að þau nemi þau hljóð sem eru í umhverfi þeirra. Um leið eru eyru ungbarna mjög viðkvæm. Mikill hávaði getur haft neikvæð áhrif á málþroska þar sem hann hefur bæði áhrif á heyrn og líðan.

Skólinn er vinnustaður barna sem dvelja mesta hluta skóladagsins í skólabyggingum, hvort sem það er í kennslustofu, íþróttahúsi eða mötuneyti. Í lögum um leikskóla og lögum um grunnskóla og reglugerðum settum á grundvelli þessara laga er sérstaklega fjallað um skólahúsnæði og aðbúnað í skólanum. Taka skal mið af þörfum barna og þeirri starfsemi sem fram fer í skóla. Leggja skal áherslu á öruggt og rúmgott náms- og starfsumhverfi. Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan barna og starfsfólks, svo sem hvað varðar húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Sama á við um skólalóðir. Þótt lagaákvæði kveði nokkuð skýrt á um það hvernig aðbúnaði barna í leik- og grunnskóla skuli háttað, þá benda niðurstöður hávaðamælinga í skólum og leikskólum til þess að hönnun húsnæðis hvað hljóðvist varðar sé oft ábótavant. Meðal annars vegna þess erum við hér í dag á þessari lausnamiðuðu ráðstefnu.

Á góðri málstefnu um hávaða í umhverfi barna sem haldin var fyrir þremur árum var m.a. rætt um mikilvægi góðrar hljóðvistar og hönnun skólahúsnæðis til að stuðla að betri líðan barna í leik- og grunnskóla. Í framhaldi af þeirri málstefnu lagði ég áherslu á að skerpt yrði á kröfum varðandi þau mannvirki þar sem börn dvelja, enda heyra mannvirkjamál undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Ný lög um mannvirki tóku gildi 1. janúar 2011 og í framhaldi af því fór fram umfangsmikil vinna í ráðuneytinu við endurskoðun byggingarreglugerðar, en ný byggingarreglugerð var gefin út í byrjun þessa árs. Þar er ítarlega fjallað um hljóðvist og varnir gegn hávaða. Meginmarkmið þess er að byggingar og önnur mannvirki séu þannig hönnuð og byggð að heilsu og innra umhverfi sé ekki spillt af völdum hávaða og óþægindum af hans völdum sé haldið í lágmarki. Í markmiðsgrein hljóðvistarkafla reglugerðarinnar er kveðið á um að þess skuli gætt sérstaklega að hljóðvist sé góð í umhverfi barna, svo sem í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og öðrum stöðum þar sem börn dvelja.

Þá er kominn út íslenskur staðall um hljóðvist þar sem kveðið er á um hljóðflokkun fyrir skólabyggingar og fjallað um hljóðhönnun sem tryggir góða hljóðvist í námsumhverfi barna. Á grundvelli þessarar stefnumótunar eru Umhverfisstofnun og Mannvirkjastofnun nú að ljúka við gerð leiðbeininga um hljóðvistarkröfur í leik- og grunnskólum og annars staðar sem börn dvelja, þar sem hætta er talin á að hávaði geti valdið þeim ónæði eða verið heilsuspillandi. Þessar viðmiðanir verða kynntar hér síðar í dag.

Þá vil ég minna á að í hávaðareglugerð frá árinu 2008 er sérstök áhersla lögð á hávaðavarnir í leik- og grunnskólum. Reglugerðin var rúmlega ársgömul þegar málstefnan um hávaða í umhverfi barna var haldin og því lítil reynsla komin á framkvæmd reglugerðarinnar. Nú hefur hún fest sig í sessi auk þess sem áðurnefndar leiðbeiningar um viðmiðanir um hljóðvist í leik- og grunnskólum fara að líta dagsins ljós.

Margt hefur áunnist varðandi hljóðvist í umhverfi barna og mikilvægt er að vinna áfram í að bæta úr, bæði hvað varðar mannvirkjamál og hollustuhætti. Húsnæði skóla og skipulag skólastarfs þarf að taka tillit til hljóðvistar og að í skólum eru börn með mismunandi þarfir og mismunandi heyrn.

Efni ráðstefnunnar í dag er yfirgripsmikið. Ég á von á að erindin og umræðan á þessari ráðstefnu dragi fram þá þætti sem bæta má varðandi hljóðvist í umhverfi barna og þá sérstaklega í leik- og grunnskólum og hvernig best er að vinna að úrbótum varðandi hollustuhætti og byggingar, svo og leiðir til að draga úr hávaða með það að markmiði að bæta hljóðvist í umhverfi barna.

Ráðstefnan er tileinkuð minningu Önnu Bjarkar Magnúsdóttur raddmeinafræðings, sem lést langt fyrir aldur fram á síðasta ári. Starf hennar minnir okkur á hversu mikilvægt framlag öflugra einstaklinga getur verið, hversu miklu við getum hvert og eitt áorkað í þágu góðs málstaðar. Félagar Önnu í Nordic Voice Ergonomic Group eiga bestu þakkir skildar fyrir að halda þessa glæsilegu ráðstefnu.

Kæru ráðstefnugestir.

Ég á von á því að þessi ráðstefna verði árangursrík og fróðleg og skref í þá átt að bæta skólaumhverfi leik- og grunnskólabarna og bæta vellíðan, raddheilsu og hljóðvist. Þannig geti raddir barnanna okkar heyrst, þau notið þess að hlusta á umhverfið sitt og liðið vel í starfi og leik.

Ég segi ráðstefnuna setta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum