Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. nóvember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í Bændablaðinu - Samtaka í beitarstjórnun

 

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra um beitarstjórnun birtist í Bændablaðinu 1. nóvember 2012.

 

Samtaka í beitarstjórnun

Mikilvæg umræða hefur farið fram nú í haust um beitarmál. Í þeirri umræðu hefur verið tekist á enda um gríðarmikla hagsmuni lands og búskapar að ræða. Umræða um álag af völdum búfjárbeitar hefur oft verið föst í hefðbundnum átakafarvegi en nú er þess freistað að leita lausna og tryggja vandaðan umbúnað málsins að því er varðar regluverk og ferla.

Stefnumótun í gangi

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er nú unnið að tveimur verkefnum sem varða beitarmál með beinum hætti. Annars vegar hefur farið fram endurskoðun á lögum um landgræðslu en sú lagasetning er frá 1965. Núgildandi lög endurspegla ekki nægjanlega vel starfsumhverfi landgræðslustarfs í landinu í dag. Greinargerð nefndar sem fjallaði um þessi mál liggur fyrir og hefur verið í kynningu og næstu skref eru síðan að vinna úr þeirri skýrslu. Þar eru meðal annars lagðar til úrbætur varðandi skipan beitarmála.

Hins vegar hefur verið sett á stofn sérstök samstarfsnefnd umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um beitarstjórnun og sjálfbæra landnýtingu sem á að skila tillögum 1. desember næstkomandi. Mun hún vinna tillögur með það að markmiði að efla stjórn búfjárbeitar með tilliti til gróður- og jarðvegsverndar, ágangs búfjár, sjálfbærrar landnýtingar og hvernig samhæfa megi aðgerðir ráðuneytanna á þessum sviðum.

Bættir búskaparhættir

Mikilvægt er að ný lög um landgræðslu hafi skýr ákvæði sem taka á vandamálum vegna landnýtingar, en slík ákvæði hafa ekki verið fyrir hendi. Stórt skref í að draga úr ofnýtingu og beit á illa farið land var tekið í samningi sauðfjárbænda og ríkisins um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, sem ætlað er að hvetja til bættra búskaparhátta. Sauðfjárbændur taka hins vegar ekki allir þátt í þessu gæðastýringarkerfi. Það gengur auk þess full skammt í sjálfbærniátt, því þau úrræði sem löggjöfin heimilar í reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu eru í raun fullnýtt. Skýrari viðmið skortir um hvað telst sjálfbær landnýting á Íslandi. Í því efni þarf þekkingu og samanburð á ólíkum svæðum því ástand gróðurs er afar mismunandi eftir landsvæðum og ágangur búfjár sömuleiðis.

Að mínu mati er rétt að koma á þeirri meginreglu að eigendur beri ábyrgð á fullri vörslu á sínum fénaði en að heimilt sé að víkja frá því að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Lög um búfjárhald eru nú til endurskoðunar og þyrfti að mínu mati að breyta þeim á þann hátt  að heimildarákvæði verði ekki um bann við lausagöngu, heldur um mögulegar undanþágur frá slíku banni, sem vissulega getur átt víða við.

Í mörg horn að líta

Landnýting verður stöðugt fjölbreyttari og  staða landshlutanna ólík. Okkur ber einnig að halda til haga því sem vel hefur unnist; staðreyndin er sú að land grær meira en það eyðist nú um stundir, þó víða sé ástandið fjarri því að vera viðunandi. Upphaf skipulegrar gróðurverndar og landgræðslu á Íslandi má rekja allt til ársins 1907. Frá þeim tíma hefur verið unnið mikilvægt landbótastarf. Sauðfé hefur fækkað frá því sem mest var, stór landflæmi hafa aukinheldur verið friðuð fyrir beit og umhverfisvitund bænda fer vaxandi. Menn þurfa ekki að velkjast í vafa um að bændum þykir vænt um landið enda fara saman hagsmunir þeirra sem vilja standa vörð um gæði jarðvegs og gróðurs og þeirra sem vilja nýta hann í þágu búskapar.

Mikilvægast er þó að koma á þeirri meginreglu að eigendur beri fulla ábyrgð á sínu fé. Beit á auðnir og illa farið land, þar með talin rof og opin rofabörð á ekki að líðast. Þar eigum við að vera samtaka.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum