Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. janúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í Morgunblaðinu - Rammaáætlun: mikilvæg framtíðarsýn

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra um rammaáætlun birtist í Morgunblaðinu 17. janúar 2013.

 

Rammaáætlun: mikilvæg framtíðarsýn

Í áratugi hefur verið deilt um það hvort virkja eigi á ákveðnum svæðum eða vernda þau náttúrunnar vegna. Þeim deilum hefur allt of oft lokið með því að of langt hefur verið gengið í þágu orkunýtingar. Heildarsýn hefur vantað, heildarsýn sem er mikilvæg þegar viðfangsefnið er jafn mikilvægt og dýrmætt og sjálf náttúra Íslands.

Með samþykkt rammaáætlunar, eða þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, er loksins kominn rammi sem kemur í stað tilviljanakenndra ákvarðana um virkjanir. Rammaáætlun er mikilvægur grunnur fyrir stjórnvöld, almenning og atvinnulífið að ganga út frá – hvort nýta eigi svæði til orkuframleiðslu eða til annarra þarfa, eins og til að mynda ferðaþjónustu. Í þessu felst mikilvæg framtíðarsýn sem myndar skýran grunn fyrir stefnumörkun stjórnvalda og áætlanagerð atvinnulífisins. Um leið undirstrikar hún þýðingu náttúruverndar á Íslandi, núlifandi og komandi kynslóðum til heilla.

Sátt um leikreglur

Vinna við rammaáætlun hefur staðið í fjölda ára, en í maí árið 2011 samþykkti Alþingi lög um verndar-og orkunýtingaráætlun, sem kveða á um það ferli sem ber að viðhafa. Þar kemur fram hvernig skipa skuli verkefnisstjórn sérfræðinga, sem sé ráðherra til ráðgjafar um undirbúning og gerð tillögu um rammaáætlun, og þar eru sérstök ákvæði um að gefa skuli almenningi kost á að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna, áður en hún er lögð fram á Alþingi. Þessar leikreglur voru samþykktar mótatkvæðalaust á Alþingi og eftir þeim var farið.

Þær 200 umsagnir sem bárust frá einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum og ýmsum hagsmunaaðilum við tillögu verkefnisstjórnar leiddu til þess að sex svæði voru færð úr virkjunarflokki yfir í biðflokk á grundvelli þess að ítarlegri gögn um svæðin skorti og höfðu þannig áhrif á lokaútkomuna eins og vilji Alþingis stóð til.

Að baki er bæði langt og strangt ferli, forvinna sérfræðinga, skýr og mikilvæg aðkoma almennings og umfangsmikil umfjöllun Alþingis. Það voru því mikil tímamót á mánudag þegar Alþingi samþykkti þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða með miklum meirihluta atkvæða.

Sáttagrunnur ólíkra sjónarmiða

Í nýsamþykktri rammaáætlun speglast skilningur á því hversu stóru hlutverki náttúran gegnir fyrir afkomu okkar og atvinnulíf. Það á ekki aðeins við um starfsgreinar á borð við landbúnað og orkufrekan iðnað heldur er náttúran sjálf undirstaða þeirrar atvinnugreinar sem hefur dafnað hvað best frá efnahagshrun –ferðaþjónustunnar sem gegnir sífellt mikilvægara hlutverki fyrir efnahagslíf þjóðarinnar.

Því viðhorfi hefur einnig vaxið ásmegin að náttúruna þurfi að verja náttúrunnar sjálfrar vegna. Hún myndar vef þar sem ekkert getur án annars verið. Sérhvert inngrip þarf að skoða með hliðsjón af heildinni og því samspili sem maðurinn er svo auðmjúkur hluti af. Þannig er náttúruvernd forsenda lífs á jörðinni til langrar framtíðar.

Þótt þessi áfangi rammaáætlunar sé nú í höfn er vinnu við hana ekki lokið. Lögin frá í maí 2011 gera ráð fyrir endurskoðun hennar á fjögurra ára fresti þar sem m.a. liggur fyrir verkefnisstjórn hverju sinni að fjalla um ný landsvæði. Í því sambandi má benda á góða leiðsögn nefndarálits meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis þar sem sérstaklega eru dregin fram atriði sem þarfnast frekari skoðunar í næsta áfanga. Framundan er að skipa verkefnisstjórn fyrir næstu fjögur ár um leið og nauðsynlegra upplýsinga er aflað um þá kosti sem nú eru í biðflokki.

Rammaáætlun er grunnur að sátt ólíkra viðhorfa til umgengni um landsvæði, sem til þessa hafa ekki getað náð saman um heildarsýn. Margar mikilvægar náttúruperlur eru í verndarflokki, Þjórsárver, Jökulsá á Fjöllum og Gjástykki, svo dæmi séu nefnd. En að sama skapi er gert ráð fyrir að hægt sé að virkja gríðarlega orku, en í orkunýtingarflokki er ígildi nærri tvöfaldrar orkuframleiðslu Kárahnjúkavirkjunar. Þessari heildarsýn hefði þurft að ná fyrir mörgum áratugum og hún er fagnaðarefni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum