Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. mars 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í DV - Skoða þarf þveranir í ljósi reynslunnar

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í DV 11. mars 2013.

Skoða þarf þveranir í ljósi reynslunnar

Síldardauðinn í Kolgrafafirði nú í vetur kom stjórnvöldum sem öðrum í opna skjöldu. Erfitt er að finna önnur dæmi um jafn umfangsmikla viðburði af þessu tagi hér við land og jafnvel á heimsvísu. Yfir 50.000 tonn af síld hafa drepist í firðinum, að öllum líkindum af súrefnisskorti. Hrannir af síld hafa þakið fjörur og fjarðarbotninn var nær teppalagður af fiskhræjum um tíma. Áherslur stjórnvalda hafa verið á að taka á bráðavandanum sem skapast hefur við þessar fordæmalausu aðstæður, einkum eftir að ástandið versnaði til muna við seinni viðburðinn 1. febrúar síðastliðinn.

Yfir 15.000 tonn af síld hafa verið grafin í fjörunni við bæinn Eiði og yfir 1000 tonn af grút verið urðuð á öruggan hátt á næsta viðurkennda urðunarstað. Virkt eftirlit er með ástandi mála á vegum þriggja stofnana, þar sem m.a. er gáð að hvort grútarblautir ernir finnast, en stór hluti arnarstofnsins hefur heimsótt Kolgrafafjörð að gæða sér á síldarhlaðborðinu þar. Tilraunir hafa verið gerðar til að fæla síldina burt frá fjarðarbotninum, en menn verða vart í rónni fyrr en vorgotssíldarstofninn fer að færa sig utar með hækkandi sól.

Hreinsunaraðgerðir heimamanna og stjórnvalda hafa bætt ástandið í fjörum verulega, þannig að tjón verður minna en á horfðist. Ef enginn nýr síldardauði verður á næstu vikum ætti ástandið að fara hratt skánandi, óþefurinn sem legið hefur yfir firðinum að hverfa og grúturinn sem eftir er að brotna niður. Eftir situr hins vegar spurningin um orsök þessa gífurlega fiskdauða, sem klárlega mun fara í sögubækur náttúruvísindanna og er tilefni ítarlegrar rannsóknar.

Átti þverunin þátt í síldardauðanum?

Margir hafa spurt hvort þverun Kolgrafafjarðar árið 2004 hafi átt þátt í að skapa þær aðstæður sem drap síldina þar. Sjór streymir nú við aðfall og útfiri í gegnum op sem er um 1/10 af breidd fjarðarins fyrir þverun. Þrátt fyrir þessa miklu þrengingu gætir sjávarfalla að mestu leyti líkt og áður innan þverunar. Þetta er ólíkt því sem var t.d. við þverun Gilsfjarðar, þar sem vitað var fyrirfram að fallaskipti myndu breytast, sem hefur haft mikil áhrif á lífríki fjarðarins innan sem utan þverunar. En þótt fallaskipti haldist að mestu er hins vegar ekki tryggt að þverun breyti ekki vistkerfi sjávar. Mikil þrenging fjarðar hefur áhrif á straumakerfi og mögulega þar með þætti eins og súrefnismettun og hringrás næringar- og úrgangsefna.

Hafrannsóknastofnun hefur þegar lagt drög að ítarlegri rannsókn á orsökum fiskdauðans í Kolgrafafirði, enda eru mikil efnahagsverðmæti í húfi og ljóst að meta mætti tjónið hvað síldarstofninn varðar í milljörðum króna. Áhrif þverunarinnar verða skoðuð þar, sem og aðrir þættir. Ljóst er að sú rannsókn mun taka marga mánuði í það minnsta, enda kallar hún á ítarlegar mælingar og rýni á mörgum þáttum. Það auðveldar ekki rannsóknina að takmörkuð þekking er á ástandi mála fyrir þverun, enda eru ítarlegar rannsóknir á straumfræði og vistkerfi fjarða dýrar og þeim því e.t.v. ekki sinnt eins og æskilegt væri við mat á umhverfisáhrifum. T.d. er lítið vitað um íslenskar fjörur sem uppeldisstöðvar fiska, en þar finnast þó m.a. seiði skarkola, hrognkelsa og ufsa og líklega þorsks. Það er óvíst hvort rannsóknin mun skila óyggjandi svari um áhrif þverunar Kolgrafafjarðar á síldardauðann, þótt við hljótum að vona að hún varpi ljósi á þann þátt jafnt sem aðra.

Varúðarreglan kallar á endurmat

Nú hafa um tíu firðir verið þveraðir á Íslandi, þótt áhrif framkvæmda séu misjöfn. Ásýnd sumra fjarða og lífríki hefur gjörbreyst, s.s. í Gilsfirði, á meðan sumar þveranir í fjarðarbotnum hafa takmörkuð áhrif á fjörðinn í heild og lífríki sjávar þar. Nokkrar þveranir eru nú á samgönguáætlun og undirbúningur framkvæmda við sumar langt kominn.

Oftast fæst veruleg samgöngubót með þverunum, en við verðum að vita hvaða verði þær eru keyptar og hvort aðrir kostur séu þá e.t.v. betri þegar upp er staðið. Varúðarreglan er ein af grunnreglum umhverfisverndar, sem þjóðir heims samþykktu í Ríó árið 1992. Í stuttu máli má segja að reglan skyldi okkur að sýna kapp með forsjá. Ef rökstuddur grunur er uppi um alvarleg umhverfisáhrif aðgerða ber okkur að bæta þekkingu okkar og leita leiða til að koma í veg fyrir umhverfisslys. Vísindaleg óvissa er alltaf til staðar, en hún má ekki vera afsökun fyrir að fara út í vanhugsaðar framkvæmdir.

Sumir fræðimenn hafa spurt opinberlega hvort við höfum óafvitandi skapað eins konar síldargildru í Kolgrafafirði með þverun hans og mikill þrengingu. Við bíðum svara við þeirri spurningu, en hún er áleitin; möguleiki á slíku var ekki mikið ræddur við þveranaframkvæmdir til þessa. Við hljótum að endurmeta þveranir fjarða í ljósi atburðanna í Kolgrafafirði. Mögulega má bæta hönnun þverana og einnig má skoða betur aðrar lausnir við samgöngubætur, s.s. jarðgöng þar sem þar á við eða öflugra viðhald vega. Okkur ber skýr skylda til endurmats á þverunum samkvæmt varúðarreglunni. Það snýst ekki einungis um að láta náttúruna njóta vafans, heldur er það hagur okkar sjálfra að koma í veg fyrir umhverfisslys í framtíðinni eins og hægt er. Ég kalla eftir upplýstri umræðu um áhrif þverana á lífríki strandsvæða, þar á meðal á nytjastofna. Ég tel einnig rétt áður en lengra er haldið að gera ítarlega úttekt á reynslu okkar af þverunum til þessa og hugsanlegum áhrifum þeirra framkvæmda sem nú eru í bígerð eða á hugmyndastigi.

 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum