Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. mars 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ráðstefnu um veiðistjórnun

Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við upphaf ráðstefnu Skotvís og Umhverfisstofnunar um veiðistjórnun sem haldin var 21. mars 2013.

 

Ágætu ráðstefnugestir,

Það er mér ánægja að fylgja þessari ráðstefnu úr hlaði og bjóða ykkur öll velkomin. Hér eru til umfjöllunar mikilvæg málefni sem snerta marga, en yfirskrift ráðstefnunnar er „Rannsóknir og stjórnun á veiðum á villtum dýrum“. Það er metnaðarfull dagskrá sem hér hefur verið sett saman og vil ég þakka Skotvís fyrir það frumkvæði að gangast fyrir þessum viðburði og skipuleggja í samstarfi við Umhverfisstofnun.

Íslenskt lífríki er einstakt. Fuglalíf landsins er fjölskrúðugt og sérstakt, ber þess merki að landið liggur miðja vegu milli tveggja heimsálfa, og margir stórir stofnar hafa hér viðkomu eða halda til árið um kring. Hins vegar eru margir fuglastofnar litlir og viðkvæmir og búsvæði þeirra undir töluverðu álagi. Ástand sumra fuglastofnanna er síðra en æskilegt væri og má þar nefna sérstaklega konung íslenskra fugla, haförninn. Okkur ber auðvitað öllum rík skylda til að hlúa að náttúru landsins og þeim auðæfum sem í henni búa og þar er ábyrg veiðistjórnun á grunni sjálfbærrar þróunar lykilatriði.

Veiðar á villtum dýrum er jafngamlar byggð í landinu. Fyrstu íbúar landsins drógu fram lífsbjörgina að miklu leyti með veiðum á landi, í vatni og í sjó. Gömul lagaákvæði um veiðar og stjórnun þeirra í fyrstu lögbókunum bera vitni um að veiðar voru landsmönnum mikilvægar frá upphafi.  Kannski segir það líka einhverja sögu að ein elsta lagaskrá landsins heiti Grágás. Framan af öldum var veiðistjórnun þó ekki markviss og það sem gerðist í Eldey 4. júní 1844 þarf að vera okkur ævarandi áminning um mikilvægi varúðar í umgengni um náttúruna. Þann sumardag voru væntanlega tveir síðustu geirfuglarnir í heiminum drepnir. Raddir vorsins geta raunverulega þagnað.

Allt fram á síðustu öld voru veiðar stundaðar í atvinnuskyni og til fæðuöflunar. Á síðustu árum hefur það mikið breyst. Nú eru veiðar á fuglum fyrst og fremst stundaðar sem áhugamál, þótt enn séu hlunnindaveiðar stundaðar á nokkrum svæðum. Skotveiðimenn eru fjölmennir í landinu og gegna samtök þeirra mikilvægu hlutverki sem vettvangur veiðiáhugafólks, vettvangur sem getur verið, og hefur verið, stjórnvöldum dýrmætur viðmælandi í þróun faglegrar veiðistjórnunar.

Það er því til fyrirmyndar að samtökin beiti sér fyrir upplýstri umræðu um sjálfbærar veiðar líkt og hér í dag – stefnumót innlendra og erlendra fræðimanna, veiðimanna og veiðiáhugafólks. Slíkt stefnumót er mikilvægt fyrir alla aðila, bæði fyrir veiðimenn að heyra í okkar færustu sérfræðingum á þessu sviði, að heyra þau sjónarmið sem erlendir fræðimenn hafa fram að færa,  svo og fyrir sérfræðinga að heyra í og skiptast á skoðunum við veiðimenn.     


Góðir ráðstefnugestir,

Fyrir nokkru skipaði ég starfshóp til að fara yfir núgildandi lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Lögin eru frá 1994 og full ástæða til að fara yfir lagaumhverfi þessa málaflokks og færa til samræmis við það sem best gerist í þessu málum . Ég á von á því að starfshópurinn skili tillögum sínum í apríl og hef væntingar til að úr þeirri vinnu komi ýmsar góðar tillögur til framfara. Skotvís hefur tekið þátt í þeirri vinnu, en stórt skarð var höggvið í vetur þegar einn fulltrúanna í nefndinni, Sigmar B. Hauksson, lést vegna veikinda. Sigmar var öflugur formaður Skotvís, áberandi talsmaður ábyrgra skotveiða um árabil – auk þess sem matarmenningin var aldrei langt undan í hans umfjöllun enda órofa hluti veiðimenningar. Blessuð sé minning hans. 

Góðir gestir,

Fjölmargir fyrirlestrar verða fluttir hér í dag um rannsóknir og veiðistjórnun. Annað getur ekki án hins verið, öflugar rannsóknir eru forsenda markvissrar veiðistjórnunar. Sem betur fer hefur þekkingu okkar á dýralífi landsins farið fram á undanförnum árum, sem hefur styrkt grundvöll ákvarðanatöku um stjórn sjálfbærra veiða. Ég er þess fullviss að niðurstöður þessarar ráðstefnu verði til þess að styrkja stöðu veiðistjórnunar í landinu auk þess að vera verðugt innlegg í að auka samskipti vísindamanna og sérfræðinga, veiðimanna og almennings með áhuga á málefninu.

Ágætu ráðstefnugestir,

Ég vil að lokum endurtaka þakkir mínar til Skotvís fyrir frumkvæðið að þessari ráðstefnu. Gangi ykkur vel. Takk fyrir,

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum