Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. apríl 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands 2013

Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Veðurstofu Íslands sem haldinn var þann 4. apríl 2013.

 

Góðir gestir,

Það er ánægjulegt að ávarpa ársfund Veðurstofunnar hér á Bústaðavegi, þar sem hún hefur nú komið sér fyrir í stækkuðum húsakynnum á gamla Veðurstofureitnum og þar sem vonandi fer vel um starfsemina. Veðurstofan hefur margar starfstöðvar víða um land, að ógleymdum veðurathugunarstöðvum, en það er ekki gott að höfuðstöðvarnar séu tvískiptar, eins og var um nokkra hríð. Ég tel að farsælasta lausnin í húsnæðismálum stofnunarinnar hafi orðið ofan á og að hér sé rúm fyrir hana að skjóta föstum rótum og vaxa.

Veðurstofan hefur eflst á umliðnum árum, sem er gott fyrir stofnunina en ekki síður fyrir þjóðina, því Veðurstofan er ein mikilvægasta öryggis- og náttúruvöktunarstofnun okkar. Stærsta skrefið í því sambandi var stigið þegar Vatnamælinga Orkustofnunar og gamla Veðurstofan sameinuðust fyrir nokkrum árum, en einnig hefur Veðurstofan tekist á við ný verkefni og verið dugleg að efla rannsóknastarfsemi sína. Það fer vel á því að rannsóknir séu þema þessa ársfundar og verður fróðlegt að fá yfirsýn yfir gróskuna þar og ný verkefni.
Það er mikilvægt fyrir íslenskar vísindastofnanir að vera vel tengdar inn í alþjóðlegt net samstarfs og samvinnu. Með því fæst margvísleg hagræðing og mörg tækifæri opnast. Veðurstofan hefur um nokkurra ára skeið verið aukaaðili að EUMETSAT, samningi Evrópuríkja um rekstur veðurgervitungla. Með aðild fær Veðurstofan aðgengi að gögnum sem gera henni fært að bæta veðurspár og nýtast að auki við mörg önnur verkefni, svo sem á sviði hafísvöktunar og loftslagsrannsókna. Nú er tími aukaaðildar að renna út og ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að Ísland gerist fullgildur aðili að EUMETSAT. Það er von mín og vissa að það verði farsælt skref.

Eyjafjallagosið reyndi mjög á Veðurstofuna og þar reyndist henni vel sá styrkur sem henni var gefinn með fyrrnefndri sameiningu, með fleira starfsfólki og öflugri búnaði. Gosið opnaði ný tækifæri, þar sem Veðurstofan hefur nú fengið nýjan tækjabúnað til að fylgjast með gosstrókum og öskuskýjum í framtíðinni, sem að miklum hluta er fjármagnaður af Alþjóða flugmálastofnuninni.

Stofnunin tekur þátt í nýjum fjölþjóðlegum verkefnum sem miða bæði að því að vakta betur dreifingu ösku í gosum og að reyna að gefa lengri og betri viðvaranir vegna yfirvofandi gosa. Slíkt er augljóslega mjög gagnlegt fyrir íbúa landsins, ekki síður en fyrir alþjóðlega flugstarfsemi. Vöktun Veðurstofunnar á veðri og náttúruvá er að miklu leyti kostuð af alþjóðasamtökum og erlendu rannsóknarfé. Það er eðlilegt, þegar litið er til hlutverks Veðurstofunnar við að þjóna alþjóðaflugi, en það er á engan hátt sjálfsagt; slíkt er ekki hægt nema með því að tryggja að hér sé til staðar sterkur kjarni vísindamanna með sérfræðiþekkingu, öflugir innviðir og tæknibúnaður og vilji til þess að finna og nýta tækifærin. Ég er mjög ánægð með að hægt hefur verið að styrkja starf Veðurstofunnar á ýmsa lund á þeim erfiðu árum sem verið hafa í efnahagslífi landsins eftir fjármálahrunið.

Flestir tengja Veðurstofuna eðlilega við vöktun lofthjúpsins, en hún vaktar flesta þætti hins ólífræna umhverfis okkar: Vatnafar, jökla, hafís og jarðhræringar. Öryggi landsmanna með tilliti til ofanflóða er nú miklum mun betra en var fyrir snjóflóðin mannskæðu á Vestfjörðum fyrir tæpum tuttugu árum. Það er rúm til þess að bæta vöktun náttúruvár af öllu tagi á Íslandi og það er eitt af mikilvægustu verkefnum Veðurstofunnar.
Þar má nefna vatnsflóð og eldgos, en varðandi þau viðfangsefni er hægt að nýta bæði reynsluna varðandi ofanflóðin og alþjóðleg samstarfsverkefni. Hér á eftir verður kynning á uppbyggingu innviða og rannsókna á sviði jarðvísinda og hvernig hún nýtist meðal annars til að bæta eftirlit með jarðskjálfta- og eldgosavá. Rétt er nefna líka til sögunnar að vöktun Veðurstofunnar á hafís hefur eflst á síðustu misserum.

 Góðir gestir,

Miklar breytingar hafa verið gerðar á Stjórnarráði Íslands á þessu kjörtímabili og hafa þær haft að leiðarljósi að skapa færri ráðuneyti, en öflugri. Veðurstofan heyrir nú til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sem varð til við breytingar nú á síðastliðnu hausti. Veðurstofan er ekki einungis öryggis- og vísindastofnun, heldur hefur starf hennar margvíslegt hagnýtt gildi og getur stuðlað að betri nýtingu auðlinda landsins. Hér í dag verður fjallað um rannsóknir sem miða að því að nýta vindorku, en það hefði einhvern tíma þótt langsótt að íslenska rokið gæti verið til gagns.

Enn fjarstæðukenndari þótti sú hugmynd að selja norðurljósin. Nú er slík sölumennska rífandi bisniss og má sjá rútuflota halda út úr ljósmenguðum höfuðstaðnum á léttskýjuðum vetrarkvöldum, með farm af erlendum gestum sem vilja líta þessi undur, sem neita að láta sjá sig á mildari breiddargráðum. Það var eitt af fjölmörgum ánægjulegum embættisverkum umhverfis- og auðlindaráðherra á kjörtímabilinu sem bráðum er á enda að opna norðurljósavef Veðurstofunnar, sem er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum og sýnir mönnum á aðgengilegan hátt líkurnar á að ná góðri ljósasýningu. Fleiri dæmi mætti nefna þar sem Veðurstofan styður við hefðbundna og nýstárlega nýtingu auðlinda. Það gildir almennt um náttúruauðlindir, að sjálfbær nýting þeirra verður að byggja á góðri þekkingu og vísindalegri ráðgjöf. Því skiptir miklu máli að standa vörð um og efla stofnanir okkar á sviði náttúruvísinda. Það ætti að vera lag til slíks á næstunni, því við erum að miklu leyti komin fyrir vind í þeim sviptingum sem verið hafa í efnahagslífinu og samfélaginu eftir bankahrunið. Það var alls ekki sjálfgefið að svo yrði, en eftir er að sjá hvort okkur beri gæfa til þess að byggja áfram gott samfélag á traustari grunni en við gerðum á árum fjármálabólunnar. Ég skynja hér sóknarhug og metnað og vilja til að margþætt starf Veðurstofunnar skili sér til eflingar á hag og öryggi almennings. Ég er viss um að Veðurstofunnar bíði góðir tímar og óska ykkur góðs ársfundar og farsældar í starfinu framundan.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum