Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. apríl 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi umvistvæn innkaup

Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp við upphaf málþings um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur sem haldið var 10. apríl 2013.

 

Fundarstjóri og ágætu ráðstefnugestir,

Mér er það ánægja að vera með ykkur hér í dag og fá tækifæri til að fjalla um eitt af áherslumálum undanfarins kjörtímabils,  vistvæn innkaup og sjálfbærni.
Ekki spillir fyrir að geta upplýst ykkur um það að í gær samþykkti ríkisstjórn Íslands endurnýjaða stefnu fyrir næstu fjögur ár um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, stefnu sem mun gera ríkið að meðvitaðri og vistvænni neytanda.

Á undanförnum árum hefur neysluháttum í sívaxandi mæli verið þokað í grænni átt. Nú er svo komið að allt hagkerfið er undir – og ríkir raunar um það nokkuð þverpólitísk sátt.  Fyrir rétt rúmu ári var til dæmis um það eining meðal allra flokka á Alþingi þegar þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins var samþykkt, nokkuð sem síðustu málþófsvikurnar á þingi gera manni erfitt að ímynda sér.

Í stuttu máli einkennist grænt hagkerfi af aukinni verðmætasköpun á sama tíma og dregið er úr álagi á náttúruna. Í tillögum Alþingis um eflingu græna hagkerfisins er lögð áhersla á að ríkið verði fyrirmynd og skapi aðstæður fyrir aðra að feta sömu leið. Ein af öflugustu leiðunum að því markmiði eru vistvæn innkaup og grænn ríkisrekstur. Sú stefna sem var samþykkt í gær er í anda þessa. Stefnan segir fyrir um hvernig samþætta á umhverfissjónarmið góðum innkaupaháttum og hvernig opinberir aðilar geta gert rekstur sinn grænni.

Fyrir þremur árum stóð ég einmitt hér á Grand hótel á ráðstefnu um vistvæn innkaup. Ánægjulegt er að sjá að á þeim tíma sem liðinn er hefur tekist að sá fræjum sem virðast vera að spíra, eins og má sjá í niðurstöðum könnunar sem gerð var hjá forstöðumönnum stofnana og farið verður yfir hér á eftir.

Frá upphafi samstarfs um vistvæn innkaup hafa sveitarfélög átt tryggan sess við borðið, og mun svo verða áfram. Sum þeirra hafa aflað sér góðrar reynslu, eins og við munum heyra um hér á eftir frá Reykjavíkurborg, en árangur borgarinnar hefur hlotið verðskuldaða athygli erlendis. Við erum fámenn þjóð og því mikilvægt að opinberir aðilar starfi saman og samnýti krafta þar sem hægt er. Það er von mín að sveitarfélög muni nýta sér í ríkara mæli fræðslu og hjálpartæki sem þeim standa til boða á heimasíðu vinn.is.

Þegar rætt er um aðgerðir í umhverfismálum er oft litið til úrgangsmálanna. Eitt öflugasta verkfæri opinberra aðila er hins vegar í hinum enda virðiskeðjunnar: innkaup. Umfang opinberra innkaupa hér á landi er talið vera um 300 milljarðar króna á ári. Það er upphæð sem munar um! Opinberir aðilar geta þannig sem neytendur haft gríðarleg áhrif á þróun á markaði. Við getum haft áhrif á vöru- og þjónustuframboð, eins og dæmi Reykjavíkurborgar dregur fram hér á eftir, og verið jafnvel drifkraftur nýsköpunar.
Áhersla ríkis og sveitarfélaga á vistvæn innkaup hefur þegar haft veruleg áhrif á markaðinn. Dæmi um það er fjölgun Svansvottaðra fyrirtækja úr 4 í 25 frá samþykkt síðustu stefnu, sem virðist vera bein afleiðing af umhverfiskröfum í útboðum opinberra aðila.

Ágætu gestir,

Mig langar til að fara hér í stuttu máli yfir helstu áherslur nýsamþykktrar stefnu um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur.

Áfram verður lögð áhersla á fræðslu og innleiðingu í góðu samstarfi við hagsmunaaðila. Með þessu er hægt að tryggja sem bestan árangur við að draga úr umhverfisáhrifum um leið og stuðlað er að aukinni samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem bjóða vistvænni valkosti .
Tilgangur stefnunnar að minnka umhverfisáhrif opinberra innkaupa, aðstoða opinberar stofnanir við að gera rekstur sinn umhverfisvænni og stuðla að sjálfbærri neyslu.

Sýn okkar fyrir árið 2016 er að ríkið setji skýrar kröfur um vistvænar áherslur við innkaup. Við sjáum líka fyrir okkur að stofnanir hafi greiðan aðgang að skilvirkum hjálpartækjum, svo sem  umhverfisskilyrðum í öllum helstu vöru- og þjónustuflokkum til styðjast við og lykilstarfsmenn opinberra stofnana fái góða fræðslu og þjálfun í vistvænum innkaupum. Vistvænar áherslur verði eðlilegur og sjálfsagður hluti af innkaupaferli, jafnt í almennum innkaupum sem útboðum. Enn fremur sjáum við fyrir okkur að í ríkisrekstrinum verði að finna áhugaverðar og metnaðarfullar fyrirmyndir um grænan rekstur þar sem unnið er eftir umhverfisstefnu og fylgst er með árangri í grænu bókhaldi.

Til að undirstrika að stofnanir ríkisins verði til fyrirmyndar er gert ráð fyrir að við val á Stofnun ársins verði tekið mið af frammistöðu stofnana í vistvænum innkaupum og grænum rekstri.

En til hvaða aðgerða verður gripið?

Til viðbótar við áherslu á að efla almenna þekkingu og færni til að beita þeim verkfærum sem tryggja vistvæn innkaup er lögð áhersla á að í útboðum verði allir rammasamningar með lágmarksumhverfiskröfur. Við leggjum áherslu á góð samskipti við aðila markaðarins og gagnsæ vinnubrögð, að ríkisstofnanir gefi skýr skilaboð til markaðarins, að verklag og verkfæri séu sameiginleg  og að grænn ríkisrekstur sé markviss og í samræmi við bestu aðferðir hverju sinni. Vonir standa til að ríki og birgjar eigi í árangursríku samstarfi um þróun vistvænna innkaupa með skapandi lausnum sem er lögð mikil áhersla á erlendis enda drifkraftur nýsköpunar.

Þá er rétt að nefna áherslu núverandi ríkisstjórnar á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð, sem snýst um að sameina þekkingu á gerð fjárlaga og þekkingu á kynjamisrétti með það að leiðarljósi að stuðla að hagkvæmri og réttlátri dreifingu opinberra fjármuna. Stefnan var kyngreind og við áframhaldandi innleiðingu þurfum við að vera meðvituð um mismunandi innkaupaáherslur karla og kvenna.

Vistvæn innkaup og grænn ríkisrekstur eru í sjálfu sér einföld vísindi. Í grunninn snýst verkefnið um að fara vel með, staldra við og gera það sem er skynsamlegt til framtíðar. Ávinningurinn er allra og hann er allt í senn fjárhagslegur, umhverfislegur og samfélagslegur eins og við munum heyra dæmi um hér á eftir þegar Landspítalinn, ÁTVR og Reykjavíkurborg munu deila reynslu sinni með ykkur. Þetta snýst ekki um grænþvott til að líta vel út heldur um skynsemi og ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum.

Góðir gestir, ágætu forstöðumenn,

Ég vil hvetja ykkur til að kynna ykkur heimasíðu verkefnisins, vinn.is þar sem er að finna fræðsluefni um vistvæn innkaup, stefnu, grænt bókhald og fréttir. Komið þessu áleiðis til ykkar starfsfólks og virkið. Ég óska ykkur alls hins besta og hlakka til að fylgjast með  áhugaverðum og metnaðarfullum fyrirmyndum um grænan rekstur þar sem unnið er eftir umhverfisstefnu og fylgst er með árangri í grænu bókhaldi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum