Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra 2009, umhverfis- og auðlindaráðherra 2012-2013

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi um aðgengismál

 

Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi um aðgengismál sem haldið var 16. apríl 2013 undir yfirskriftinni “Algild hönnun – raunveruleiki eða tálsýn?”

 

Ágætu málþingsgestir,

Það er mér mikil ánægja að fá að vera hér með ykkur í dag til að setja þetta málþing sem fjallar um algilda hönnun – er hún raunveruleiki eða tálsýn? Við mætumst hér úr ólíkum áttum; hér eru fulltrúar frá ráðuneytum, stofnunum, félagasamtökum, atvinnulífinu og fagfélögum. Þessi breiða samsetning þátttakenda sýnir vel mikilvægi málefnisins og hversu víða skírskotun það hefur.

En hvað er algild hönnun? Það er mikilvægt að skapa skilning á því hvað hún felur í sér, en við eignuðumst orðabókarskilgreiningu á hugtakinu þegar Alþinig samþykkti lög um mannvirki í lok árs 2010. Þar er algild hönnun skilgreind sem: „Hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útilokar ekki hjálpartæki fyrir fatlaða sé þeirra þörf.“

Samþykki Alþingis á mannvirkjalögum var mikilvægur áfangi að mörgu leyti, en ekki síst hvað varðar aðgengismál. Með lögunum má segja að sé festur sá skilningur Alþingis að samfélagið eigi að vera fyrir alla. Eitt markmið laganna er að tryggja skuli aðgengi fyrir alla. Þetta markmið er ekki sett fram sem almenn tilmæli heldur sem skýr lagaskylda – og herti Alþingi frekar á ákvæðinu í meðförum sínum.

Í kjölfar gildistöku nýrra mannvirkjalaga var hafist handa við gerð nýrrar byggingarreglugerðar á grundvelli laganna sem unnið var að í víðtæku samráði. Nefnd sem ráðherra skipaði var falið að vinna drög að reglugerðinni en að starfinu komu um 60 aðilar með þátttöku í vinnuhópum. Þessir aðilar voru tilnefndir af fagfélögum og hagsmunasamtökum. Sérstök áhersla var lögð á ákvæði um neytendavernd, vistvæna byggð, hljóðvistarkröfur, byggingar sem ætlaðar eru börnum, aðgengismál og útfærslu á þeim stjórntækjum laganna sem ætlað er að koma í veg fyrir að mannvirki sem ekki uppfylla kröfur verði tekin í notkun.

Í nýrri byggingarreglugerð sem gefin var út í febrúar 2012 endurspeglast sérstaklega það markmið mannvirkjalaga að tryggja aðgengi fyrir alla.

Samráðshópur ráðuneyta undir forystu innanríkisráðuneytis vinnur þessa dagana að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sú vinna felur m.a. í sér skoðun á þýðingu samningsins auk þess sem öll íslensk lög og reglugerðir sem varða ákvæði samningsins eru yfirfarin og metið hvort þar sé breytinga þörf til að unnt verði að fullgilda samninginn.

Markmið samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveða m.a. á um að stuðlað skuli að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi.

Grundvöllur þess að þetta markmið samnings Sameinuðu þjóðanna náist er að tryggja aðgengi fyrir alla eins og markmiðsákvæði laga um mannvirki kveða á um. Aðferðafræði algildrar hönnunar við gerð mannvirkja er leið til að ná þessu marki.

Ég tel afar mikilvægt að ríkið móti sér skýra aðgengisstefnu þar sem horft er til framtíðar og allra þeirra þátta sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks spannar. Eðlilegt er að slík vinna sé unnin undir forystu þeirra þriggja ráðuneyta sem málaflokkurinn snertir, en önnur ráðuneyti þurfa að koma að málinu vegna þeirra þátta sem undir þau heyra, auk þess sem nauðsynlegt er að hafa samráð við sveitarstjórnir, sérfræðinga – og síðast en ekki alls ekki síst; hagsmunasamtök.

Ég vona að málþingið muni reynast gagnlegt og vil óska ykkur farsældar í ykkar störfum við að tryggja aðgengi fyrir alla og framgang algildrar hönnunar á sem flestum sviðum okkar samfélags.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum