Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. febrúar 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðRæður og greinar Bjartar Ólafsdóttur

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Grænfánaráðstefnu Landverndar

 Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á ráðstefnu Landverndar um Grænfánann sem haldin var 10. febrúar 2017.

 

Góðir gestir.

Það er ekki erfitt að láta sig umhverfismálin varða því fátt skiptir eins miklu máli fyrir okkur í dag og fyrir framtíðina. Við sem hér erum vitum þetta vonandi flest og því er kannski að æra óstöðugan að hnykkja á því að umhverfismálin snúast fyrst og fremst um að tryggja lífvænleg skilyrði fyrir framtíðarfólkið – ungviði dagsins í dag og barna sem enn eru ófædd. Að þau og við öll fáum að njóta frjósamrar og byggilegrar jarðar um ókomna tíð.

Þetta er í raun nokkuð augljós og einföld speki en samt er ekki sjálfgefið að við skiljum hvað hún þýðir eða krefst af okkur, hvað þá að við náum að tileinka okkur umhverfisvænni lífsstíl sisvona. Þótt við vitum að fjölmargar athafnir okkar daglega lífs leiða til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda og ýti þar með undir hlýnun jarðar höldum við áfram að aka til og frá vinnu og borða okkar skerf af nautakjöti. Þótt við vitum að heimsins höf eru að fyllast af plasti höldum við áfram að kaupa vörur í einnota plastumbúðum og stinga ofan í einnota plastpoka. Og þótt við vitum af eyðingu regnskóganna er erfitt að hætta að nota pappír og tylla sér á garðstóla á sólríkum dögum.

Það er nefnilega erfitt að kenna gömlum hundum að sitja.

Hvolpar hinsvegar eru prýðisgóðir nemendur! Fái þeir viðeigandi þjálfun nógu snemma læra þeir ekki bara að sitja heldur fara þeir að liggja, rúlla sér og gera alls konar hundakúnstir fyrr en varir. Og hver veit nema þeir séu einhverjum heldrihundum hvatning í að prófa eitthvað nýtt.

Við sem eigum lítil börn getum kannski þakkað fyrir að námsefnið í Grænfánaskólunum snýst ekki um hundakúnstir og almennan hamagang heldur tekur það á stóru umhverfismálunum – allt frá neyslu og úrgangi upp í loftslagsbreytingarnar, sem við heyrum einmitt svo mikið um þessa dagana, en getur verið erfitt að skilja. Nemendur á grænni grein öðlast hins vegar hæfni til að skilja og takast á við flókin mál og þannig breyta ekki bara skólanum sínum heldur eigin framtíð. Bónusinn er svo sá að oft eru þessir krakkar öðrum iðnari við að halda okkur heldrihundunum við efnið. Þær eru ófáar sögurnar af litlum umhverfisherforingjum sem á heimavelli lesa yfir hausamótunum á foreldrum sínum um mikilvægi þess að slökkva ljós, flokka rusl, skrúfa fyrir rennandi vatn og ganga í búðina á góðviðrisdögum. Það sem er enn mikilvægara er að með þessu öðlast krakkarnir frá fyrstu stundu meðvitund um mikilvægi þess að ganga vel um jörðina okkar og tileinka sér vonandi betri venjur fyrir lífstíð.

Ég er stolt af því að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur frá upphafi verkefnisins verið bakhjarl Grænfánaverkefnisins sem í dag tekur til 230 skóla og um 45 þúsund nemenda um allt land. Ráðuneytið hefur þannig styrkt Landvernd til að reka og þróa verkefnið auk þess sem það hefur lagt fé til annarra verkefna Landverndar sem styðja við bakið á skólum á grænni grein. Tvö dæmi þess voru kynnt hér í dag – vistheimtarverkefnið og handbók um kennslufræði um loftslagsbreytingar og lífbreytileika – en bæði verkefnin eru styrkt sérstaklega af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Frá árinu 2011 hafa umhverfis- og auðlindaráðuneytið og menntamálaráðuneytið gert þriggja ára samninga við Landvernd um rekstur verkefnisins og er nú unnið að undirbúningi nýs samnings til næstu þriggja ára.

 

Góðir gestir.

Afrakstur Grænfánaverkefnisins blasir við okkur á hverjum degi. Hann endurspeglast kannski ekki hvað síst í þeirri miklu fjölgun skóla og nemenda sem hefur orðið frá því að verkefninu var hleypt af stokkunum hérlendis árið 2000 þegar tólf stórhuga skólar skráðu sig til leiks.

Einn þessara frumkvöðla var Grunnskóli Borgarfjarðar á Hvanneyri, sem ásamt Fossvogsskóla í Reykjavík – sem fékk viðurkenningu hér fyrr í dag – hefur oftast flaggað Grænfánanum eða alls átta sinnum. Og það er óhætt að segja að Grunnskóli Borgarfjarðar sé einnig vel að viðurkenningu kominn.

Starfið þar einkennist af jákvæðni, sköpun og frumkvæði. Auk sjálfbærni- og umhverfisstarfs vinnur skólinn með neyslu, lýðheilsu, og hnattrænt jafnrétti sem allt eru þemu í Grænfánaverkefninu. Boðið er upp á útikennslu og umhverfislist í fallegri útikennslustofu og kartöfluræktun þar sem uppskeran nemur 100 kílóum! Nemendur taka einnig hendinni til í sultu- og sláturgerð, kryddjurtaræktun fyrir skólaeldhúsið og takmarka matarsóun eins og hægt er. Nemendur hafa haldið flóamarkað til styrktar flóttabörnum frá Sýrlandi og ráðist í jólakortagerð til styrktar góðgerðarstarfi á Íslandi. Þá er markvisst unnið að því að efla samkennd og virðingu nemenda fyrir hvort öðru. Grunnskóli Borgarfjarðar á Hvanneyri er hugmyndaríkur og metnaðarfullur skóli sem menntar börn sem geta bætt og breytt framtíðinni til hins betra. Og í því felst lykillinn því eins og ég nefndi í upphafi eru umhverfismálin mál nútíðarinnar og framtíðarinnar!

Um leið og ég þakka kærlega fyrir að fá að vera hér með ykkur í dag er það mér heiður að fá að afhenda Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri viðurkenningu fyrir sitt góða starf. Ég vil því biðja fulltrúa skólans og Landverndar um að koma hingað upp. Bestu þakkir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum