Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. maí 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðBjört Ólafsdóttir

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi um skipulag haf- og strandsvæða

Ágætu fundargestir!

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þennan góða hóp sem hér er mættur á málþing um skipulag haf- og strandsvæða sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi og Samtök sjávarútvegssveitarfélaga standa fyrir.

Skipulag á haf- og strandsvæðum hefur talsvert verið í deiglunni undanfarin ár og hefur jafnframt verið áherslumál af minni hálfu sem umhverfis- og auðlindaráðherra í ljósi þess að um er að ræða nýtt og mjög brýnt viðfangsefni í skipulagsmálum á Íslandi.

Alþingi hefur einnig lagt mikla áherslu á þetta málefni, en í gildandi landsskipulagsstefnu, sem samþykkt var á Alþingi vorið 2016, er stefna um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum ein af fjórum megináherslum stefnunnar og þar gert ráð fyrir framlagningu frumvarps af hálfu umhverfis- og auðlindaráðherra um málefnið.

Eins og fram kemur í greinargerð Skipulagsstofnunar um stöðu haf- og strandsvæða frá 2012 hafa ýmis lönd verið að vinna að því að þróa hentug skipulagstæki og skipulagsferla til að koma böndum á stjórnsýslu hafsvæða og tryggja vernd og viðhald náttúruauðlinda í hafinu. Markmiðið hefur verið að hafa vistkerfið í forgrunni og stuðla að skynsamlegri nýtingu auðlinda hafsins með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Það sem hefur rekið lönd eins og t.d. Kanada, Ástralíu, Noreg, Þýskaland og Belgíu til að vinna hafskipulag eru vaxandi árekstrar milli mismunandi notenda og ekki síst hættan sem getur stafað af auknu álagi. Nýjar hugmyndir og þarfir hafa einnig verið að koma fram, eins og hugmyndir um ölduvirkjanir.

Í greinargerð Skipulagsstofnunar um stöðu haf- og strandsvæðaskipulags frá 2012 er dregið saman heildaryfirlit yfir lífríki, notkun og vernd fyrir hafsvæði umhverfis Ísland og bent á hagsmunaárekstra milli notkunar og verndar. Í greinargerðinni kemur skýrt fram að knýjandi þörf er á að skipuleggja haf- og strandsvæði næst landi til að tryggja að verðmæt hrygningarsvæði og önnur verðmæt náttúrufyrirbæri skaðist ekki vegna vaxandi álags af athöfnum og aðgerðum og til að draga úr árekstrum á milli mismunandi notenda. Í skýrslu nefndar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 2011 um úttekt á gildandi lögum og reglum um framkvæmdir og athafnir með ströndum landsins og í efnahagslögsögunni kemur einnig fram að æskilegt sé að sett verði sérstök lög um skipulag haf- og strandsvæða.

Í ljósi alls þessa hóf umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinnu við að greina nánar stöðu þessara mála og árin 2013 og 2014 vann Skipulagsstofnun í því skyni, greinargerð um skipulag á haf- og strandsvæðum. Í kjölfarið var farið í opið kynningarferli á málinu og samráð haft við ráðuneyti, stofnanir, Samband íslenskra sveitarfélaga o.fl. aðila. Á samráðsfundum kom fram samhljómur um þörf fyrir lagasetningu um skipulag haf- og strandsvæða og því var vinna við gerð frumvarps sett af stað. Í ljósi mikilvægra hagsmuna sveitarfélaga sat fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í þeim starfshópi sem skipaður var til að vinna frumvarpið.

Frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi er afurð vinnu þessa starfshóps og það er mikilvægt á þessum vettvangi að taka fram að fulltrúar ríkis og sveitarfélaga voru sammála um efni þess. Fyrir lá að umfjöllunarefni frumvarpsins yrði hafsvæði á forræði ríkisins sem er utan umdæma sveitarfélaganna þar sem gildandi skipulagslög mæla eingöngu fyrir um skipulag innan sveitarfélagamarka.

Starfshópurinn lagði til að ákvarðanataka við gerð strandsvæðisskipulag yrði í höndum svæðisráða sem í væru fulltrúar viðkomandi ráðherra auk fulltrúa sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga, en hingað til hefur sveitarfélögin skort aðkomu að þessum málum. Í frumvarpinu er því lögð til aðkoma sveitarfélaganna að ákvarðanatöku um nýtingu strandsvæða, enda eiga þau þar hagsmuna að gæta.

Í frumvarpinu er einnig lögð mikil áhersla á að gætt sé samræmis við skipulagsáætlanir sveitarfélaga og að auk setu sveitarfélaga í svæðisráði sé viðhaft sérstakt samráð við þau við skipulagsgerðina. Í því sambandi er afar mikilvægt að hafa í huga að við gerð skipulagsins ber að afla allra nauðsynlegra upplýsinga, m.a. frá fagstofnunum, um viðkomandi svæði og starfsemi sem fyrir er á svæðinu og á nærsvæði og að fara beri að markmiðsákvæðum laganna og gæta vel að allri kynningu og athugasemdaferli.

Eins og þið kannski heyrið þá hef ég mikinn skilning á hagsmunum sveitarfélaga vegna skipulagsgerðar á strandsvæðum. Hins vegar er það ljóst að vernd og nýting auðlinda haf- og strandsvæða varðar ekki eingöngu hagsmuni sveitarfélaga heldur í reynd hagsmuni okkar allra, sem lúta m.a. að því að auðlindir þjóðarinnar í hafi verði nýttar á hagkvæman og sjálfbæran hátt.

Ein af megin ástæðum þess að skipulag á haf- og strandsvæðum hefur verið í umræðunni er aukinn áhugi á fiskeldi við strendur landsins og hinn hraði vöxtur þessarar greinar. Mikilvægt er að fiskeldi byggist upp sem sterk og öflug atvinnugrein í sátt við umhverfið, en það þarf að stíga mjög varlega til jarðar og tryggja að varúðarregla umhverfisréttarins sé höfð að leiðarljósi.

Þetta er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að framleiða skuli heilnæmar innlendar afurðir á umhverfisvænan og samkeppnishæfan hátt og að komandi kynslóðir njóti sömu gæða og þær sem nú byggja landið.

Fiskeldi sem og önnur starfsemi sem valdið getur mengun þarf að uppfylla skilyrði um mengunarvarnir sem tryggja að náttúran verði ekki fyrir tjóni. Til þess höfum við starfsleyfi sem er ákvörðun stjórnvalds í formi útgefins leyfis þar sem tilteknum rekstraraðila er heimilað að starfrækja atvinnurekstur að því tilskyldu að hann uppfylli ákvæði laga og reglugerða, skilyrði starfsleyfisins og taki á umhverfistengdum þáttum og mengunarvörnum.

Í kjölfar útgáfu starfsleyfis fara stjórnvöld með umhverfiseftirlit með starfseminni. Og það er gríðarlega mikilvægt að eftirlitið sé virkt, bæði innra eftirlit fyrirtækja sem og opinbert eftirlit. Að því sögðu tel ég rétt að viðbrögð við frávikum verði hert og að viðurlögum verði beitt ef sleppingar verða þegar við á auk þess sem leggja þarf mikla áhersla á að rekstraraðilar tilkynni án tafar um fisk sem sleppur og þau frávik frá kröfum í leyfi sem upp koma.

Nú er unnið er að stefnumótun stjórnvalda í fiskeldi og er gert ráð fyrir að starfshópur skili tillögum til sjávar- og landbúnaðarráðherra í sumar. Veigamestu umhverfisþættir sem fjallað er um í mati á umhverfisáhrifum fiskeldis í sjókvíum varða lífræna mengun, smitsjúkdóma og sníkjudýr frá eldinu og, í tilfelli laxeldis, hættu á að erfðaefni framandi eldisstofns blandist villtum laxastofnum.

Því tel ég mikilvægt að sett verði viðmið fyrir vöktun og viðbragðsáætlanir til að fylgjast með og bregðast við þessum þáttum. Það er á ábyrgð rekstraraðila að tryggja með reglulegu innra eftirliti að fiskeldi skapi ekki hættu fyrir lífríki utan eldisins vegna þessara þátta. En það er líka á ábyrgð stjórnsýslunnar að tryggja að opinbert eftirlit með þessari starfsemi sé fullnægjandi.

Komi upp vandamál er mikilvægt að viðbragðsáætlun sé til staðar sem gerir ráð fyrir markvissum aðgerðum í samræmi við niðurstöður vöktunar. Setja þarf viðmið um hættuástand fyrir lífríki sem miða skuli við í viðbragðsáætlunum. Gera á ráð fyrir aðgerðum sem á hverju tíma verði í samræmi við þau frávik frá náttúrulegu ástandi sem vöktun leiðir í ljós.

Þá er einnig mikilvægt að skilgreina viðmiðanir/umhverfismarkmið fyrir heimilað lífrænt álag undir og við eldiskvíar og viðbrögð við frávikum. Umhverfisstofnun mun vinna að þessu í samræmi við ákvæði laga um stjórn vatnamála og setja þannig viðmiðanir um heimilað lífrænt álag í vatnshlotum og álagsgreiningu.

Ágætu gestir!

Það er skýrt í mínum huga að mikil þörf er á sérstakri löggjöf um skipulag haf- og strandsvæða. Í kjölfar lagasetningar verður hægt að vinna að skipulagi þessa mikilvæga svæðis, sem mun veita góða heildarsýn yfir vernd, notkun og nýtingu haf- og strandsvæða við Ísland. Hægt verður að nota slíka áætlun til að taka ákvarðanir sem leiði til sjálfbærrar nýtingar á vistkerfum íslenska hafsvæðisins. Þannig verði tryggt að haf- og strandsvæðum verði stjórnað á þann hátt að verðmæti þeirra og auðlindir haldist, öllum til hagsbóta.

Ég vil að lokum segja að ég fagna því að hér í dag verði rætt nánar um þetta mikilvæga málefni sem varðar okkur öll. Ég veit að dagurinn verði okkur öllum fróðlegur og ánægjulegur.

Takk fyrir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum