Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. maí 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðBjört Ólafsdóttir

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ráðstefnunni "Úrgangur í dag - auðlind á morgun"

Kæru gestir,

Þessi ráðstefna er lokaliður í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni um Norræna lífhagkerfið (NordBio). Markmið áætluninnar var að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda í því skyni að draga úr sóun og efla nýsköpun, grænt atvinnulíf og byggðaþróun.

Og þá spyr ég – lífhagkerfi – hvað í ósköpunum er það eiginlega? Svo ég svari nú sjálfri mér þá er það hagkerfi sem byggir á nýtingu lifandi auðlinda á landi og í sjó, þar sem leitast er við að hámarka ávinning nýtingarinnar án þess að ganga á auðlindirnar.

Í tengslum við yfirstandandi gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum verður okkur líka tíðrætt um lágkolefnishagkerfi. Og hvað er það þá? Jú, eins og nafnið ber með sér er það hagkerfi þar sem losun gróðurhúsa-lofttegunda af mannavöldum frá öllum ferlum samfélagsins er haldið í lágmarki

Eiga þá lágkolefnis- og lífhagkerfi eitthvað sameiginlegt? Jú, þau eru bæði hluti af stærri heild; svokölluðu hringrásarhagkerfi. Megináhersla þess er að lágmarka auðlindasóun og fullnýta allar afurðir í stað þess að endalaust henda og urða. Enda er lítið sem ekkert af því sem við hendum raunverulegur úrgangur heldur auðlindir sem við meðhöndlum á rangan og ósjálfbæran hátt.

Samkvæmt skilgreiningu á heimasíðu Umhverfisstofnunar er úrgangur reyndar bara afgangshráefni, eitthvað sem við getum ekki eða teljum okkur ekki geta nýtt, eða sem við kjósum að nota ekki.

Í því samhengi er það verulega umhugsunarvert að Íslendingar urða árlega 176 þúsund tonn af úrgangi – afgangshráefni sem við teljum okkur ekki hafa nein not fyrir. Þar af eru um 97 þúsund tonn af lífrænum uppruna. Þó Reykjavíkurborg og eflaust mörg fleiri sveitarfélög hafi sett sér markmið um að hætta allri urðun lífræns úrgangs fyrir árið 2020 þá er þetta staðan í dag.

Ef þessi næstum 100 þúsund tonn af lífbrjótanlegu efni væru meðhöndluð á annan hátt væru þau ekki lengur skilgreind sem úrgangur heldur sem verðmætaskapandi auðlind. Er þá ekki rétt að spyrja – hvernig í ósköpunum stendur á því að við erum enn, árið 2017, að urða verðmætt lífrænt hráefni í stað þess að fullnýta það? Um 10% af lífbrjótanlega efninu sem við urðum árlega er slátur- og fiskúrgangur en um 50% eru matvæli.

Hugsið ykkur – um helmingur þessa lífræna úrgangs sem urðaður er árlega eru matvæli sem við hendum, ýmist vegna þess að við kaupum of mikið inn, eldum of stóra skammta eða vegna þess að matvöruverslanir henda vöru sem er komin fram á síðasta söludag en er samt enn í góðu lagi – hvaða rugl er það?

Það bætir svo ekki úr skák að með því að urða allt þetta lífbrjótanlega efni aukum við á losun gróðurhúsalofttegunda. Í dag kemur um 8% af losun frá Íslandi frá meðhöndlun úrgangs. Þessu þurfum við að breyta og það hratt.

Þó matarsóunin sé enn alltof mikil þá hefur síðustu misserin, heilmikið unnist á þeim vettvangi, til dæmis í gegnum fræðsluverkefni á vegum samtakanna Vakandi, Landverndar og kvenfélagasambands Íslands.

Þannig eru æ fleiri matvöruverslanir farnar að bjóða okkur neytendum upp á að kaupa, á lækkuðu verði, vörur sem eru að komast á síðasta söludag eða grænmeti og ávexti sem farið er að sjá á, í stað þess að henda þessu beint í gáminn.

Ég býst við að flestir hér inni þekki líka vefinn: matarsoun.is. Það er frábær vefur sem þarf að gera enn sýnilegri neytendum, við erum nefnilega svo fljót að gleyma! Minni matarsóun þarf að verða inngreypt í kauphegðun okkar, ekki bara átak sem við tökum þátt í um stund, rétt áður en við leggjum af stað í næsta verslunarleiðangur.

Endurvinnsla og endurnýting þarf líka að verða hluti af menningu okkar – það er töff að sóa minna. Það er töff að safna afgangsolíu úr eldhúsinu og skila henni inn til endurvinnslu þar sem hún er endurnýtt sem íblöndun í eldsneyti. Það er töff að fara með margnota bollann sinn á kaffihúsið eða Boostbarinn. Það er yfirhöfuð töff að vera meðvitaður neytandi.

Kæru gestir,

Þrátt fyrir að við getum gert miklu betur þá má ekki gera lítið úr því sem þegar hefur verið gert vel. Síðustu árin höfum við nefnilega bætt verulega hlutfallslega nýtingu á lífrænum aukaafurðum. Sem dæmi má nefna að við höfum nú þegar náð miklum árangri í nýtingu fiskafurða sem áður var hent án umhugsunar.

Verðmætasköpun þessara afurða er í flestum tilfellum mjög mikil. Í nokkrum tilfellum er meira að segja hægt að velta því upp hvort sumar þessara svokölluðu aukaafurða eins og til að mynda ensím og kollagen úr fiskroði séu farnar að skila meiri framlegð en aðalafurðin? Þetta er verulega jákvæð þróun og ekkert sem kemur í veg fyrir að við yfirfærum það sem við höfum lært varðandi nýtingu lífrænna aukaafurða í sjávarútvegi yfir á aðra geira og reynum að gera enn betur.

Landbúnaðurinn er komin af stað í þessa átt og ég þykist þess viss að þróunin í nýtingu lífrænna aukaafurða í þeim geira verður ekki síður spennandi en hún er í sjávarútvegnum.

Það er nokkuð ljóst að það þarf að ýta lengur og meira undir þessa þróun til að festa hana betur í sessi. Stjórnvöld verða að hlúa áfram að nýsköpun og sprotafyrirtækjum sem verða til á þessum vettvangi. Það er líka nauðsynlegt að efla umræðuna um bætta nýtingu á afurðum lífauðlinda og gera umræðuna almennari og aðgengilegri. Minni sóun og bætt auðlindanýting af öllu tagi á auðvitað að vera grunnstefið – og þangað þurfum við að koma umræðunni – og hegðun okkar í kjölfarið.

Við þurfum að auka samtal og efla samstarf á milli þeirra sem aukaafurðirnar verða til hjá og þeirra sem gætu hugsanlega nýtt sér þær. Við þurfum líka að virkja frumkvöðla og gera þeim auðveldara fyrir að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.

Kæru gestir,

Það liggja ófá tækifæri til nýsköpunar í bættri nýtingu á lífrænum aukaafurðum eins og við munum heyra um og sjá á þessari ráðstefnu. Við höfum aðgang að fjölmörgum og verðmætum lífauðlindum. Þar má nefna fiskistofna í hafi og ferskvatni, fjölbreytta þörungaflóru, búfénað, plöntur og annar gróður.

Sumar þessara auðlinda höfum við ekki enn þekkingu til að nýta eða nýtum að litlu leyti. Við nýtum hráefni frá mörgum þeirra að einhverju eða talsverðu leyti en það eru ekki mörg dæmi þess að við fullnýtum hráefnið sem við tökum til afnota – enda myndum við þá heldur ekki vera að urða 97 þúsund tonn af afurðum lífauðlinda árlega.

Þessi sóun getur ekki viðgengist lengur. Við þurfum að temja okkur að fullnýta allt lífrænt hráefni sem við fáum frá lífauðlindunum. Það er hreinlega órökrétt að gera það ekki, bæði af umhverfislegum en ekki síður efnahagslegum ástæðum.

Við þurfum að koma hagkerfi okkar úr línulegu hugsuninni þar sem allt byggist á neyslu og meiri sóun yfir í hringlaga hugsun þar sem allt byggist á nýtni og minni sóun. Það er framtíðin en ætti líka að vera nútíðin.

Ég vil sjá urðun lífrænna hráefna heyra sögunni til sem fyrst og mun beita mér fyrir að það verði að veruleika á næstu árum. Öll dæmin um bætta nýtingu lífrænna aukaafurða sem eru kynnt til sögunnar hér á eftir sýna hvað hægt er að gera þegar þekking, áræðni og framsýni leiða þróun og nýsköpun. Þangað eigum við að beina kröftum og fjármagni, ekki í urðun.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum