Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. september 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðBjört Ólafsdóttir

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi Fuglaverndar, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands um válista

Kæru fuglaáhugamenn, náttúruverndarsinnar, góðir fundarmenn.

Málefni þess málþings sem við erum hér samankomin á er einkar mikilvægt fyrir umræðuna um verndun náttúru Íslands, sérstaklega ef við lítum á það út frá líffræðilegri fjölbreytni.

Ísland sem eyja úti í miðju Norður-Atlantshafi er afar einangruð og lífríkið fábrotið að mörgu leyti, eins og títt er um vistkerfi einangraðra eyja. Fuglar ásamt dýrum og plöntum sem dreifast langar leiðir á vængjum eða á annan hátt fyrir tilstilli strauma og vinda eru því fyrirferðamest í lífríki landsins. Það þarf því engan að undrast hvað fána landsins er lítil og að fuglar eru mest áberandi dýrahópurinn hér á landi, ásamt skordýrum.

Fuglar njóta verndar á grundvelli tveggja lagabálka, annars vegar lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og svo nýju náttúruverndarlögunum sem tóku gildi fyrir tveimur árum. Villidýralögin veita, eins og þið vitið, öllum fuglum og landspendýrum vernd en ráðherra umhverfismála hefur þó heimild til þess með reglugerðum að aflétta friðun þeirra innan ákveðins ramma til veiða og sjálfbærrar nýtingar.

Hins vegar eru nokkrar tegundir sem landeigendum er heimilt að veiða og nýta á grundvelli hlunnindanýtingar en einungis Alþingi getur breytt því með lagabreytingu. Nýverið var reglugerð um fuglaveiðar breytt og heimild til veiða á teistu felld úr gildi. Teista nýtur því verndar fyrir veiðum í fyrsta sinn frá 1994 á grundvelli laganna.

Lög um náttúruvernd veita ráðherra heimild til þess að friðlýsa svæði sem eru mikilvæg fyrir ákveðnar tegundir og einnig að friða ákveðnar tegundir og búsvæði þeirra. Nokkur mikilvæg fuglasvæði hafa verið vernduð skv. lögum um náttúruvernd. Mikilvæg friðlýst fuglasvæði eru 32 og þekja um 268.000 hektara lands og fjöldi þýðingamikilla fuglasvæða eru á náttúruverndaráætlun.

Að hluta til er það umfjöllunarefnið á þessum fundi hvernig við getum staðið okkur betur í því að friðlýsa þessi mikilvægu svæði, hvort að lagaramminn sé fullnægjand og hvernig framkvæmdinni er háttað og það verður fróðlegt að heyra framsögurnar hér í dag og fylgjast með yumræðunni.

Kæru gestir,
Verndun fugla hér á landi á sér rúmlega 100 ára sögu en fyrstu lagaákvæði um fuglavernd voru sett undir lok 19. aldar, en barátta frumkvöðla í verndun arnarins snemma á 20. öldinni og þáttur fuglaverndarfélagsins, nú Fuglaverndar, er náttúrulega það sem skipti mestu máli fyrir fuglavernd og skipti sköpum fyrir arnarstofninn.

Þessi langa barátta hefur skilað sér í hægri stækkun og aukinni útbreiðslu arnarstofnsins á síðustu áratugum. Við þurfum að halda þessum árangri á lofti og vinna áfram ötullega að verndun fugla landsins. Það er öllum holt að minnast geirfuglsins og hvernig innflutningur minksins fóru með keldusvínið hér á landi og reyna að læra af þeim mistökum.

Við í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu bindum vonir við að með nýju náttúruverndarlögunum, vistgerðagreiningunni, heildarúttekt á fuglastofnunum landsins og breyttri vinnslu á náttúruminjaskránni og vísindalegri grunni að B og C hluta hennar takist okkur að hleypa nýju blóði í friðlýsingar þannig að við getum árið 2020 sagt að við séum komin með gott net verndarsvæða.

Þó svo að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi birt válista fyrir fugla og plöntur í lok síðustu aldar hefur skort lagagrunnn til þess að undirbyggja nauðsynlegar verndaraðgerðir á grundvelli válistanna. Í nýju náttúruverndarlögunum er loksins búið að taka inn tilvísun í válista þegar kemur að vistgerðum og tegundum sem þarfnast verndar sbr. 35. grein laganna og í 49. greininni er talað um að slík svæði skuli friðlýsa sem friðlönd. Í lögunum er svo gert ráð fyrir að fylgt verði leiðbeiningareglum IUCN á þessu sviði.

Friðun fugla getur átt sér margvíslegar skýringar, og löng hefð ef fyrir friðun þeirra fuglategunda sem njóta verndar allt árið hér á landi þótt þessar sömu tegundir séu veiddar í öðrum löndum. Þannig mun friðun fugla ekki alfarið taka mið af því hvort tegundin sé á válista en gildi þeirra er eigi að síður ljóst til þess að gefa til kynna hvernig tegundir og stofnar eru að þróast.

Að mati ráðuneytisins er mikilvægt að aflétting friðunar fugla byggist á því að viðkomandi tegund og stofn þoli veiðar og að veiðarnar séu sjálfbærar þannig að ekki gangi á stofninn og að nýliðun standi undir veiðinni. Heildstætt net verndarsvæða á að styrkja stofna meðal annars með því að tryggja tegundum næg búsvæði og frið fyrir veiðum á ákveðnum svæðum þótt takmörkuð og sjálfbær veiði geti átt sér stað á ákveðnum friðlýstum svæðum eins og er í dag. Reglur á friðlýstum svæðum fara m.a. eftir því hvað er verið að friða og hvers vegna. Í einhverjum tilfellum getur verið að hæfileg veiði og verndun fari vel saman og styðji hvort annað.

Kæru gestir ég þakka fyrir mig og óska ykkar góðrar skemmtunar á málþinginu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum