Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. nóvember 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðBjört Ólafsdóttir

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi um skipulagsmál á ferðamannastöðum

Kæru gestir,

Það er oft sagt að umhverfismál séu allt umlykjandi og tengist öllum okkar athöfnum. Ég held að við getum öll verið sammála um að það er alveg rétt. Meðvitund um mikilvægi umhverfismála hefur stóraukist á undanförnum árum og samhliða því hafa umhverfismálin hægt og bítandi fengið meiri sess í samfélagsumræðunni. Mikilvægur hluti umhverfismála er einmitt sá þáttur sem snýr að skipulagi og uppbyggingu aðstöðu á ferðamannastöðum. Þess vegna fagna ég því að Samtök ferðaþjónustunnar standi að þessu málþingi því umræðan er mikilvæg!

Það er líka ánægjulegt að fá að leggja orð í belg hér í dag.

Sagt hefur verið í nokkur ár að Ísland standi á krossgötum í ferðaþjónustu. Þar hefur verið talað um greinina sjálfa, innviðauppbygginguna, hvernig fjármagna eigi uppbygginguna og síðast en ekki síst hvernig uppbyggingu við viljum sjá, þ.e.a.s. hversu mikil hún eigi að vera og hvernig beri að skipuleggja mismunandi svæði. Ýmsar spurningar vakna við þessar umræður. Svo sem eins og „Hvort á mannfjöldinn eða svæðið að ráða uppbyggingunni?“ „Hvernig stöndum við straum af uppbyggingunni, er t.d. gjaldtaka viðeigandi á svæðinu?“ „Hver er staðarandinn og hvernig geta innviðirnir stuðlað að því að draga hann fram?“.
Áfram gæti ég haldið….. en þetta eru eingöngu nokkur af þeim fjölmörgu viðfangsefnum sem þarf að leysa við skipulag á ferðamannastöðum.

Það er ýmislegt sem taka þarf mið af þegar þessum spurningum er svarað. Reyna þarf eftir fremsta megni að huga að sjálfbærniþættinum með því að nýta krafta vinnuafls af svæðinu og byggingarefnis sem ekki er sótt langt að. Svo er aðgengis- og öryggismál að sjálfsögðu líka mikilvæg. Annað sem alltaf þarf að hafa í huga er hið ótrúlega landslag sem Ísland býður upp á. Það hljómar ef til vill eins og hver önnur klisja að tala um hversu einstök íslensk náttúra er, en ég er alveg handviss um að öll ykkar hér inni hafið heyrt erlenda gesti tala um hversu magnað og ólíkt öllu öðru landið sé. Klisjan á sem sagt rétt á sér :)

Ef til vill er eini ljósi punkturinn á þessum krossgötum sem við stöndum varðandi þörfina á aukinni uppbyggingu á ferðamannastöðum og aukinni þjónustu við ferðamenn sá að við getum horft á heildarmyndina og þróað uppbygginguna í samræmi við þær vonir sem ferðamennirnir hafa til upplifunarinnar af veru sinni hér á landi. Kannanir Samtaka ferðaþjónustunnar hafa nefnilega sýnt að það sem heillar ferðamennina helst er, eins og þeir segja sjálfir, öðruvísi og einstakt landslag, útsýnið, og óspillt og ósnortin náttúran.
Það er oft talað um að við þurfum að gera vel við ferðamennina sem hingað koma, byggja vel upp og hafa allt til alls. EN…. við verðum að passa okkur að fara ekki fram úr okkur í þeim efnum. Við þurfum að muna eftir því að setja okkur í spor ferðamannanna. Það er fyrst og fremst þetta óspillta og ósnortna sem þeir sækjast eftir að upplifa hér á Íslandi.

Skipulags- eða arkitektúrfrasinn „less is more“ ætti því að vera nokkurs konar mottó í allri hönnun í okkar náttúru. Því meira sem við vöndum okkur og því meira sem við hugsum út í hvernig við getum þróað ferðamannaaðstöðu sem er í samræmi við væntingar ferðamannanna um „hið óspillta og ósnortna“ því dýpri og fyllri verður þeirra dvöl hér á landi. Með þessu er ég alls ekki að segja að það eigi að gera ekki neitt. Að sjálfsögðu ekki. Þarna þarf að auðvitað að horfa til umhverfisins og nauðsynlegrar uppbyggingar. Þess vegna er mikilvægt að ná sátt um hvaða svæði skuli byggja upp og hvaða svæði eigi að byggja sem minnst upp eða láta alveg vera. Bætt aðgengi og uppbygging á nefnilega ekki við á öllum stöðum sem ferðamenn kjósa að sækja heim. „Less is more“ mottóið ætti til dæmis að vega sérstaklega þungt þar sem auknir innviðir myndu skerða víðerni, ásýnd náttúrulegra svæða, eða upplifun ferðamanna af lítt snortinni og ómanngerðri náttúru.

Ég nefndi einnig hér í byrjun ýmsar spurningar sem þyrfti að hafa í huga þegar unnið er að þessum málum. Ein spurningin var „hvort mannfjöldinn eða svæðið eigi að ráða uppbyggingunni?“ Staðreyndin er sú að við getum ekki búist við því að uppbyggingin sé þannig að það sé pláss fyrir alla ferðamennina á okkar fjölsóttustu stöðum eða stöðum sem þola illa mikið álag. Þess vegna eigum við að vera óhrædd við að beita stýringu í staðinn. Staðan í dag er sú að við búum við breyttan veruleika. Við þurfum ekki að fara aftur nema nokkur ár og hugsa til ýmissa staða sem varla nokkur vissi af en eru núna að kikna undan álagi. Við hönnum fjöldann ekki burtu. Það er hvorki gott fyrir ferðamennina né umhverfið. Stýrum frekar straumnum. Ein leiðin til stýringar væri til dæmis að beina ferðamönnum á þá staði sem orðið hafa út undan í vexti ferðaþjónustunnar. Þar má til dæmis nefna hina stórkostlegu Vestfirði með sína miklu sögu, menningu og náttúruarf. Það er til dæmis alveg einboðið að meta af alvöru þann kost að í stað þess að reisa virkjun í Hvalá á Ströndum og þurrka þar með upp fossaraðir og raska ósnortnum víðernum, sem í raun skilar engu til Vestfjarða sjálfra, ætti að stofna þjóðgarð á norðanverðum Vestfjörðum þar sem saman færi verndun, útivist, ferðaþjónusta og rannsóknir. Það gæti orðið mikil lyftistöng fyrir samfélagið. Nú í haust hafði ég hug á að setja á fót nefnd hagsmunaaðila til að skoða þennan valkost en það gafst því miður ekki tími til þess.

Kæru gestir,

Hlutverk stjórnvalda er augljóslega mikilvægt þegar kemur að allri uppbyggingu og skipulagningu á ferðmannastöðum. Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er meðal annars unnið að áætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarminjum. Þar er markmiðið að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar.
Margir þeirra staða sem heyra undir þessa áætlun eru fjölsóttustu staðir landsins og fjöldi þeirra er á rauðum lista (válista) umhverfisstofnunar vegna ágangs ferðamanna.
Ég vildi rétt minnast á þetta en ætla þó ekki að kafa dýpra ofan í málið þar sem Jón Geir Pétursson skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu mun halda erindi hér á eftir um stefnu stjórnvalda í aðgengismálum á ferðamannastöðum og mun eflaust fjalla um innviðaáætlunina þar.

Að lokum langar mig að nefna hér mál sem stendur mér nærri.

Eitt af umræðuefnum þessa málþings er skipulag á miðhálendinu. Það er líka eitt af meginviðfangsefnum Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem samþykkt var með þingsályktun á Alþingi 2016. Ásdís Hlökk forstjóri Skipulagsstofnunar mun hér á eftir fara yfir hvernig landsskipulagsstefnan hefur skilgreint skipulagsmál á miðhálendinu og verður fróðlegt að hlýða á það.

Í minni ráðherratíð hef ég talað sérstaklega fyrir því að miðhálendið verði gert að þjóðgarði. Þetta er að mínu mati risastórt skipulagsmál og hefur verið eitt af mínum helstu áherslumálum sem ráðherra umhverfis- og auðlindamála.

Ég tel að það sé gríðarlegt hagsmunamál að hugað sé að heilstæðri verndar- og skipulagsstefnu fyrir jafn víðfeðmt og einstakt svæði og miðhálendi Íslands er.

Að mínu viti getum við nýtt okkur friðlýsingarformið sem stjórntæki í því efni. Stjórntæki til skipulagningar á þessari náttúruperlu. Þar eigum við einmitt að horfa til heildræns skipulags fyrir svæðið með tilliti til verndar, sjálfbærrar nýtingar í formi veiða og beitar, þróun aðstöðu og þjónustu fyrir þá sem sækja svæðið heim, sem og markvissrar stýringar ferðamanna þar sem þess þarf.

Í viljayfirlýsingu fráfarandi ríkisstjórnar er einmitt kveðið sérstaklega á um að unnin verði sérstök áætlun um vernd miðhálendisins. Nefnd hagaðila hefur á undaförnum mánuðum fjallað um forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og skilaði nýverið lokaskýrslu til umhverfis- og auðlindaráðherra og voru skoðaðar sviðsmyndir um mismunandi form á stjórnfyrirkomulagi þjóðgarðs. Sú skýrsla er frábært dæmi um góða samvinnu ýmissa hagaðila í umhverfis- og náttúruverndarmálum og ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur hana.

Það er mín einlæga von að sá ráðherra sem tekur við af mér muni leiða þá vinnu til lykta og að útkoman verði glæsilegur miðhálendisþjóðgarður sem við getum öll verið stolt af.

Takk fyrir áheyrnina og ég vona að þið njótið málþingsins.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum