Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. júní 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á Hátíð hafsins 2019

Góðir áheyrendur, ágætu sjómenn, landverkafólk og öll þau sem starfa við íslenskan sjávarútveg.

Hafið hefur aðdráttarafl sem erfitt er að lýsa, aðdráttarafl sem virkar jafnvel á mestu landkrabba eins og mig sjálfan. Ég á móður minni að þakka kynni mín af fjörunni og sjávarborðinu, en mamma ólst upp á Ísafirði og hefur alltaf saknað hafsins þar sem við bjuggum inni í miðri sveit. Akraborginni á ég svo að mestu að þakka kynni mín af sjóferðum sem barn – fátt var skemmtilegra og meira spennandi, jafnvel þó svo að stundum snerist æsingurinn og gleðin yfir því að hlaupa á þilfarinu og milli hæða yfir í uppköst og ælugang – meira þoldi litli landkrabbinn víst ekki.

Á degi sem þessum verður mér hugsað með þakklæti til allra þeirra sjómanna og landverkafólks sem í gegnum tíðina hefur borið björg í bú og aflað verðmæta fyrir þjóðina – oft við sérlega erfiðar aðstæður. Hafið gefur og hafið tekur – og við minnumst með hlýju og þakklæti þeirra sem á undan eru gengin.

Á þessum fallega degi langar mig að leggja áherslu á hversu mikið við Íslendingar eigum undir því að heimsbyggðinni takist að halda hlýnun Jarðar innan nauðsynlegra marka. Sjórinn okkar súrnar, jöklar bráðna, tegundir færast til og öfgar aukast í veðurfari.

Mikil vakning varð um alvarleika loftslagsvárinnar með Parísarsamkomulaginu árið 2015, og enn meiri vakning hefur orðið á síðustu mánuðum. Sú vakning hefur átt sér stað á meðal stjórnmálamanna, fyrirtækja og fólks á öllum aldri – ekki síst unga fólksins. Hreyfiafl hefur orðið til sem er sterkara en ég held að við gerum okkur grein fyrir. Loftslagsbreytingar og hamfarahlýnun eru stærsta viðfangsefni og áskorun 21. aldarinnar. Fátt er mikilvægara til framtíðar en að taka þátt í þeirri bylgju vakningar sem orðið hefur og nýta það hreyfiafl sem myndast hefur í samfélaginu. Þetta á við um ríkið, sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og almenning allan.

Ríkisstjórnin stefnir að því að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040, þ.e.a.s. að ekki verði sleppt út í andrúmsloftið frá Íslandi meira af gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum en bundnar verði á móti með einum eða öðrum hætti. Árið 2030 þurfum við svo að standa skil á Parísarsamkomulaginu, en sterkar líkur eru á að frekari kröfur verði gerðar til ríkja á þeim vettvangi – enda ekki vanþörf á.

Í fyrrahaust lagði ríkisstjórnin fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Aldrei áður hafa stjórnvöld lagt fram jafn viðamikla áætlun og aldrei hefur meira fjármagni verið veitt til loftslagsmála en nú – um er að ræða a.m.k. fimmföldun frá fyrri árum. Þetta eru aðgerðir. Þetta skiptir máli. Miklu máli.

Þriðjungur þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda kemur frá vegasamgöngum og stærsta einstaka aðgerðin sem mögulegt er að ráðast í til að mæta skuldbindingum Íslands er því orkuskipti í vegasamgöngum. Á þetta leggjum við því áherslu í aðgerðaáætluninni, auk þess að ráðast í viðamikla kolefnisbindingu og nýsköpun í loftslagsmálum.

En hvað með aðra geira eða atvinnuvegi? Fiskiskipin okkar eru annar stærsti losunarþátturinn þegar litið er til beinna skuldbindinga okkar Íslendinga, með tæpan fimmtung af losun. Landbúnaður, sérstaklega s.k. iðragerjun frá húsdýrum, sem í sveitinni minni væri kallað rop og prump, og notkun tilbúins áburðar eru samanlagt um 17% af útlosuninni. Þar á eftir koma urðunarstaðir og gös sem losna úr kælimiðlum, um 7% hvort. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar kemur inn á þessa þætti en nauðsynlegt er að gera enn ríkari kröfur hvað varðar suma þeirra, og er litið til þess við endurskoðun áætlunarinnar.

Athygli hefur vakið að mikill samdráttur hefur orðið í losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi síðan 1990. Ýmsar ástæður eru fyrir því, t.d. að ekki er lengur sóttur fiskur í Smuguna og skipin eru orðin nýtnari. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka sjávarútveginum og hvetja hann um leið áfram á þeirri mikilvægu vegferð að draga enn frekar úr losun.

Nýlega var stofnaður samráðsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífsins um loftslagsmál og grænar lausnir. Í honum felast mörg tækifæri. Eitt þeirra er að allar atvinnugreinar landsins vinni eigin áætlun um kolefnishlutleysi. Þannig sameinast þær með stjórnvöldum við að ná markmiðinu sem er svo brýnt: Kolefnishlutleysi. Í sannleika sagt: Án ykkar getum við ekki náð þessu.

Mikið hefur dregið úr notkun svartolíu á fiskiskipum á undanförnum árum og sum fyrirtæki alveg hætt að nota hana, sem er vel. Nýlega setti ég í opið samráð drög að reglugerðarbreytingu sem mun í raun koma í veg fyrir notkun svartolíu innan íslenskrar landhelgi og í fjörðum og flóum hérlendis. Þetta mun skipa Íslandi í fremstu röð hvað þessi mál varðar og hvetja önnur lönd áfram.

Önnur ógn við lífríki hafsins er plastmengun. Plastmengun þekkir engin landamæri og er alþjóðlegt viðfangsefni. Í starfi mínu sem umhverfis- og auðlindaráðherra hef ég lagt ríka áherslu á þetta. Á fundi norrænna umhverfisráðherra hér í Reykjavík nú í vor var samþykkt ályktun þar sem skorað er á ríki heims að vinna að nýjum alþjóðlegum samningi um plastmengun og örplast í hafi. Þetta skiptir miklu máli. Hérlendis er síðan á lokastigum aðgerðaáætlun um þessi mál og þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða.

Öll þessi mál sem ég hef hér nefnt skipta sjávarútveginn miklu. Þetta eru í raun allt mál sem gegna lykilhlutverki þegar kemur að ímynd atvinnugreinarinnar og markaðssetningu. Við sjáum á allri umræðu, bæði hérlendis og erlendis, að umhverfismálin skipta fólk æ meira máli. Það hvernig íslenskur sjávarútvegur staðsetur sig í umhverfismálunum mun að mínu viti hafa grundvallaráhrif varðandi markaðssetningu greinarinnar. Þar skiptir máli að stjórnvöld þori að banna svartolíu, að þau takist með skipulegum hætti á við plastmengun, og þar skiptir máli að stjórnvöld grípi til róttækra aðgerða í loftslagsmálum, líka í sjávarútvegi og í samvinnu við hann. Við eigum að verða með fyrstu ríkjum til að ná kolefnishlutleysi og verðum að þora að hugsa stórt.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurði við eitthvert tilefni hvað gæti verið betri markaðssetning fyrir íslenskan sjávarútveg en að geta státað af því að selja fisk frá kolefnishlutlausu landi. Ég leyfi mér að bæta við „frá landi þar sem einnota plast er ekki lengur notað, og frá landi þar sem ekki er brennd svartolía“.

Okkar er valið, ekki annarra.

Góðir áheyrendur,
Ég færi ykkur öllum árnaðaróskir á þessum hátíðardegi. Til hamingju með sjómannadaginn.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum