Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. september 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Hamfarahlýnun – gripið til mikilvægra aðgerða

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, birtist í Kjarnanum 19. september 2019.

 

 

Hamfarahlýnun – gripið til mikilvægra aðgerða

Mikil vakning hefur orðið í loftslagsmálum. Loksins! Það er ekki síst fyrir tilstilli ungs fólks sem kallar eftir aðgerðum og minnir okkur öll á verkefnið fram undan og alvarleika þess. Það er frábært að vera í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu á tímum sem þessum og taka þátt í að koma í verk því sem ég hafði sjálfur lengi kallað eftir. Stjórnvöld hafa nú tekið loftslagsmálin föstum tökum og unnið er að margvíslegum aðgerðum vítt og breitt um stjórnkerfið. En hvað erum við þá að gera?

Í fyrsta lagi hefur báðum meginþáttum aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum verið hrint í framkvæmd:

• Áætlun til fjögurra ára um viðamikla kolefnisbindingu var kynnt í sumar. Ráðist verður í fjölbreytt verkefni um allt land til að binda kolefni úr andrúmslofti og endurheimta votlendi. Auk ávinnings fyrir loftslagið stuðla aðgerðirnar að því að efla lífríki á Íslandi. Aðgerðir eru þegar hafnar og samkvæmt áætlun til fjögurra ára er gert ráð fyrir að árlegt umfang landgræðslu og skógræktar tvöfaldist og endurheimt votlendis tífaldist.

• Umfangsmikil skref varðandi orkuskipti í samgöngum á Íslandi voru kynnt í júní – hraðhleðslustöðvum verður fjölgað verulega og blásið til átaks með ferðaþjónustunni til að stuðla að orkuskiptum hjá bílaleigum og hafa áhrif á eftirmarkað með rafbíla hér á landi. Fjárfestingarnar sem fást með fyrstu styrkauglýsingunum gætu numið allt að einum milljarði króna. Auglýst var í sumar eftir fjárfestingastyrkjum vegna þessara verkefna og viðbrögðin voru mjög mikil.

Í öðru lagi hafa stjórnvöld komið á formlegu samstarfi við atvinnulífið, enda áríðandi að fyrirtækin í landinu taki virkan þátt í baráttunni gegn loftslagsvánni:

• Stofnaður hefur verið samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir, þar sem m.a. verður unnið að aðgerðum í samræmi við markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.

• Stjórnvöld hafa fengið öll stóriðjufyrirtæki á Íslandi og Orkuveitu Reykjavíkur til að þróa og rannsaka hvort og hvernig megi draga úr losun frá verksmiðjum stóriðjufyrirtækja með niðurdælingu CO2 í berglög. Einnig munu fyrirtækin hvert um sig leita leiða til að verða kolefnishlutlaus.

Í þriðja lagi hefur margvíslegum aðgerðum verið hrint í framkvæmd, sem spanna allt milli himins og jarðar. Nokkrar þeirra eru þessar:

• Lögð hefur verið sú skylda á Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins, auk sveitarfélaga um allt land, að setja sér loftslagsstefnu og markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

• Fest hefur verið í lög að unnar skuli vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi sem m.a. skulu taka mið af skýrslum IPCC.

• Loftslagsráð hefur verið lögfest og vinnur nú m.a. tillögur um gerð aðlögunaráætlunar vegna loftslagsbreytinga hér á landi.

• Með urðunarskatti sem nú hefur verið mælt fyrir á Alþingi er hvatt til endurvinnslu og hún gerð samkeppnishæfari. Urðun minnkar og þar með drögum við úr losun gróðurhúsalofttegunda frá urðuðum úrgangi.

• Með öðrum grænum skatti, á svokölluð F-gös (kælimiðla), sem einnig hefur verið mælt fyrir á Alþingi, er útfösun þeirra hraðað hér á landi. Aðrar lausnir eru til en F-gösin sem ekki hafa slæm áhrif á loftslagið.

• Mælt hefur verið fyrir lagabreytingu þar sem heimilt verður að veita 100% endurgreiðslu á VSK vegna kaupa á hleðslustöðvum fyrir íbúðarhúsnæði, auk þess sem allur virðisaukaskattur á vinnu við uppsetningu þeirra verður felldur niður.

• Mælt hefur verið fyrir lagabreytingu sem felur í sér að útleiga vistvænna bílaleigubíla verði undanþegin virðisaukaskatti en það ætti að öllu óbreyttu að leiða til þess að leiguverð slíkra bíla myndi lækka um 19%.

• Fyrsta heildarstefna ríkisins um almenningssamgöngur fyrir allt landið hefur verið kynnt og samþykkt að veita 800 milljónum króna í undirbúning Borgarlínu. Viðamikið samkomulag ríkis og sveitarfélaga sem miðar að því að fjölga valkostum í ferðamátum verður auk þess kynnt á næstu dögum.

• Loftslagsstefna Stjórnarráðsins hefur tekið gildi og er ætlað að hafa margfeldisáhrif út í samfélagið, m.a. með kröfum til bílaleiga og leigubíla um visthæfar bifreiðar, auk þess sem losunartölur úr flugferðum verða tengdar við markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

• Með reglugerðum sem settar hafa verið er skylt að gera ráð fyrir hleðslu rafbíla við allt nýbyggt húsnæði á landinu.

• Kolefnisgjald hefur verið hækkað í áföngum síðan ríkisstjórnin tók við, í samræmi við stjórnarsáttmálann og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

• Unnið er að sérstökum viðauka við landsskipulagsstefnu Íslands þar sem loftslagsmálum verður fléttað inn í skipulag – enda eru skipulagsmál stórt loftslagsmál.

• Stofnun Loftslagssjóðs til að styrkja nýsköpun og fræðslu í loftslagsmálum er á lokametrunum í samvinnu við Rannís.

• Ákveðið hefur verið að hrinda af stað verkefnum sem ætlað er að vinna gegn matarsóun.

• Með reglugerðarbreytingu sem hefur verið kynnt verður notkun svartolíu útilokuð í íslenskri landhelgi nema til komi hreinsun á henni.

Í fjórða lagi hefur fjármagn til rannsókna, vöktunar og fræðslu verið stóraukið:

• Vísinda- og tækniráð hefur samþykkt að 150 milljónir króna fari í rannsóknir á loftslagsbreytingum næst þegar auglýst verður eftir umsóknum um styrki í markáætlun.

• Efldar rannsóknir og vöktun á kolefnisbindingu eru hluti af kolefnisbindingaráætlun stjórnvalda til næstu fjögurra ára.

• Aukið verður við vöktun vegna loftslagsbreytinga frá og með árinu í ár, m.a. vegna súrnunar sjávar.

• Gerður hefur verið samningur um viðamikla umhverfisfræðslu í skólum með áherslu á loftslagsbreytingar.

Listinn hér að ofan er ekki tæmandi og endurskoðun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum stendur nú yfir. Með núverandi stjórnvöldum hefur loftslagsmálunum loks verið lyft á þann stall þar sem þau eiga heima.

 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum