Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. nóvember 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á viðburði Íslandssjóða um sparnað gegn loftslagsbreytingum

Góðan dag,

Loftslagsmálin eru stóra áskorun samtímans. Þau eru veruleiki sem við þurfum að horfast í augu við og takast á við. Verkefnið er skýrt: Við verðum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til þess þurfum við róttækar aðgerðir.

Loftslagsváin virðir ekki landamæri og þó svo að mikilvægt sé að líta sér nær er nauðsynlegt að horfa á loftslagsmálin í alþjóðlegu samhengi. Við getum sem dæmi ekki horft fram hjá því að neysla okkar hefur kolefnisspor þó svo að mengunin verði til hinum megin hnettinum.

Vísindaskýrslur sýna okkur hversu hratt breytingarnar eru að verða sem nú eiga sér stað – grundvallarbreytingar á vistkerfum Jarðar, með ógnvænlegum afleiðingum. Þær draga einnig fram hversu naumur tími er til stefnu. Við megum einfaldlega engan tíma missa.

Áður en ég sjálfur kom inn í umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafði ég lengi kallað eftir loftslagsaðgerðum stjórnvalda. Þegar ég varð ráðherra setti ég því í forgang að láta vinna aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem sjö ráðuneyti komu að. Áætlunin kom út haustið 2018, var fjármögnuð. Við settum strax í gang að hrinda aðgerðum í framkvæmd og höfum á sama tíma verið að endurskoða og bæta áætlunina.

Megináherslur áætlunarinnar eru í takt við ráðleggingar milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC: Að ríki heims breyti orkukerfum sínum og bindi kolefni úr andrúmslofti.

Hér heima höfum lagt þunga áherslu á orkuskipti í samgöngum og því tengt get ég sem dæmi nefnt að fyrir tveimur vikum kynntum við stórfellda uppbyggingu hraðhleðslustöðva um land allt. Hraðhleðslustöðvum sem settar eru upp með fjárfestingarstyrk frá ríkinu fjölgar við þetta um 40% og nýju stöðvarnar eru auk þess þrisvar sinnum aflmeiri en þær öflugustu sem fyrir eru. Gert er ráð fyrir a.m.k. helmings mótframlagi styrkþega og nema fjárfestingarnar um hálfum milljarði króna.

Stjórnvöld hafa líka lagt áherslu á breyttar ferðavenjur og má í því samhengi t.d. nefna gríðarlega umfangsmikla áætlun um uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með sveitarfélögum á svæðinu. Ég vil líka nefna frumvarp fjármálaráðherra þar sem vsk verður m.a. felldur niður af reiðhjólum, rafhjólum, vistvænni strætisvögnum og hleðslustöðvum til að hlaða rafbíla heima fyrir. Allt skiptir þetta miklu máli.

Í sumar kynntum við forsætisráðherra viðamiklar aðgerðir varðandi kolefnisbindingu. Við munum tvöfalda umfang landgræðslu og skógræktar og tífalda endurheimt votlendis. Áætlað er að þær aðgerðir sem við munum ráðast í einungis næstu fjögur ár muni skila um 50% meiri árlegum loftslagsávinningi árið 2030 en núverandi binding og 110% meiri ávinningi árið 2050. Þetta eru þannig afar viðamiklar aðgerðir sem hafa áhrif langt inn í framtíðina.

Rétt er að taka fram að hér er einungis um að ræða aðgerðir af hálfu ríkisins varðandi kolefnisbindingu. Hugsið ykkur hvað við getum gert öll saman – ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og almenningur!

Þó svo að stór hluti þeirrar vinnu og stefnumótunar sem framundan er verði í höndum hins opinbera er ljóst að verkefnið verður ekki leyst einungis af hálfu hins opinbera. Breiðfylkingu þarf til og aðkoma atvinnulífsins er brýn. Fyrirtæki verða að taka þátt í þessari vegferð.

Fyrirtæki stór sem smá á Íslandi geta nefnilega haft heilmikið að segja. Þau geta til dæmis frá og með deginum í dag ákveðið að panta alltaf visthæfa leigubíla og bílaleigubíla, til að skapa eftirspurn og flýta fyrir nauðsynlegum orkuskiptum. Þau geta samstundis hætt notkun á allri einnota vöru – alltaf. Þau geta ákveðið að kaupa Svansmerktar vörur. Þau geta komið sér upp fjarfundabúnaði, þau geta sett upp hleðslustöðvar og hjólageymslur við vinnustaðinn, þau geta boðið starfsfólki öfluga samgöngusamninga, þau geta dregið eins og hægt er úr eigin losun og kolefnisjafnað það sem eftir stendur, þ.m.t. flug, þau geta ákveðið að ráðast í enn meiri kolefnisbindingu en sem þessu nemur, þau geta ákveðið að styrkja nýsköpun í loftslagsmálum, þau geta gert kröfur til framleiðenda – og mögulega eru þau sjálf þessir framleiðendur. Þau geta sett sér markmið um kolefnishlutleysi og unnið markvisst að því markmiði. Fyrirtæki hafa helling af tólum og tækjum í höndunum og þau verða að nýta sér þau.

Sem betur fer hafa ýmis fyrirtæki áttað sig á þessu. Sem betur fer hefur viðhorf atvinnulífsins gagnvart samfélagslegri ábyrgð líka breyst á undanförnum árum. Lögð hefur verið meiri áhersla á samfélagsmál og ekki síst umhverfismál. Almenningur gerir í auknum mæli kröfur um að tekið sé tillit til umhverfisþátta í rekstri fyrirtækja ásamt því sem starfsmenn og stjórnendur vilja leggja lóð sín á vogarskálarnar.

Umræðuefnið hér í dag er ábyrgar fjárfestingar. Loftslagsverkefnið er það umfangsmikið að opinberir sjóðir duga ekki einir og sér og því er aðkoma fjárfesta í þessari vegferð svo mikilvæg og kannski eitt það mikilvægasta í þessari vegferð okkar til bjargar Jörðinni. Ég hvet ykkur sem hafið í hendi ykkar að lána til margvíslegrar starfsemi að gera það út frá loftslagsmarkmiðum. Ég hvet ykkur sem fjárfestið að fjárfesta í loftslagsvænni starfsemi og framleiðslu, þ.e.a.s. fjárfestum í framtíðinni.

Ég bind vonir við að auknum fjármunum verði beint til verkefna sem hafa ábata fyrir umhverfið. Það er mín von að íslensk fyrirtæki og fjárfestar geri allt sem þau geti til að takast á við loftslagsvána – til heilla fyrir okkur öll.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum