Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. desember 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Gripið til aðgerða í loftslagsmálum

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 11. desember 2019.

 

Loftslagsváin er stóra málið á okkar tímum. Þegar mér var trúað fyrir því að verða umhverfis- og auðlindaráðherra setti ég loftslagsmálin í algjöran forgang, enda hafði ég í fyrra starfi mínu hjá Landvernd lengi kallað eftir aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum.

Þegar ég kom inn í ráðuneytið var ekki til aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hér á landi. Það breyttist og nokkrum mánuðum síðar leit fyrsta fjármagnaða loftslagsáætlun Íslands dagsins ljós, kynnt af sjö ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Meginþáttum loftslagsáætlunarinnar hefur nú verið hrint í framkvæmd, bæði hvað varðar orkuskipti í samgöngum og aðgerðir vegna kolefnisbindingar og endurheimtar votlendis:

• Hraðhleðslustöðvum sem settar eru upp með fjárfestingarstyrk frá ríkinu fjölgar á næstunni um 40%. Nýju stöðvarnar verða þrisvar sinnum aflmeiri en þær öflug-ustu sem fyrir eru. Þetta var tilkynnt fyrir skemmstu.
• Verið er að koma upp neti hleðslustöðva við gististaði vítt og breitt um landið.
• Frumvarp liggur fyrir Alþingi um afslætti (niðurfellingu á virðisaukaskatti) af raf-hjólum, reiðhjólum, vistvænni strætisvögnum, hleðslustöðvum fyrir heimahús og fleira. Þetta bætist við margvíslegar ívilnanir til kaupa á vistvænni bifreiðum.
• Stjórnvöld hafa lagt stóraukna áherslu á breyttar ferðavenjur og má þar nefna viðamikla áætlun um uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með sveitarfélögum á svæðinu.
• Þegar er unnið eftir afar umfangsmikilli áætlun um kolefnisbindingu sem hefur áhrif langt inn í framtíðina. Umfang landgræðslu og skógræktar verður tvöfaldað og endurheimt votlendis tífölduð á næstu fjórum árum. Áætlað er að það muni skila um 50% meiri árlegum loftslagsávinningi árið 2030 en núverandi binding og 110% meiri ávinningi árið 2050.

Nýsköpun og grænir skattar

Gripið hefur verið til fjölmargra annarra aðgerða. Hér eru nokkur dæmi:

• Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Loftslagssjóð en í gegnum hann verður hálfum milljarði króna varið á fimm árum til nýsköpunar, s.s. vegna nýrra loftslagsvænni tæknilausna, og til fræðslu um loftslagsmál.
• Kolefnisgjald hefur verið hækkað í áföngum og nýir grænir skattar verið kynntir til sögunnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
• Gripið hefur verið til aðgerða til að draga úr matarsóun.
• Gert hefur verið að skyldu að gera ráð fyrir hleðslu rafbíla við allt nýbyggt húsnæði á landinu.
• Loftslagsráð hefur verið stofnað og lögfest.
• Stóraukið hefur verið við vöktun á súrnun sjávar, jöklum, skriðuföllum og fleiri þáttum hér á landi.
• Fest hefur verið í lög að unnar skuli vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi og að þær skuli m.a. taka mið af skýrslum IPCC.
• Stofnaður hefur verið samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir. Þar verður m.a. unnið að aðgerðum í samræmi við markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.
• Stjórnvöld hafa fengið öll stóriðjufyrirtæki á Íslandi og Orkuveitu Reykjavíkur til að þróa og rannsaka hvort og         hvernig megi draga úr losun frá verksmiðjum stóriðju-fyrirtækja með niðurdælingu CO2 í berglög.
• Lögð hefur verið sú skylda á Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins, fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins og sveitarfélög að setja sér loftslagsstefnu og markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
• Þann 1. janúar taka gildi stórlega hertar kröfur varðandi eldsneyti í íslenskri landhelgi – sem banna í raun notkun svartolíu hér við land. Ég undirritaði reglugerðina nú fyrir helgi.

Upptalningin hér að ofan er langt í frá tæmandi. Endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar er í fullum gangi og vítt og breitt um stjórnkerfið er unnið hörðum höndum að loftslagsmálunum.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna stendur nú yfir í Madrid. Skilaboð Íslands til ríkja heims og stórfyrirtækja eru að orðum verði að fylgja aðgerðir. Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Saman getum við gert kraftaverk


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum