Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. nóvember 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra við setningu rafrænnar haustráðstefnu FENÚR

Komið öll sæl og gaman að fá að vera með ykkur hér í dag.

Árið 2018 voru endurunnin 28% af þeim heimilisúrgangi sem féll til á öllu landinu það ár. Öll endurvinnsla er talin með, s.s. endurvinnsla yfir í hráefni til framleiðslu á nýjum vörum og jarðgerð úr lífrænum úrgangi. Eins og gefur að skilja getur endurvinnsluhlutfallið verið mismunandi á milli sveitarfélaga. Sum sveitarfélög hafa til að mynda komið á fót flokkun á lífrænum úrgangi og byggt upp innviði til jarðgerðar, önnur ekki.

Það má segja að endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs hér á landi hafi staðið í stað frá árinu 2012, en frá þeim tíma hefur það verið í kringum 30%. Árið 2014 var sett í reglugerð ákvæði um að endurvinnsla heimilisúrgangs skyldi að lágmarki aukast upp í 50% eigi síðar en á því ári sem nú er brátt á enda. Þetta markmið mun síðan hækka á næstu árum. Það verður 55% árið 2025, 60% árið 2030 og 65% árið 2035. Markmiðið er eitt af fjölmörgum tölulegum markmiðum í úrgangsmálum sem sett hafa verið af ESB og gilda í öllum EES-ríkjunum. Áskorun komandi áratugar er því sú að tvöfalda endurvinnslu heimilisúrgangs á landsvísu.

Árið 2018 fóru tæplega 217 þúsund tonn af úrgangi til urðunar hér á landi. Lífrænn úrgangur var stór hluti þess, eða 57%. Urðun lífræns úrgangs fylgir losun gróðurhúsalofttegunda. Árið 2018 var losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun á föstum úrgangi hér á landi tæp 5% af heildarlosun Íslands það ár. Losun frá meðhöndlun skólps hefur þá verið skilin frá. Af þessari losun má rekja 95% til urðunar. Þessar tölur sýna að ein mikilvægasta loftslagsaðgerðin sem hægt er að grípa til í úrgangsmálum hér á landi er að draga úr urðun úrgangs.

Margvísleg vinna er í gangi í ráðuneytinu til að bregðast við þessari stöðu og lít ég svo á að lykilviðfangsefnin í úrgangsmálunum á næstu árum séu:
    • Að draga úr myndun úrgangs (þegar tvær séráætlanir fjármagnaðar; plast og matarsóun
    • Að draga úr urðun úrgangs.
    • Að auka endurvinnslu úrgangs.
    • Heimilisúrgangur (hvort tveggja frá heimilum og fyrirtækjum) þarf að vera í brennidepli því þar vantar mikið upp á til að ná tölulegum markmiðum.
    • Að tryggja brennslu dýraleifa og óendurvinnanlegs úrgangs.

Nýlega hefur verið aukið við fjármagn úr ríkissjóði um 400 m.kr. á ári til verkefna sem styðja við myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi. Þannig að næstu þrjú árin verður hálfur milljarður til ráðstöfunar árlega. Þetta fjármagn verður nýtt til að styðja beint við græna nýsköpun í málaflokknum og uppbyggingu innviða til flokkunar og endurvinnslu, til aukinnar fræðslu til almennings og fyrirtækja um úrgangsmál og úrgangsforvarnir og til að styðja við sóknaráætlanir landshluta.

Ég tel að nokkrar lykilaðgerðir verði að komast til framkvæmdar til að ná árangri í málaflokknum á komandi árum, m.a. til að auka endurvinnslu hratt og eiga möguleika á að uppfylla töluleg markmið sem sett hafa verið:
    • Sérstök söfnun heimilisúrgangs og skylda til flokkunar.
    • Framlengd framleiðendaábyrgð á allar umbúðir.
    • Álagning raunkostnaðar fyrir meðhöndlun úrgangs (e. pay-as-you-throw).
    • Skattur á urðun úrgangs.
    • Bann við urðun lífræns úrgangs.
    • Uppbygging framtíðarlausna til brennslu dýraleifa og óendurvinnanlegs úrgangs.

Þrjár fyrstnefndu lykilaðgerðirnar verða efni lagafrumvarps sem ég mun mæla fyrir á Alþingi í janúar nk. Drög að frumvarpinu munu fara í opinbera kynningu á næstunni.

Til að bæta gæði heimilisúrgangs sem endurvinnsluefnis er nauðsynlegt að koma á sérstakri söfnun heimilisúrgangs. Horft er til þess að a.m.k. 7 úrgangsflokkum verði safnað sérstaklega: Lífúrgangi, pappír og pappa, málmi, plasti, gleri, textíl og spilliefnum. Um leið er ætlunin að skylda einstaklinga og lögaðila til að flokka heimilisúrgang og að leggja á almennt bann við urðun eða brennslu úrgangs sem hefur verið safnað sérstaklega. Með þessu er ætlunin að stuðla að aukinni flokkun og endurvinnslu heimilisúrgangs.

Það er jafnframt mikilvægt að allir þeir sem starfa að úrgangsmálum vinni að því að viðhalda og auka það traust sem almenningur hefur á málaflokknum. Nú er mikill meðbyr og aukinn áhugi almennings á úrgangsmálum. Það má því ekki gerast að úrgangur sem hæfur er til endurvinnslu fari í annan farveg.

Umbúðaúrgangur er um fimmtungur af heimilisúrgangi sem fellur til á Íslandi. Nú þegar er hluti umbúða í framlengdri framleiðendaábyrgð. Að hluta í gegnum Úrvinnslusjóð og að hluta í gegnum Endurvinnsluna hf.

Með áðurnefndu lagafrumvarpi vinnur ráðuneytið að því að færa allar aðrar umbúðir undir slíkt kerfi, í gegnum Úrvinnslusjóð. Með þessu vill ráðuneytið nýta þá hagrænu hvata sem felast í framlengdri framleiðendaábyrgð til að bæta þær umbúðir sem eru settar á markað þannig að þær verði í meira mæli endurnotanlegar og endurvinnanlegar. Kerfinu er jafnframt ætlað að styðja við aukna endurvinnslu umbúða með því að standa straum af kostnaði við sérstaka söfnun umbúðaúrgangs og meðhöndlun hans í kjölfarið. Sá hluti kostnaðarins sem fellur undir framlengdu framleiðendaábyrgðina mun því ekki leggjast á sveitarfélögin. Framlengd framleiðendaábyrgð verður jafnframt innleidd fyrir tilteknar einnota plastvörur.

Þótt framlengdri framleiðendaábyrgð verði beitt í meira mæli mun hluti kostnaðar við meðhöndlun úrgangs áfram leggjast á sveitarfélögin. Það er mikilvægt að innheimta sveitarstjórna á gjöldum hjá íbúum og fyrirtækjum fyrir meðhöndlun úrgangs endurspegli raunverulegan kostnað við söfnun, flutning og aðra meðhöndlun úrgangs frá hverjum og einum. Almenningur og fyrirtæki þurfa að finna hvað meðhöndlun úrgangsins sem þau losa sig við kostar í raun. Í því er fólginn hagrænn hvati til að draga úr myndun úrgangs og að flokka úrgang til endurvinnslu. Mikilvægt er að umbuna íbúum og fyrirtækjum sem standa sig vel með lægri gjöldum. Ráðherra vill beita sér fyrir innleiðingu kerfis sem þessa á næstu árum og ber þess merki í fyrrnefndu lagafrumvarpi.
Þótt heimilisúrgangur verði í brennidepli í frumvarpinu í janúar verður rekstrarúrgangur ekki skilinn undan. Meðal annars er ætlunin að lögfesta skyldu til flokkunar á rekstrarúrgangi.

Ég hef orðið var við ákall almennings og atvinnulífs um samræmingu við flokkun úrgangs. Er sú ástæða oft nefnd að illskiljanlegt sé að í svo fámennu landi séu flokkunarleiðbeiningar mismunandi frá einu sveitarfélagi til annars. Til að svara þessu ákalli og til að auðvelda íbúum að flokka ætla ég að leggja til breytingu á lögum sem innleiðir samræmdar flokkunarmerkingar á landsvísu. Vonir standa til að í kjölfarið verði mögulegt að einfalda leiðbeiningar sem gefnar eru út til íbúa um flokkun. Þessi aðgerð tengist með beinum hætti spennandi verkefni sem FENÚR tekur þátt í varðandi það að innleiða samræmdar merkingar á öllum Norðurlöndunum, og jafnvel víðar.

Það helst í hendur að auka endurvinnslu og að draga úr urðun. Og ég tel að urðunarskattur og bann við urðun lífræns úrgangs séu lykilaðgerðir í því. Urðunarskattur getur reynst öflugur, hagrænn hvati til að draga úr urðun og um leið beina úrgangi í endurvinnslufarvegi. Til að draga eins og mögulegt er úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs er jafnframt horft til þess að banna urðun alls lífræns úrgangs innan nokkurra ára.

Áður hefur verið vikið að auknu fjármagni til fræðslu og stuðnings við græna nýsköpun. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram á Alþingi í síðasta mánuði er lagt til að ríkissjóður verji enn meira fjármagni á næstu 5 árum til verkefna sem stuðla að virku hringrásarhagkerfi á Íslandi. Um er að ræða 1,7 ma.kr. á tímabilinu sem gætu m.a. farið til uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum til flokkunar og endurvinnslu, til grænnar nýsköpunar, úrgangsforvarna, í aðgerðir gegn plastmengun og gegn matarsóun o.s.frv.

Jafnframt þarf að horfa til þess að hluta þess úrgangs sem fellur til mun þurfa að brenna, einkum ef mið er tekið af fyrirætlunum um að draga úr urðun. Um er að ræða úrgang sem hentar ekki til endurvinnslu, auk sóttmengaðs úrgangs, spilliefna og dýraleifa. Nýlega lét ráðuneytið vinna mat á hversu mikið magn óendurvinnanlegs úrgangs er líklegt til að falla til á næstu 25 árum. Það er umtalsvert magn og nauðsynlegt er að leita leiða til að mæta fyrirsjáanlegri þörf fyrir brennslu með uppbyggingu brennslulausna innanlands, í samstarfi sveitarfélaga, einkaaðila og ríkis.

Að lokum vil ég segja að við þurfum að umbylta úrgangsmálunum til að ná þeim árangri sem ætlast er til af okkur og gott betur.

Framtíðarsýn mín er að Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Til að þessi framtíðarsýn verði að veruleika er nauðsynlegt að á Íslandi verði til virkt hringrásarhagkerfi. Nýtni aukist, líftími hluta lengist og það dragi úr myndun úrgangs. Í því felst einnig að auka flokkun og endurvinnslu úrgangs og að hætta urðun lífræns úrgangs. Varðandi flokkun og endurvinnslu heimilisúrgangs er runnin upp ögurstund.

Lagafrumvarpið sem ég mun leggja fram á Alþingi í janúar felur í sér nauðsynleg skref í þá átt að mynda hér endurvinnslusamfélag og að færa okkur nær þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við. Þess vegna er mikilvægt að allir þeir sem starfa að úrgangsmálum í landinu sameinist um að vinna að framgangi þessarar lagasetningar.

Takk fyrir mig.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum