Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. nóvember 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Ing Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á Skipulags- og umhverfismatsdeginum 2020

Sæl öll. Gaman að fá að vera með ykkur hér í dag.

Yfirskrift fundarins er Rými fyrir mannlíf og samtal. Mannlífið undanfarna mánuði hefur auðvita verið frábrugðið því sem við eigum að venjast en það hafa líka verið ljósir punktar. Til dæmis í því hvernig við höfum fundið okkur nýjar leiðir til þess að hitta hvert annað og eiga samtal, eins og þessi fundur er dæmi um.

Mig langar til þess að byrja samtalið á því að tala um loftslagsmál. Loftslagsmál eru enda stærsta viðfangsefni samtímans og það hvernig okkur og heimsbyggðinni allri tekst til í loftslagsmálum verður vitnisburður um núlifandi kynslóðir. Loftslagsmál eru þess eðlis að það þarf að taka þau inn í myndina á öllum sviðum samfélagsins. Loftslagsmál þurfa raunar að vera í hjarta allra verka okkar og áætlana. Og loftslagsmál eru ekki bara umhverfismál heldur líka efnahagsmál, jafnréttismál, byggðamál, menntamál - og svo eru þau líka skipulagsmál.

Árið 2018 fól ég Skipulagsstofnun að vinna tillögu að breytingu á landsskipulagsstefnu þar sem mótuð yrði nánari stefna um þrennt í tengslum við framkvæmd skipulagsmála: loftslagsmál, landslag og lýðheilsu. Nú veit ég að tillaga Skipulagsstofnunar að viðauka við landsskipulagsstefnu gerir ráð fyrir því að sveitarfélög marki sér stefnu um loftslagsmiðað skipulag byggðar og landnotkunar og hafi loftslagsmarkmið í forgrunni við útfærslu skipulags á öllum stigum.

Til að tryggja að horft sé til loftslagssjónarmiða við skipulagsgerð er mikilvægt að umhverfismat skipulagsáætlana feli í sér mat á loftslagsáhrifum og áhrifum á viðnámsþrótti samfélagsins gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga. Með því að gera kerfisbundið grein fyrir loftslagsmálum í umhverfismati skipulagsáætlana er ekki eingöngu stuðlað að bættri skipulagsgerð heldur einnig miðlun þekkingar milli sveitarfélaga og markvissari upplýsingagjöf til almennings og hagsmunaaðila sem hafa þannig betri forsendur til að taka þátt í stefnumótun.

Hið sama á við um aðrar áætlanir stjórnvalda sem varða þróun byggðar og landnotkunar, þar á meðal áætlanir sem gerðar eru á landsvísu um samgöngur, byggðamál, skógrækt o.fl. Í tillögu að viðauka við landsskipulagsstefnu er sett fram stefna um að umhverfismat slíkra áætlana feli ávallt í sér mat á loftslagsáhrifum. Byggist það meðal annars á markmiði ríkisstjórnarinnar um að stærri áætlanir ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum.

Tillaga að viðauka við landsskipulagsstefnu gerir ráð fyrir að Skipulagsstofnun leiðbeini sveitarfélögum og öðrum stjórnvöldum um umfjöllun um loftslagsmál í umhverfismati, svo sem með útgáfu gátlista eða með öðrum hætti.

Auk þess að vera framfylgt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga, hefur landsskipulagsstefna einnig áhrif á áætlanir stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun og byggðaþróun. Það er t.d. gert ráð fyrir því að við gerð áætlana eins og byggðaáætlunar, kerfisáætlunar, rammaáætlunar og samgönguáætlunar sé horft til þeirra áherslna sem settar eru fram í landsskipulagsstefnu.

Þar sem við vitum að skipulagsgerð og umhverfismat eru mikilvæg stjórntæki til að draga úr loftslagsáhrifum og takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, þá hefur vakið athygli hversu fáar beinar tilvísanir til loftslagsmála er að finna í löggjöfinni um skipulag og umhverfismat. Til dæmis vísa hvorki skipulagslög né lög um umhverfismat áætlana til hugtakanna loftslags, loftslagsbreytinga eða aðlögunar að loftslagsbreytingum.

Í tillögu að viðauka við landsskipulagsstefnu er sett fram markmið um að umhverfis- og auðlindaráðuneytið, í samráði við Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga, fari yfir löggjöf um skipulagsmál og umhverfismat með tilliti til þess að þar sé skýr hvatning og grundvöllur fyrir loftslagsmiðaða skipulagsgerð.

Gert er ráð fyrir að viðauki að landsskipulagsstefnu verðir lagður fram á yfirstandandi þingi, svo það eru spennandi tímar fram undan í þessum efnum.

Mig langar líka aðeins að koma inn á endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum. Árið 2018 hóf umhverfis- og auðlindaráðuneytið undirbúning að heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum. 14. ágúst 2018 stóð ráðuneytið fyrir hugarflugsfundi þar sem fulltrúar félagasamtaka, framkvæmdaaðila, sveitarfélaga og stofnana og annarra hagaðila, auk háskólafólks ræddu þær áherslur sem leggja þyrfti við endurskoðun laganna. Í kjölfarið var leitað eftir hugmyndum og athugasemdum í opnu samráðsferli. Í byrjun árs 2019 var skipaður starfshópur með það hlutverk að vinna að heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum þannig að ferli mats á umhverfisáhrifum verði skilvirkara ásamt því að aðkoma almennings, félagasamtaka og haghafa að ferlinu verði tryggð. Einnig var unnin úttekt á umhverfismatslöggjöf Norðurlandanna og Skotlands. 

Starfshópurinn vinnur nú að frumvarpi sem áætlað er að verði lagt fram á vorþingi. Í áformum um lagasetningu sem kynnt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda kemur fram að starfshópurinn fyrirhugi að einfalda ferli mats á umhverfisáhrifum og gera ferlið skilvirkara. T.d. er ætlunin að samþætta ferli mats á umhverfisáhrifum við skipulagsferli og ferli umhverfismats áætlana. Einnig er lagt til að taka upp ákvæði um forsamráð þar sem framkvæmdaaðili, leyfisveitendur, sveitarfélög og lögbæra yfirvaldið koma saman og skipuleggja matsferlið.

Lagt er til að tvöfalt kynningarferli matsáætlunar verði fellt á brott og kveðið á um rafræna gagnagátt þar sem framkvæmdaaðili, leyfisveitendur, almenningur og haghafar geta haft aðgang að gögnum og komið á framfæri umsögnum og athugasemdum, svo eitthvað sé nefnt. Stefnt er að því að frumvarp verði birt í samráðsgátt stjórnvalda um miðjan desember.
Að lokum langar mig að minnast á Hálendisþjóðgarð. Á þessu kjörtímabili hefur verið unnið að því að koma á þjóðgarði á miðhálendi Íslands og að verkefninu hafa komið fjölmargir. Svæðið sem um ræðir eru þjóðlendur innan miðhálendislínu – svæði í sameiginlegri eign þjóðarinnar. Þjóðgarðurinn myndi ná yfir um þriðjung landsins og verða stærsti þjóðgarður í allri Evrópu.

Ég tel að það felist gríðarleg tækifæri í stofnun þjóðgarðs sem þessa. Ekki bara væri þetta stærsta framlag Íslands til náttúruverndar fyrr og síðar heldur værum við líka með þessu að efla byggðirnar í nágrenni þjóðgarðsins og stuðla að auknum atvinnutækifærum víða á landsbyggðinni. Þjóðgarður sem þessi myndi hafa mikið aðdráttarafl og væri liður í því að endurreisa ferðaþjónustuna eftir heimsfaraldur kórónuveirunnar, styrkja ímynd Íslands og efla sérstöðu okkar.

En mig langar hér að tengja hálendisþjóðgarð við skipulagsmál, en með þjóðgarði gefst nefnilega líka tækifæri til þess að móta heildarsýn fyrir hálendið allt, en það yrði gert í gegnum stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið í heild sinni.

Gert er ráð fyrir að yfir þjóðgarðinum yrði stjórn með dreifðu stjórnfyrirkomulagi ríkis, sveitarfélaga og hagaðila, en hlutverk hennar yrði meðal annars að hafa yfirumsjón með gerð tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins.

Síðan yrði þjóðgarðinum skipt upp í sex rekstrareiningar og innan þeirra færu svokölluð umdæmisráð með svæðisbundna stefnumótun. Fulltrúar sveitarfélaga yrðu í meirihluta í umdæmisráðum og aðkoma heimafólks að stjórnun þjóðgarðsins því rík. Þar yrðu megináherslur svæðisins lagðar.

Þetta er hluti af því að efla aðkomu fólks sem býr í návígi við þau náttúruverðmæti sem verið er að vernda. Ég er einarður stuðningsmaður þess að með slíku samstarfi ríkis og heimafólks náum við meiri árangri í náttúruvernd, eflum eignarhald í þeim verkefnum sem felast í náttúruvernd, eflum áhuga á náttúru, sögu og menningu og viljann til að vernda slík svæði fyrir komandi kynslóðir. Það er ljóst að mörgum er mjög annt um þetta svæði og í því felast e.t.v. stærstu verðmætin.

En það er ekkert launungarmál að uppi eru ólík sjónarmið í þessu máli. Ég hef lagt mig allan fram við að mæta sjónarmiðum sem flestra og finna málamiðlanir til að vinna Hálendisþjóðgarði brautargengi. Stærsta ágreiningsmálið sem sum sveitarfélaganna gerðu um Hálendisþjóðgarð sneru að skipulagsábyrgðinni. Það leystum við í samtali okkar á milli, sem rímar ágætlega við yfirskrift þessa fundar. Þetta er skýrt dæmi um hvernig hægt er að vinna saman að framfaramálum með lausnir í huga. Ég vil þakka sveitarfélögunum fyrir góða samvinnu í þessu máli.

Samhliða frumvarpi um stofnun Hálendisþjóðgarðs mun ég leggja fram frumvarp um að komið verði á fót Þjóðgarðastofnun sem færi með umsjón og rekstur allra friðlýstra svæða í landinu. Með öflugri stofnun nást samlegðaráhrif með skyldum verkefnum í þágu náttúruverndar og geta til þess að starfrækja öflugar starfsstöðvar sem þjóna myndu fleiri en einu friðlýstu svæði. Þetta er tækifæri í byggðaþróun og fjölgun opinberra starfa úti á landi. Við getum séð fyrir okkur gestastofu í uppsveitum Árnessýslu sem þjónusta myndi gesti Geysis og Gullfoss en jafnframt virka eins og auga inn í Hálendisþjóðgarð.

Ég held ég láti staðar numið. Ég bind miklar vonir við þau mál sem ég hef reifað hér í morgun. Ég bind miklar vonir við að þau muni öll ná fram að ganga, landi og lýð til heilla. Ég vona að fundurinn verði góður og lærdómsríkur. Gangi ykkur vel í öllum ykkar verkum. Takk fyrir mig.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum