Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. febrúar 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Áratugur viskterfa 2021-2030

Áratugurinn sem nú er að hefjast er af Sameinuðu þjóðunum tileinkaður endurheimt vistkerfa og er ákall til þjóða heims um að auka verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim. Það felur í sér að stöðva eyðingu vistkerfa, að öll nýting vistkerfa sé sjálfbær og að laga það sem hefur farið úrskeiðis í gegnum tíðina.

Við treystum á það að geta uppfyllt þarfir okkar og komandi kynslóða en til þess þurfa vistkerfi að vera heilbrigð, með eðlilega starfsemi og byggingu. Vistkerfi eru jafnframt miðpunktur í loftslagsumræðunni. Við þurfum því að tryggja aukið vistlæsi og er það m.a. ástæðan fyrir þessari áherslu Sameinuðu þjóðanna.

Eyðing vistkerfa veldur oft losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið, ekki síst jarðvegseyðing, þar sem dýrmætt lífrænt efni verður jarðvegseyðingu að bráð og myndar koltvísýring. Þurrkun votlendis er mjög gott dæmi um slíkt ferli. Vistkerfi geta orðið fyrir miklum áhrifum vegna loftslagsbreytinga og þau áhrif eru illfyrirsjáanleg. Þau geta birst í eyðileggingu kóralrifja, fiskistofnar flytja sig til og nýjar tegundir nema land.

Vistkerfi eru líka hluti af lausninni við sameiginlegt úrlausnarefni okkar allra; loftslagsvána. Vistkerfi geta bundið kolefni, sérstaklega í jarðvegi. Hvort sem við endurheimtum eða ræktum skóg, klæðum land öðrum gróðri eða stundum jarðrækt á sjálfbæran hátt, allt þetta stuðlar að bindingu kolefnis úr andrúmslofti í jarðvegi. Með því má vega upp á móti allri þeirri losun sem verður af manna völdum.

Endurheimt vistkerfa þarf þó að skipuleggja með það í huga að hún sé í samræmi við þá náttúru sem er eða ætti að vera til staðar. Endurheimt vistkerfa felst ekki í að nýta ágengar framandi tegundir til kolefnisbindingar, bara af því að þær vaxa hratt og binda mikið kolefni, en mynda framandi vistkerfi í stað þeirra sem eru eða ættu að vera til staðar innan viðkomandi landsvæðis. Endurheimt vistkerfa felst frekar í að vinna með náttúrulegum ferlum að því að byggja upp þau vistkerfi sem horfið hafa. Þetta getur tekið langan tíma, bæði að byggja upp jarðveg sem horfið hefur, og að fá þá samsetningu tegunda og samfélaga sem getur verið sjálfbær til langs tíma.

Mikil samlegðaráhrif felast í endurheimt vistkerfa, samlegð milli loftslagsbreytinga, líffræðilegrar fjölbreytni og landeyðingar, því með endurheimtinni er tekist á við allar þessar alþjóðlegu áskoranir í einu.

Ísland er mjög gott dæmi um hvernig vistkerfi hafa eyðst eða hnignað á stórum hluta landsins. Í yfir eina öld höfum við unnið að því að stöðva þessa eyðingu og jafnframt að endurheimta það sem horfið er. Jarðvegur hefur eyðst á stórum hluta landsins. Það tekur aldir að byggja hann upp á nýjan leik. Stærsti hluti skóga landsins hefur eyðst. Það mun líka taka langan tíma að byggja þá upp á nýjan leik. En við getum unnið með náttúrulega ferla.

Þess vegna erum við að setja aukið afl í endurheimt vistkerfa í þágu minni losunar frá landi og aukinnar kolefnisbindingar. Þetta er samfélagslegt verkefni og því er mikils virði að tengja það við alþjóðlegt átak eins og Áratug endurheimtar vistkerfa eða Bonn áskorun um endurheimt skóga, því hvort tveggja setur íslensk viðfangsefni í alþjóðlegt samhengi.

Síða endurheimtar vistkerfa

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum