Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. mars 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Látrabjarg nú friðlýst

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 3. mars 2021.

 

Látrabjarg nú friðlýst

Látrabjarg er eitt stærsta fuglabjarg Evrópu og flokkast sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Í berginu má sjá þverskurð af elstu jarðlögum Íslands og hvergi í heiminum er vitað um stærri álkubyggð en einmitt þar. Álkan er einmitt ein þeirra tegunda sem talin er þurfa sérstaka vernd og það sama á við um lundann sem einnig verpir í Látrabjargi. Báðar fuglategundirnar eru svokallaðar ábyrgðartegundir okkar Íslendinga, tegundir sem byggja afkomu sína á svæðum hér á landi.

Nú hefur Látrabjarg verið friðlýst. Hér með hefur sérstætt og fjölbreytt lífríki Látrabjargs því hlotið verðskuldaða vernd. Með friðlýsingunni er umsjón og eftirlit með þessu mikilvæga svæði eflt.

Látrabjarg er ekki bara viðkomustaður fugla heldur líka fjölmargra ferðalanga sem sækja svæðið heim og virða fyrir sér þennan tilkomumikla stað. Koma auga á lunda skríða úr holu, finna kitl í maga og svolítinn fiðring í hnjánum þegar horft er eftir björgunum sem teygja sig þverhnípt eins langt og augað eygir - og anda að sér sjávarlofti á vestasta tanga landsins.

Látrabjarg er 13. friðlýsingin í ráðherratíð minni en í upphafi kjörtímabilsins setti ég af stað átak í friðlýsingum í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Átakið er unnið í samstarfi Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Land- og sumarhúsaeigendur á Hvallátrum við Látrabjarg eiga þakkir skildar fyrir framsýni en friðlýsingin hefur verið unnin í nánu samstarfi við þá. Þá hefur sveitarfélagið Vesturbyggð um árabil talað fyrir því í sínu aðalskipulagi að svæðið verði friðlýst. Eru því einnig færðar þakkir fyrir sína aðkomu að málinu.

Megi Látrabjarg, sem stendur voldugt og bratt í sjó fram, vera fastur viðkomustaður sjófugla og ferðalanga um alla tíð. Friðlýsingin tryggir vernd Látrabjargs til framtíðar og er stórt skref í náttúruvernd á Íslandi, sérstaklega þegar kemur að verndun sjófugla og lífríkis.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum