Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Friðlandið við Varmárósa stækkað

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Mosfellingi, bæjarblaði Mosfellsbæjar.

  

Friðlandið við Varmárósa stækkað

Í síðustu viku undirritaði ég stækkun friðlandsins við Varmárósa. Ósarnir hafa verið á náttúruminjaskrá frá árinu 1978 og voru fyrst friðlýstir árið 1980. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í því að þar er að finna fágæta plöntutegund, fitjasef, auk þess sem sjávarfitjarnar eru sérstæðar að gróðurfari og mikilvægt vistkerfi fyrir fugla.

En það er samt fleira sem gerir svæðið einstakt; það er nefnilega einstakt að hafa aðgang að lítt snortnu votlendissvæði í næsta nágrenni við byggð. Svæði sem iðar af lífi og býður upp á ótal möguleika til fræðslu, útivistar og náttúruskoðunar. Markmið friðlýsingar Varmárósa er að vernda náttúrulegt ástand votlendis og sérstakan gróður sem á svæðinu er að finna. Fitjasef finnst bara á einum öðrum stað á landinu svo vitað sé, fyrir utan Varmárósa, sem gerir verndarsvæðið mjög merkilegt.

Það hefur verið virkilega ánægjulegt að finna hversu ríkur vilji hefur verið af hálfu Mosfellinga til þess að tryggja vernd þessa einstaka svæðis, en votlendissvæði hafa svo sannarlega átt undir högg að sækja undanfarna áratugi. Ég er sannfærður um að stækkun friðlandsins muni enn frekar stuðla að því að íbúar og gestir svæðisins geti rannsakað og notið þess fjölskrúðuga lífs sem finna má á svæðinu.

Átak í friðlýsingum

Stækkun friðlýsts svæðis við Varmárósa er 16. friðlýsingin sem undirrituð er á þessu kjörtímabili. Eitt það fyrsta sem ég gerði eftir að ég varð umhverfis- og auðlindaráðherra var að setja af stað átak í friðlýsingum, sem unnið hefur verið í samstarfi Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Á meðal þeirra svæða sem hlotið hafa vernd í ráðherratíð minni eru náttúruperlur á borð við Geysi, Goðafoss, Kerlingarfjöll og Látrabjarg. Ég stefni að því að áður en kjörtímabilið er á enda muni 15-20 svæði til viðbótar verða friðlýst.

Til hvers að friðlýsa?

Með friðlýsingu tökum við ákvörðun um að setja náttúruna í fyrsta sæti og stuðla að sjálfbærri nýtingu sem gengur ekki í berhögg við náttúruna, okkur og komandi kynslóðum til heilla. En mörgum friðlýsingum fylgir líka umsjón og styrking innviða. Fyrr í þessum mánuði var í fjórða sinn tilkynnt um úthlutun fjármagns úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Gert er ráð fyrir rúmlega 2,6 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára til uppbyggingar innviða á friðlýstum svæðum vítt og breitt um landið. Landsáætlun er þannig öflugt verkfæri í þágu náttúrunnar.

Á Íslandi eru nú, auk Varmárósa, rösklega 120 friðlýst svæði og mörg þeirra á höfuðborgarsvæðinu eða næsta nágrenni þess. Ég hvet þig, lesandi góður, til að fletta þeim upp og velja þér einhverja einstaka náttúruperlu í nágrenninu til að heimsækja og njóta náttúrunnar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum