Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. júní 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á 20 ára afmæli Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls

Kæru Snæfellingar, góðir landsmenn – innilega til hamingju með daginn!

Í Áföngum Jóns Helgasonar lýsir skáldið ægifegurð landsins, krafti náttúruaflanna og samskiptum manns og náttúru. Ljóðið birtist fyrst árið 1948 en Jón velur einstaka staði um allt land til þess að ljá ljóðlínum sínum vængi - staðir sem eiga það sameiginlegt að skapa sérstakan sess í huga okkar og sögu. Í tveimur af kjarnyrtum ellefu erindum fer Jón yfir Snæfellsnesið; Þúfubjarg, Dritvík, Tröllakirkjuna og aflraunasteininn Fullsterkan á Djúpalónssandi – allt kennileiti sem í 20 ár hafa tilheyrt Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Raunar er gaman að lesa Áfanga Jóns og sjá að velflest af þeim svæðum sem hann velur svo haganlega að greina frá hafa nú verið friðlýst með einhverjum hætti, tekin frá fyrir komandi kynslóðir og okkur sjálf.

Fyrstu hugmyndir um friðlýsingu á utanverðu Snæfellsnesi komu fram fyrir hartnær hálfri öld. Skriður komst á málið árið 1994 þegar þáverandi umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, skipaði undirbúningsnefnd að stofnun þjóðgarðs undir forystu Sturlu Böðvarssonar en smiðshöggið var rekið með starfshópi sem annar fyrirrennari minn, Siv Friðleifsdóttir, skipaði árið 2001 undir forystu Stefáns Jóhanns Sigurðssonar. Sturla segir í grein sem hann skrifar í tilefni af 20 ára afmælinu: Með stofnun þjóðgarðs á saga og fegurð jökulsins og umhverfi hans eftir að heilla komandi kynslóðir. Þar er ég hjartanlega sammála Sturlu og ég veit við erum mörg þakklát fyrir framsýni og elju Snæfellinga sem lengi hefur verið sporgöngufólk þegar kemur að umhverfis- og náttúruverndarmálum. Verkefni sem Svæðisgarður Snæfellsness leiðir um þessar mundir og fjallar um manninn og lífhvolfið, sem útleggst á ensku Man and Biosphere, getur orðið spennandi viðbót, og kannski eðlileg viðbót, í ljósi áhugans og reynslunnar hér heimafyrir. Hef ég áhuga á að ljá því verkefni frekari vængi í samstarfi við Snæfellinga. Umhverfis- og náttúruverndin hefur notið góðs liðsinnis fólks héðan af Nesinu sem hefur verið óspart á að deila reynslu sinni með öðrum víða um land. Fyrir það er ég þakklátur.

Kæru Snæfellingar, góðir landsmenn.

Í dag fögnum við ekki bara 20 ára afmæli þjóðgarðsins ykkar og okkar allra heldur mun hann stækka um heil 9%. Hluti af stækkuninni er gjöf Símans og Mílu af þessu tilefni. Á þessu kjörtímabili hefur verið unnið að friðlýsingu svæða um allt land í samstarfi Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins, meðal annars að stækkun þjóðgarða. Í þeim tilfellum, rétt eins og þessu hér, hefur verið unnið að friðlýsingunni í góðri samvinnu við heimamenn og þau sem gerst til þekkja. Vil ég þakka heimafólki samvinnuna. Með stækkuninni nú bætist við þjóðgarðinn svæði sem liggur norðan við jökulhettu Snæfellsjökuls og austan við núverandi þjóðgarðsmörk, frá jökli að Búrfelli og norður fyrir Dýjadalsvatn. Nær nýja svæðið m.a. yfir gamla þjóðleið, Prestagötu.

Hér á eftir mun ég undirrita endurskoðaða friðlýsingarskilmála fyrir Þjóðgarðinn Snæfellsjökul en þau nýmæli er að finna í friðlýsingarskilmálunum að ráðherra mun skipa þjóðgarðsráð á grundvelli laga um náttúruvernd. Það er í fyrsta sinn sem það er gert en fyrirmyndina er að finna í svokölluðum svæðisráðum Vatnajökulsþjóðgarðs. Í þjóðgarðsráði munu eiga sæti fulltrúar sveitarfélagsins, Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar, ferðaþjónustusamtaka á Snæfellsnesi og útivistar- og náttúruverndarsamtaka. Ráðið verður Umhverfisstofnun og þjóðgarðsverði til ráðgjafar í málefnum þjóðgarðsins sem mun fjalla um framkvæmdaáætlun, áherslur fyrir þjóðgarðinn, gerð stjórnunar- og verndaráætlunar og önnur stefnumarkandi mál er varða þjóðgarðinn, s.s. hvað varðar þjónustu og atvinnustefnu í þjóðgarðinum. Þjóðgarðsráðið mun stuðla að meiri þátttöku hinna margvíslegu hagaðila í mótun þjóðgarðsins enda er það skoðun mín að að heimamenn eigi að gegna lykilhlutverki í stefnumótun og stjórn friðlýstra svæða í sínum bakgarði.

Undanfarin 20 ár hefur átt sér stað mikil uppbygging innviða innan þjóðgarðsins og þjóðgarðsmiðstöðin sem nú rís á Hellissandi er kannski stærsti einstaki innviðurinn. Kristinn bæjarstjóri fer ágætlega yfir þetta í grein sem hann skrifar í tilefni af afmælinu. Þá hefur heilsárs- og tímabundu starfsfólki fjölgað enda hefur straumur ferðamanna aukist verulega á þessum 20 árum. Ég er þess handviss, enda styðja rannsóknir það og reynsla ykkar hér, að aukinn ferðamannafjöldi skilar samfélaginu miklu en til þess þurfa innviðirnir að vera í lagi. Og við erum hvergi nærri hætt! Þær voru því ekki alvitlausar hugmyndirnar sem fyrst komu fram fyrir að verða hálfri öld að utanvert Snæfellsnes skyldi friðlýst og þar stofnaður þjóðgarður.

Þó prófessor Jóni Helgasyni hafi e.t.v. þótt vistin í Dritvík daufleg og nesið kalda drungalegt þá er bjart yfir Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Sjálfur gnæfir hann yfir, jökullinn, tákn nessins og uppruni þess krafts sem einkennir svæðið. Ég er einn þeirra sem ólst upp við jökulinn við sjóndeildarhringinn og tel hann á meðal fjölskyldumeðlima. Megi allt gott, guð og góðar vættir, vaka yfir Þjóðgarðinum Snæfellsjökli á 20 ára afmælinu og um ókomna tíð.

Til hamingju Snæfellingar og landsmenn allir með daginn í dag


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum