Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi um átaksverkefni í jarðfræðikortagerð og skráningu jarðminja

Sæl öll og gaman að vera með ykkur hér í dag. Bæði í raunheimum og í gegnum streymi.

Sum kynnu að spyrja sig, hvaða þörf höfum við fyrir jarðfræðikort? Vitum við ekki allt sem vita þarf um jarðfræði landsins okkar nú þegar? Öll höfum við jú væntanlega séð myndir af yfirlitskortum af jarðfræði landsins og flest vitum við að berggrunnurinn er ævaforn á austur- og vesturhlutum landsins meðan eldvirku svæðin liggja eins og belti yfir miðbik landsins og á Reykjanesi.

Staðreyndin er einfaldlega sú að jarðfræðikort eru gríðarlega mikilvæg uppspretta þekkingar, ekki bara fyrir vísindarannsóknir heldur einnig hvers kyns skipulagsvinnu, orkuöflun, mat á jarðvá, og nýtingu hinna ýmsu auðlinda jarðar eins og vatns og jarðefna. Einnig eru jarðfræðikort undirstaða skráningar jarðminja, sem er forsenda faglegrar ákvarðanatöku um heildstæða vernd þeirra. Vissulega þekkjum við stóru drættina í jarðfræði landsins en enn er gríðarmikið starf óunnið við að kortleggja sérstaklega eldri hluta landsins í stórum mælikvarða, sem gagnast við nákvæmari vinnu og skráningu.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið stóð, og stendur enn, fyrir átaksverkefni í jarðfræðikortlagningu og skráningu jarðminja í samvinnu við ÍSOR og NÍ. Verkefninu var hleypt af stokkunum í árslok 2018 og fyrri rammasamningurinn um verkefnið var til tveggja ára, 2019-2020. Í lok samningstímans var árangur samstarfsins metinn og í ljós kom ríkur vilji til að halda vinnunni áfram.

Núverandi rammasamningur, sem er framhald hins fyrri, hefur mun lengri gildistíma eða fimm ár (2021-2025). Verkáætlunin er metnaðarfull og horft er til þess að ljúka kortlagningu þriggja lykilsvæða á tímabilinu. Sérfræðingar ráðuneytisins og stofnananna tveggja munu fara nánar yfir efnisatriði samningsins og kynna fyrir okkur þann árangur sem þegar hefur náðst og þá framtíðarsýn sem aðilar samningsins hafa um framvindu verkefnisins.

Flest ef ekki öll löndin í kringum okkur, sem við erum vön að bera okkur saman við hafa fyrir mörgum áratugum lokið kortlagningu á jarðfræði innan landamæra sinna. Mörg þeirra hafa jafnvel þegar uppfært kortin oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, í takt við aukna þekkingu á sviði jarðvísinda og nýjar og öflugari aðferðir til kortlagningar og kortavinnslu. Ísland hins vegar stendur enn að miklu leyti á byrjunarreit í nákvæmri kortlagningu á jarðfræði landsins. Nefna má ýmsar ástæður fyrir því og kannski er sú helst að mest áhersla hefur verið lögð á kortlagningu á þeim landsvæðum þar sem orkuauðlindir er að finna, hvort sem þar er um að ræða vatnsafl eða jarðvarma. Jarðhitann er helst að finna á eldvirku svæðunum og því hafa þau verið kortlögð betur en önnur svæði landsins.

Atburðir undangenginna missera og ára hafa hins vegar sýnt okkur svo ekki er um villst að gríðarleg þörf er á að beina kastljósinu í meiri mæli að öðrum þáttum í jarðfræði landsins en þeim sem máli skipta upp á sjálfbæra orkuöflun. Skriðuföll og snjóflóð, landris vegna bráðnunar jökla og aðrar þær breytingar sem eru að verða á náttúrufari hérlendis í kjölfar hraðrar hlýnunar eru allt áskoranir sem við munum ekki geta ráðið við án stórbættrar þekkingar á jarðfræði landsins.

Ráðuneytið leggur fram 20 milljónir á ári til verkefnisins, eða 100 milljónir alls á samningstímanum, að viðbættu 10 milljóna króna aukaframlagi í ár.

Ég hlakka til að fylgjast með afurðum þessa átaks líta dagsins ljós, kort fyrir kort. Ég óska ykkur góðra stunda hér í dag og farsællar vinnu í framtíðinni. Takk.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum