Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. október 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi Eflu um hringrásarhagkerfið

Sæl öll sömul og gaman að vera með ykkur hér í dag.

Við þekkjum öll línulega hagkerfið og hvert það hefur leitt okkur. Heimsbyggðin þyrfti 1,7 jarðir til að mæta núverandi eftirspurn eftir auðlindum. Hráefnanotkun hefur þrefaldast á síðustu 50 árum. Meirihluti auðlindanna endar ennþá í förgun. Ef ekkert breytist má búast við að auðlindanotkun jarðarbúa muni enn vaxa og tvöfaldast á næstu 40 árum. Við erum að ganga freklega á höfuðstólinn og því verðum við að hætta.

Vegna athafna mannsins hefur þriðjungur af líffræðilegum fjölbreytileika á heimsvísu tapast. Búsvæði margra tegunda og vistkerfi eru á barmi hruns. Við getum ekki brauðfætt og haldið uppi mannkyninu með því að ganga stöðugt á náttúruleg búsvæði og vistkerfi. Við þurfum líffræðilega fjölbreytni til að lifa af og til þess þurfum við að varðveita óspillta náttúru og endurheimta og bæta hnignandi vistkerfi og búsvæði. Nýting á auðlindum jarðar þarf að verða sjálfbær og þar er virkt hringrásarhagkerfi lykilþáttur.

Virkt hringrásarhagkerfi er ekki síður lykilþáttur þegar horft er til loftslagsmála. Íslensk stjórnvöld hafa sett markið á kolefnishlutleysi árið 2040. Hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu er eitt af stóru þáttunum í að ná markmiði um kolefnishlutleysi.

Staðreyndin er sú að rekja má yfir helming af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum til vinnslu og notkunar auðlinda. Um leið er ég sannfærður um að með virku hringrásarhagkerfi hér á landi megi samt sem áður mæta öllum þörfum sem fylgja þeim lífsgæðum sem landsmenn hafa vanist á undangengnum áratugum. Rannsóknir á alþjóðavísu hafa sýnt að umskipti úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi munu auka hagsæld, búa til ný störf og hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið.

Ég legg áherslu á að umskiptin verði jafnframt að byggjast á réttlæti, jafnræði þjóðfélagshópa og kynjavitund. Umskiptin eiga að stuðla að jöfnuði.

Staðan núna er sú að hagkerfi heimsins er innan við 9% hringrænt. Við þurfum að gera miklu betur og við þurfum að vinna hratt. Það er þörf á nýjum lausnum. Það má vel ímynda sér að þegar umbreyta þarf 90% hagkerfisins yfir í hringrásarhagkerfi felist í því nær óendanleg tækifæri. Ísland tekur nú þátt í umfangsmikilli norrænni rannsókn þar sem unnið er að því að greina og leggja mat á tækifærin sem felast í innleiðingu hringrásarhagkerfis á Norðurlöndum. Þessi rannsókn var sett í gang að frumkvæði mínu í formennskutíð Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2019.

Dæmi um geira á Íslandi þar sem sóknarfæri eru talin mikil eru lífhagkerfið og matvælaframleiðsla, byggingariðnaður, orkufrekur iðnaður, samgöngur, flutningar og meðhöndlun úrgangs. Það sem rannsóknin hefur líka dregið fram er hversu geirarnir þar sem mestu möguleikarnir liggja eru oft samofnir. Tækifærin liggja því ekki hvað síst í samstarfi. Það er því mikilvægt að hittast, eins og þið gerið hér í dag, miðla af reynslu ykkar og mynda tengsl.

Síðustu misseri hefur umhverfis– og auðlindaráðuneytið lagt áherslu á að bæta meðhöndlun úrgangs sem fellur til í landinu. Þar eru verkefnin ærin við að draga úr urðun og auka endurvinnslu. Fyrr á þessu ári samþykkti Alþingi lagabreytingar sem mynda undirstöður undir grundvallarbreytingar sem þurfa að verða á meðhöndlun úrgangs hér á landi í náinni framtíð. Á sama tíma gaf ráðuneytið út stefnu um meðhöndlun úrgangs til næstu 12 ára, undir yfirskriftinni Í átt að hringrásarhagkerfi. Þessari stefnu og þeim aðgerðum sem henni fylgja er ætlað að styðja við grundvallarbreytingar í málaflokknum.

En við erum um leið að fikra okkur upp virðiskeðjuna. Síðastliðin ár hafa úrgangsforvarnir og breyttar neysluvenjur fengið sífellt meira vægi. Við vitum orðið betur hversu mikilvægt það er að draga úr magni úrgangs og dreifingu hættulegra efna. Í fyrra gaf ráðuneytið út aðgerðaáætlun í plastmálefnum og nýlega kom út aðgerðaáætlun gegn matarsóun. Í undirbúningi er sambærileg áætlun gegn textílsóun.

Kastljós stjórnvalda beinist nú æ meir að framleiðsluhluta hringrásarhagkerfisins og búast má við að þar verði þungamiðjan næstu ár. Áhersla er lögð á visthönnun og hringrásarhugsun við hönnun og framleiðslu á vörum, auk möguleikanna sem felast í framlengdri framleiðendaábyrgð á vörum. Áskoranir eru meðal annars fólgnar í að byggja upp nægjanlega markaði og eftirspurn eftir hráefni úr endurunnum efnivið.

Það er trú mín að nýsköpun, rannsóknir og þróun leiki lykilhlutverk í umskiptum okkar yfir í hringrásarhagkerfi. Til að efla þessa þætti veitir umhverfis– og auðlindaráðuneytið árlega styrki vegna hringrásarverkefna. Úthlutun í ár nam 230 milljónum króna og kemur til viðbótar úthlutunum Loftslagssjóðs. Ísland tekur jafnframt þátt í LIFE-áætlun Evrópusambandsins. Með því hafa opnast möguleikar fyrir fyrirtæki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og fleiri íslenska aðila til að sækja erlenda styrki til verkefna sem snerta hringrásarhagkerfið.

Nú á haustmánuðum gaf fjármála– og efnahagsráðuneytið út fjármögnunarramma fyrir sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs. Ramminn gerir ríkissjóði kleift að fjármagna sig með útgáfu sjálfbærra og grænna skuldabréfa til að fjármagna meðal annars verkefni sem stuðla að aðlögun að hringrásarhagkerfi. Auk þessa voru síðastliðið vor samþykktar lagabreytingar sem veita auknar skattaívilnanir vegna umhverfisvænna fjárfestinga. Framsækin fyrirtæki hafa því margvíslega möguleika til að sækja stuðning til grænna verkefna og græns vaxtar.

Að lokum er rétt að minnast á að ráðuneytið úthlutaði í sumar fjármunum til sveitarfélaga til úrbóta í fráveitumálum en gert er ráð fyrir árlegum stuðningi ríkisins til sveitarfélaga til ársins 2030. Það er mín von að sveitarfélögin horfi til framtíðar í þessum efnum og innleiði nýjar lausnir í fráveitumálum. Að mínu mati er þörf á samstarfi ríkis, sveitarfélaga og einkamarkaðarins til þess að nýta hráefnið betur en í dag og draga úr losun þess í hafið.

Línulega hagkerfið sem við þekkjum svo vel er ekki valkostur lengur og það hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt nú að loka hringrásinni. Við þurfum róttækar breytingar til að ná kolefnishlutleysi og stöðva tap á líffræðilegum fjölbreytileika. Við þurfum samhent átak og skýrar, hnitmiðaðar og árangursríkar aðgerðir í samfélaginu öllu til að ná árangri. Innanlands og á alþjóðavettvangi. Hringrásarhugsun þarf að verða nýja normið. Í hringrásarhagkerfinu býr hafsjór tækifæra.

Takk fyrir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum