Næring í öndvegi þróunarsamvinnu og baráttunnar gegn fátækt
Leitun er að þeirri þjóð sem ekki glímir við vanda sem tengist næringu, ýmist vannæringu eða offitu, segir í árlegri alþjóðlegri skýrslu um næringu - The Global Nutrition Report 2017. Á alþjóðlegri ráðstefnu í Mílanó um síðustu helgi, þar sem skýrslan var lögð fram, var samþykkt að setja næringu bæði í öndvegi í baráttunni gegn fátækt og í allri alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Þá voru þjóðir heims hvattar til þess að leggja fram fjármagn til að útrýma vannæringu og staðhæft að slíkt myndi stuðla að öllum Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Skýrslan byggir á viðamiklum rannsóknum í 140 þjóðríkjum. Skýrsluhöfundar skilgreindu sérstaklega þrjú mikilvæg atriði í tengslum við vannæringu sem hafa alvarlegar afleiðingar: 1) vaxtarhömlun barna (stunting); 2) blóðleysi kvenna á barneignaaldri; og 3) yfirþyngd fullorðinna kvenna. Skýrsluhöfundar komust að þeirri niðurstöðu að meðal 88% þjóðanna væru tvö af þessum þremur atriðum í alvarlegum ólestri sem þyrfti að bregðast við hið fyrsta.
Góðu fréttirnar eru þær að vannæring barna er á undanhaldi á heimsvísu en hins vegar eru framfarirnar ekki nægilegar til þess að raunhæft sé að ná Heimsmarkmiði 2.2. þar sem segir: "Eigi síðar en árið 2030 verði vannæringu í hvaða mynd sem er útrýmt, þar á meðal verði árið 2025 búið að ná alþjóðlegum markmiðum um að stöðva kyrking í vexti og uppdráttarsýki barna undir 5 ára aldri, og hugað verði að næringarþörfum unglingsstúlkna, þungaðra kvenna, kvenna með börn á brjósti og aldraðra."
Til marks um alvarleika vannæringar kemur fram í skýrslunni að helmingur allra dauðsfalla barna yngri en fimm ára megi rekja til hennar. Auk þess rænir vannæring á barnsaldri börn eðlilegum líkamlegum og andlegum þroska með tilheyrandi námserfiðleikum og lakari tekjumöguleikum til framtíðar, að því ógleymdu að vannæring veikir ónæmiskerfið með þekktum afleiðingum.
Að mati Kofi Annans fyrrverandi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem sótti ráðstefnuna í Mílanó er vannæring á heimsvísu ógn við bæði líkamlega og andlega vellíðan þeirrar kynslóðar sem nú vex úr grasi og þær kynslóðir sem á eftir koma. "Það er ákaflega brýnt að lagðir verði fram fjármunir til að bregðast við þessum vanda þannig að fólk, samfélög og þjóðir geti nýtt getu sína til fulls," sagði Kofi Annan.
Framlagsríki, alþjóðastofnanir og borgarasamtök gáfu vilyrði um fjárstuðning á Mílanófundinum fyrir 3,4 milljörðum bandarískra dala, þar á meðal 640 milljóna dala skuldbindingu til nýrra verkefna í því skyni að bæta næringu fólks.
Global Nutrition Report - Press Release
Africa: Global Nutrition Crisis Threatens Human Development, Demands 'Critical Step Change' in Response - Report
Global Nutrition Summit 2017: Milan
Overcoming "Hidden Hunger", eftir Melindu Gates/ Medium
Nutrition is first and foremost a political challenge, says Gates nutrition lead/ Devex
Ending hunger and malnutrition: the role of public-private partnerships/ SaveTheChildren-ECDMP
Celebrating Progress Toward the Global Nutrition Targets/ KofiAnnanFoundation
The world is off track to end hunger, so what's the solution?, eftir Homi Kharas and John McArthur/ Medium
Conflict in South Sudan with hyperinflation, food insecurity threatening famine for 2018/ DW1.25 million face starvation in war-torn South Sudan, officials say/ AP
This is the only continent where children have both stunted growth and a rising obesity problem/ Qz
An overview of links between obesity and food systems : implications for the agriculture GP agenda (English), eftir Htenas, Aira Maria ofl./ Alþjóðabankinn
Harvest season provides meagre respite to South Sudan's hunger crisis/ FAO