Hoppa yfir valmynd
20.03. 2018 Utanríkisráðuneytið

IDA - ein árangursríkasta og skilvirkasta þróunarsamvinnustofnun heims

Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association, IDA) er sá armur Alþjóðabankasamsteypunnar sem veitir fátækustu löndum heims styrki og lán á hagstæðum kjörum auk ráðgjafar tengdum fjárstuðningnum. Lán IDA eru vaxtalaus, án afborgana fyrstu tíu árin og greiðast upp á 25 til 40 árum. Frá miðju ári 2002 urðu þáttaskil í starfi IDA þegar stofnunin hóf að veita aðstoð byggða á styrkjum til þróunarlanda. Fjöldi aðildarríkja IDA er 173.

IDA er frábrugðin öðrum stofnunum Alþjóðabankans að því leyti að hún er endurfjármögnuð á þriggja ára fresti þegar aðildarríki koma saman og ræða áherslur stofnunarinnar og fjármögnun næsta tímabils. Þótt IDA byggi starf sitt að mestu leyti á fjárframlögum gjafaríkja hefur fjármögnun stofnunarinnar tekið þónokkrum breytingum á sl. misserum í takt við aukna þörf umfram getu gjafaríkja. Á yfirstandandi endurfjármögnunartímabili, því átjánda (IDA18), var t.d. samþykkt að stofnunin myndi styrkja fjárhagslega getu sína til að veita lán og styrki með því að hefja útgáfu skuldabréfa á almennum markaði. Var þessi nýjung innan IDA kynnt til sögunnar þegar ljóst var að framlög gjafaríkja myndu ekki hækka milli tímabila á sama tíma og þörfin fyrir fjármagn hefur nær aldrei verið meiri. Niðurstaðan varð stærsta endurfjármögnun IDA frá upphafi, en stofnunin mun ráðstafa 75 milljörðum Bandaríkjadala til verkefna á þriggja ára tímabili IDA18. Lögð er áhersla á fimm megin þemu, þ.e. loftslagsmál, jafnrétti kynjanna, atvinnumál og hagþróun, stjórnsýslu og stofnanir auk óstöðugra ríkja.

Með því aukna fjármagni sem samið var um í 18. endurfjármögnuninni mun IDA m.a. tvöfalda framlög sín til óstöðugra ríkja og veita aukin framlög vegna flóttamanna og viðtökuríkja þeirra. Þá verður á tímabilinu lögð aukin áhersla á stuðning við einkageirann í fátækustu ríkjunum og unnið að því að auka fjárfestingar, með sérstaka áherslu á óstöðug ríki, en sterkur einkageiri, viðskipti og fjárfestingar eru grundvallarþáttur þegar kemur að því að auka hagvöxt í viðkomandi ríkjum.

Rík áhersla lögð á árangursstjórnun

IDA leggur ríka áherslu á að fjárstuðningur og ráðgjöf stofnunarinnar skili árangri og að upplýsingum um framvindu og árangur skili sér til aðildarríkja. Þannig hefur stofnunin frá árinu 2002 lagt mat á hlutverk sitt í baráttunni gegn fátækt og fyrir auknum hagvexti. Árangursstjórnunarkerfi IDA (Results Management System) er ítarlegt og snýr bæði að árangri eftir málefnasviðum og löndum auk þess sem starf stofnunarinnar sjálfrar og skilvirkni starfseminnar er metin. Árangursramminn skiptist í fjórar stoðir. Tvær þeirra snúa að árangri eftir löndum og hvernig starf IDA hefur stuðlað að þeim árangri en hinar tvær snúa að frammistöðu IDA og skilvirkni sem lánastofnunar og veitanda ráðgjafar.

Árangursrík og skilvirk stofnun samkvæmt helstu úttektum

Á sama tíma og IDA er einn stærsti fjármögnunaraðili uppbyggingar í fátækustu ríkjunum er stofnunin jafnframt talin ein sú skilvirkasta og árangursríkasta eins og kemur fram í margvíslegum úttektum á starfi stofnunarinnar og systurstofnunar hennar, IBRD.

Í úttekt MOPAN (Multilateal Organisation Performace Assessment Network, sem starfar undir hatti Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD) sem gerð var á starfsemi Alþjóðabankans (IBRD og IDA) árin 2015-2016 kemur fram að bankinn sé bæði vel mótuð og árangursrík stofnun sem mæti þörfum skilvirkrar fjölþjóðastofnunar sem geti vel tekist á við hlutverk sitt á sama tíma og hún sé sveigjanleg og geti brugðist við og aðlagast breyttum þörfum. Þar kemur fram að styrkleikar bankans liggi í getu hans til að veita ríkjum klæðskerasniðna fjármögnun og ráðgjöf auk þess sem uppbygging stofnunarinnar og verkferlar leiði til þess að aðstoðin sé veitt á árangursríkan og skilvirkan hátt. 

Sami tónn er sleginn í úttekt bresku þróunarsamvinnustofnunarinnar (DfID) frá árinu 2016 á starfsemi fjölþjóðlegra stofnana þar sem segir að Alþjóðabankinn sé meðal þeirra stofnana sem skili hvað mestum árangri. Í mati Centre for Global Development og Brookings stofnunarinnar frá árinu 2014 er sama upp á teningnum, en þar er skilvirkni IDA rakin til lágs umsýslukostnaðar, fyrirsjáanleika framlaga og stærð og umfang verkefna í samanburði við aðra gjafa.

Auk þess að vera talin árangursrík og skilvirk stofnun er Alþjóðabankinn talinn meðal helstu áhrifavalda á sviði þróunarsamvinnu og er mjög framarlega þegar kemur að gagnsæi og upplýsingaveitu. Í könnun sem gerð var af AidData árið 2015 meðal stefnumótunaraðila í lág- og millitekjuríkjum lenti bankinn í fyrsta sæti af 56 tvíhliða gjafaríkjum og fjölþjóðastofnunum hvað varðar áhrif á áherslur og stefnumótun ríkjanna. Þá var IDA í fjórða sæti af 17 fjölþjóðastofnunum á lista Aid Transparency Index hvað varðar gagnsæi og er þar meðal þeirra sex stofnana sem fá yfir 80% fyrir verkefnamiðaða upplýsingaveitu. 

Engin stofnun er þó fullkomin og það er ýmislegt í starfsemi Alþjóðabankans sem unnið er að því að bæta. Má þar nefna starfsemi bankans í sérstaklega flóknum aðstæðum líkt og óstöðugum ríkjum þar sem átök ríkja. Þá er unnið að því að auka hraða í framkvæmd og betri samræmingu þekkingarmiðlunar og framkvæmdar og enn frekari styrkingu árangursstjórnunar, þ. á m. úttektir og eftirlit. Þá er enn svigrúm til að bæta starf bankans á sviði jafnréttis- og mannréttindamála og leggur Ísland ríka áherslu á þann þátt í samstarfi við bankann. 

Stærstur hluti af framlögum Íslands til Alþjóðabankans fara til IDA, en Ísland veitir alls um 415 milljónir á ári til stofnunarinnar á árunum 2018-2020. Auk þess að eiga hlutafé í Alþjóðabankanum og veita framlög til IDA greiða íslensk stjórnvöld framlög í sérstaka sjóði innan bankans á sviði mannréttinda-, jafnréttis-, fiski- og jarðhitamála.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum