Hoppa yfir valmynd
28.08. 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 4: Menntun fyrir alla

4. Menntun fyrir öll - mynd

Tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi

Íslensk menntastefna birtist í löggjöf um menntamál, í aðalnámskrám og fleiri stefnuskjölum sem ríkið gefur út. Ákvæði í lögum um menntamál falla vel að Heimsmarkmiðunum, s.s. um rétt allra til menntunar, gildi menntunar fyrir einstaklinga og samfélag og tengsl almennrar menntunar, lýðræðis, menningar og sjálfbærni. Meginmarkmið menntastefnunnar er að skapa umhverfi fyrir eflingu leik-, grunn- og framhaldsskólastigs sem og framhaldsfræðslu og menntun á háskólastigi, leggja grundvöll að virkri þátttöku allra í lýðræðissamfélagi og veita öllum viðeigandi undirbúning og fjölbreytt tækifæri fyrir frekara nám eða störf á vinnumarkaði.

Grunnskóli og leikskóli fyrir alla

Samkvæmt lögum og aðalnámskrá er grunnskólum skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt. Allir nemendur eiga rétt á námi við hæfi í grunnskólum, bæði bóklegu námi, verk- og listnámi og sveitarfélögum er skylt að sjá nemendum fyrir viðeigandi námstækifærum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Miðað er við að allir nemendur ljúki á jafnréttisgrundvelli gæðamenntun á grunnskólastigi án aðgreiningar og endurgjalds. Nám á grunnskólastigi er ekki að öllu leyti endurgjaldslaust, heimildarákvæði er í lögum um gjaldtöku vegna ritfanga, skólaferðalaga, skólamáltíða og frístundastarfs. Í kjölfar löggildingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2013 hefur gagnrýni á gjaldtökuheimildir grunnskólalaga aukist og mörg sveitarfélög hafa þegar brugðist við með því að afnema gjaldtöku fyrir ritföng og nokkur sveitarfélög hafa gengið lengra í þeim efnum. Það er áskorun fyrir íslenskt samfélag að takmarka enn frekar gjaldtöku vegna starfsemi grunnskóla, m.a. vegna ritfanga. Íslenska leikskólastigið er skilgreint sem fyrsta stig skólakerfisins. Árið 2016 voru 94% íslenskra barna 3-5 ára í leikskóla (að grunnskólaaldri) og 47% barna undir 3ja ára aldri.22 Helsta áskorunin er að fjölga menntuðum leikskólakennurum sem kjósa að starfa í leikskólum. Samkvæmt lögum á hlutfallið að vera að lágmarki 66% en er einungis um 32%.23

Einnig hefur reynst áskorun að veita börnum leikskólavist strax að loknu fæðingarorlofi foreldra, eða frá eins árs aldri barna. Starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins skilaði árið 2015 greiningarskýrslu til Alþingis með tillögum til úrbóta.24

Tækni-, starfs- og framhaldsmenntun

Allt frá gildistöku núverandi laga um framhaldsskóla frá 2008 hafa staða og horfur starfsmenntunar á framhaldsskólastigi verið til umfjöllunar. Lítil sem engin breyting hefur orðið á hlutfalli skráðra nemenda á verk- og starfsnámsbrautum af heildarfjölda framhaldsskólanema undanfarin ár. Þeir hafa skv. Hvítbók mennta- og menningarmálaráðuneytisins um umbætur í menntun frá árinu 2014 að jafnaði verið um 30-32%.25 Unnið er að því að koma á  markvissu og skilvirku starfsnámi sem höfðar jafnt til yngri sem eldri nemenda á grundvelli áhersluatriða sem sett voru fram í Hvítbókinni með það að markmiði að fjölga nemendum í starfsnámi. Þá er einnig unnið að gerð nýs reiknilíkans fyrir framhaldsskóla sem stuðla á að jafnræði, skilvirkni, góðri nýtingu á opinberu fé og framkvæmd á menntastefnu yfirvalda. Markmiðið er m.a. að nemendur í öllum landshlutum hafi aðgengi að fjölbreyttu bók- og starfsnámi sem uppfyllir kröfur næsta skólastigs og/ eða atvinnulífs, einnig að auka gæði í starfsemi háskóla, rannsóknarstofnana og þekkingarsetra, sem og að efla samstarf háskóla og tengsl við önnur skólastig, atvinnulíf og samfélag.

Jafnrétti til náms

Núgildandi menntastefna felur í sér jafnrétti til náms og menntun án aðgreiningar í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi staðfesta að núverandi löggjöf og stefnumótun fræðsluyfirvalda felur í sér stuðning við markmið og áherslur skóla án aðgreiningar og eru í samræmi við alþjóðlega sáttmála og samninga sem Ísland hefur undirgengist.26 Hlutfallslega færri nemendur eru í sérskólum og sérúrræðum í skólum á Íslandi en víðast í Evrópu en formlegar greiningar á sérþörfum þeirra eru langt yfir meðallagi. Fram kemur einnig að menntakerfið í heild er vel fjármagnað en að endurhugsa þurfi úthlutun fjármagnsins þannig að það styðji betur við stefnuna um menntun án aðgreiningar. Skipaður hefur verið stýrihópur til að vinna aðgerðaáætlun í samræmi við niðurstöður úttektarinnar.

Í framkvæmdaáætlun um málefni innflytjenda 2016-2019 sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 er lögð áhersla á jafna stöðu og tækifæri til menntunar og að þekking og reynsla innflytjenda sé metin. Börn og ungmenni með annað móðurmál en íslensku njóti sömu tækifæra til náms og önnur börn og ungmenni. Unnið verði markvisst gegn brottfalli innflytjenda úr framhaldsskólum með stuðningi á öllum skólastigum, m.a. með aukinni áherslu á kennslu í móðurmáli þeirra barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Nemendum af erlendum uppruna heldur áfram að fjölga í skólakerfinu og er nú brýnt að allar umbótaaðgerðir til aukinna gæða í skólastarfi taki mið af þörfum þess hóps.

Færni í grunnþáttum og um sjálfbæra þróun

Menntastefna aðalnámskráa leik-, grunn- og framhaldsskóla frá 2011 er reist á sex grunnþáttum sem varða starfshætti, inntak og umhverfi náms á öllum skólastigum. Þeir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Lýðræðis- og mannréttindamenntun byggist á gagnrýnni hugsun og ígrundun um grunngildi samfélagsins. Slíkt nám gerir bæði ráð fyrir samstarfi út fyrir veggi skóla og samstarfi í skólanum, t.d. samstarfi við heimili barna og ungmenna og við æskulýðs- og íþróttastarf. Vel hefur gengið að innleiða grunnþætti menntunar inn í öll skólastig en helsta áskorunin er að samþætta grunnþættina inn í daglegt skólastarf og viðhalda virku samstarfi allra aðila skólasamfélagsins og jafnframt viðhalda góðum skólabrag þar sem unnið er markvisst gegn einelti og hvers konar birtingarmyndum ofbeldis.

Læsi er einn grunnþátta menntunar í aðalnámskrá með áherslu á mikilvægi ritunar og lesturs í hefðbundnum skilningi. Niðurstöður PISA-rannsóknarinnar árið 2015 sýna að frammistaða íslenskra nemenda við lok grunnskóla er lakari en árið 2012. Læsi nemenda á náttúruvísindi hefur hrakað mikið á síðastliðnum áratug og læsi þeirra í stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá því það var fyrst metið árið 2003.27 Megináskorunin er að snúa þeirri þróun við en einkum er nauðsynlegt að grípa til aðgerða í námi á unglingastigi, kennsluháttum á grunnskólastigi og faglegri starfsþróun kennara. Vinna að bættum lesskilningi hófst með markmiðasetningu til fimm ára í Hvítbók um umbætur í menntun (2014) og í framhaldinu gerðu menntamálaráðherra og öll sveitarfélög landsins, ásamt Heimili og skóla – landssamtökum foreldra, með sér þjóðarsáttmála um að a.m.k. 90% nemenda í hverju sveitarfélagi geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns þegar PISA-rannsóknin verður á ný lögð fyrir á þessu ári.

Þá er einnig unnið að því að auðvelda full- orðnum einstaklingum að afla sér viðurkenndrar menntunar eða starfsréttinda, þ.e. þeim sem ekki hafa lokið formlegu námi eftir grunnskóla. Lagasetning um fullorðinsfræðslu er í endurskoðun með það að markmiði að setja skýran ramma um starfsemi menntastofnana og samstarf við atvinnulífið. Stefnt er að þátttöku í PIAAC sem er alþjóðleg rannsókn á vegum OECD um hæfni fólks á vinnumarkaði og í atvinnulífinu. Markmiðið er m.a. að skoða hvernig menntun skilar sér í hæfni starfsfólks til að sinna sínu starfi.

Kennarar og kennaramenntun

Með lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008 var meistaranám í flestum tilfellum gert að forsendu fyrir kennsluréttindum fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Meginrök að baki þeirri breytingu voru sjónarmið um að laga starfsmenntun íslenskra kennara að umbótum sem undanfarin ár hafa orðið á kennaramenntun víðs vegar um heim. Þær alþjóðlegu aðgerðir miða almennt að því að efla fagmennsku kennara og stuðla að og auka sjálfstæði þeirra og ábyrgðarskyldu. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands er hlutfall kennara með kennaramenntun á grunnskólastigi 94,4%, framhaldsskólastigi 86,4% og á leikskólastigi eru leikskólakennarar 29,3% og aðrir með uppeldismenntun 17,2%. Þá er hlutfall kennara yngri en 40 ára um 30% á leikskólastigi, 28% á grunnskólastigi og 24% á framhaldsskólastigi.28 Nauðsynlegt þykir að efla kennaramenntun til að bregðast við fækkun kennara og minnkandi aðsókn í kennaranám fyrir leikskóla og grunn- og framhaldsskóla. Í áætlunum mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir árin 2017-2021 er m.a. lögð áhersla á menntun og nýliðun kennarastéttarinnar. Veigamikill þáttur í nýliðun er endurskoðun og efling inntaks kennaramenntunar með þarfir kennaranema, skóla á öllum skólastigum og samfélagsins alls í huga. Jafna þarf hlutfall kynja í kennaranámi og fjölga ungum kennurum á öllum skólastigum. Mikilvægt er að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Bregðast þarf við kennaraskorti í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Ísland tekur þátt í ýmiss konar alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun, bæði á norrænum vettvangi, evrópskum og alþjóðlegum. Sem dæmi má nefna norrænt samstarf á sviði menntamála og rannsókna, ESB samstarf og þátttöku í menntaáætlunum, OECD, Evrópuráðið, UNESCO og Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir (European Agency for Inclusion and Special Needs Education). Þrátt fyrir verulegar úrbætur alþjóðlega í aðgengi barna að grunnskólamenntun vantar töluvert upp á að alþjóðlegum þróunarmarkmiðum sé náð og gæði menntunar er víða ábótavant. Menntun er því lykilþáttur í þróunarsamvinnu Íslands. Áhersla er lögð á menntun barna ásamt uppbyggingu fagþekkingar innan áherslusviðanna. Í menntaþætti samstarfs Íslands við Malaví er stefnt að auknum gæðum menntunar í grunnskólum Mangochi-héraðs. Skólar og kennarabústaðir eru byggðir og lagfærðir, kennarar og skólastjórnendur eru þjálfaðir og leitast er við að börnin fái nauðsynleg námsgögn. Menntaverkefnin í Kalangala og Buikwe-héruðum í Úganda eru margþætt. Áhersla er lögð á mikilvægi vatns og hreinlætis við skóla, bætt húsnæði, námsgögn, þjálfun kennara, árangurseftirlit og orkusparandi og heilnæma eldun í skólaeldhúsum. Sérstök tilraunaverkefni eru rekin samhliða öðrum þáttum: Aðstoð við unglingsstúlkur á kynþroskaskeiði, bætt hirða skólagarða til að sporna við bágu næringarástandi barna og skipulögð þátttaka foreldra í skólastarfi. Í Úganda er jafnframt á áætlun tilraunaverkefni um að koma upp skólagörðum við einn til tvo skóla í því augnamiði að lækka kostnað við skólamáltíðir og bæta næringargildi máltíða í skólum. Íslensk stjórnvöld styðja einnig við starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi en einstaklingar frá þróunarlöndum hafa þann möguleika að læra við skólana endurgjaldslaust. Skólarnir vinna að uppbyggingu fagþekkingar í þróunarlöndum í málefnum jarðhita, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttis og stuðla þannig jafnframt að framgangi annarra markmiða.

22  Hagstofa Íslands, hagstofa.is.

23  Hagstofa Íslands, 21. september 2017, Leikskólabörnum og starfsfólki á leikskólum fækkar.

24   Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2015. Skýrsla starfshóps vegna þingsályktunar um   leikskóla að loknu fæðingarorlofi.

25  Mennta- og menningarmálaráðuneyti, júní 2014, Hvítbók um umbætur í menntun.

26  Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2017, Lokaskýrsla, Menntun fyrir alla á Íslandi: Úttekt á   framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi.

27  Menntamálastofnun, 6. desember 2016, Niðurstöður PISA 2015. 28  Sjá viðauka 1.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum