Hoppa yfir valmynd
10.09. 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 10: Aukinn jöfnuður

10. Aukinn jöfnuður - myndHeimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Draga úr ójöfnuði í heiminum

Á síðustu áratugum hafa stór skref verið stigin á heimsvísu við að minnka ójöfnuð og fátækt. Góður árangur hefur náðst hvað þetta varðar meðal fátækustu ríkja heims þótt enn sé langt í land. Tekjuójöfnuður hefur minnkað á milli ríkja, en hefur aftur á móti aukist innan þeirra. Milli áranna 2009 og 2016 sýndi Gini-stuðullinn þó minnkandi ójöfnuð á Íslandi en hann mældist 29,6% árið 2009, en 24,1% árið 2016.56 Vaxandi samstaða er um að hagvöxtur sé einn og sér ekki nægjanleg forsenda þess að minnka fátækt, heldur þurfi stjórnvöld að sjá til þess að hagvöxtur hafi í för með sér ávinning fyrir alla.

Tekjuaukning þeirra tekjulægstu

Ekki er til opinbert lágtekjuviðmið á Íslandi. Sveitarfélög veita fjárhagsaðstoð til framfærslu á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en ekki er kveðið á um lágmarksframfærsluviðmið í lögunum. Aðilar vinnumarkaðarins semja fyrir launþega í kjarasamningsviðræðum og gilda þeir samningar sem lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgreinum á þeim svæðum sem samningarnir taka til, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma. Óheimilt er að gera samninga um lakari kjör en kveðið er á um í almennum kjarasamningum. Almennt er miðað við að bætur og aðrar opinberar greiðslur til framfærslu séu ekki hærri en nemur lágmarkslaunum. Örorku- og endurhæfingarlífeyrir ásamt tengdum greiðslum er ætlaður til framfærslu þeirra sem hafa skerta starfsgetu og tekjur undir tilteknu viðmiði. Markmiðið er að gera fólki sem býr við þessar aðstæður kleift að lifa sjálfstæðu lífi. Enn fremur er áhersla lögð á að uppbygging þessara kerfa styðji fólk til virkrar þátttöku í samfélaginu, þar með til atvinnuþátttöku. Ellilífeyrir almannatrygginga er tekjutengdur og réttindi til hans miðast við 67 ára aldur. Megin lífeyrisgreiðslur aldraðra koma úr lífeyrissjóðakerfinu, sem byggist á atvinnuþátttöku, og aldraðir hafa greitt til af launum sínum á starfsævinni.

Þátttaka allra í félags-, efnahags- og stjórnmálalífi

Lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla fela í sér almennt bann við mismunun á grundvelli kyns. Þá urðu þann 11. júní 2018 tvö frumvörp um bann við allri mismunun að lögum. Þar er kveðið á um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Lagasetningin er í samræmi við efni tilskipana 2000/78/EB um jafna meðferð á vinnumarkaði og 2000/43/EB um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna. Samþykkt laganna felur í sér stórt skref í átt að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði og öðrum sviðum samfélagsins.

Jöfn tækifæri tryggð og dregið úr ójöfnuði

Undanfarin ár hefur ýmsum lögum verið breytt með það að markmiði að draga úr ójöfnuði og jafna tækifæri. Má þar nefna breytingar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög um málefni fatlaðs fólks, s.s. um notendastýrða persónulega aðstoð, og lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Einnig má nefna lagabreytingar sem kveða á um einföldun bótakerfisins, breyttan lífeyristökualdur o.fl. Í gildi eru þingsályktanir um framkvæmdaáætlanir með stefnu og aðgerðum sem eiga að stuðla að því að einstaklingar sem standa höllum fæti njóti jafnræðis og standi jafnfætis öðrum. Má t.d. nefna framkvæmdaáætlanir í jafnréttismálum 2016-2019, í málefnum fatlaðs fólks 2017-2021 og í málefnum innflytjenda 2016-2019. Í nýjum lögum um opinber fjármál eru sett fram gildi sem fela í sér að ávallt skuli hafa sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi að leiðarljósi. Þá er sérstakt ákvæði um kynjaða fjárlagagerð og hún skal höfð til hliðsjónar við gerð frumvarps til fjárlaga. Sífellt meiri áhersla er lögð á að sporna við og draga úr mismunun á grundvelli kyns, fötlunar eða annarra þátta í allri stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda.

Alþjóðlegir fjármálamarkaðir og -stofnanir

Á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hafa fjöldamargar Evrópugerðir um eftirlit á fjármálamörkuðum verið teknar upp í íslenskan rétt og munu fleiri slíkar verða innleiddar á komandi misserum. Markmiðið er að íslenskt regluverk endurspegli hið evrópska eftir því sem best er unnt en taki mið af íslenskum aðstæðum þar sem slíkt á við. Nokkur halli er á innleiðingu evrópskra reglna um fjármálamarkað sem skýrist meðal annars af smæð stjórnsýslunnar. Mikilvægt skref var stigið með samþykkt laga nr. 24/2017 um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði þar sem kveðið var á um lagagildi reglugerða um hið evrópska eftirlitskerfi á innri markaði Evrópusambandsins. Óvissa um lagagildið hafði staðið í vegi fyrir innleiðingu stórs hluta evrópskra reglna um fjármálamarkaðinn og má búast við að eitthvað muni draga úr innleiðingarhallanum í kjölfarið. Fjármagni hefur verið veitt til þess að draga úr halla á innleiðingum evrópsks regluverks í stjórnsýslunni með ráðningum fleiri sér fræðinga. Þótt þegar hafi dregið úr hallanum er ljóst að enn er mikið verk framundan og að nokkurn tíma mun taka fyrir íslenskt regluverk að endurspegla hið evrópska. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) lagði mat á fylgni Fjármálaeftirlitsins við 29 kjarnaviðmið Baselnefndar um bankaeftirlit árið 2014. Að mati sjóðsins var lágmarksviðmiðum mætt varðandi sjö af þessum 29 viðmiðum og því ljóst að mörg tækifæri voru til umbóta. Síðan þá hafa þónokkrar breytingar orðið á regluverki fjármálamarkaða og starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Fyrir liggur að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni á komandi árum framkvæma víðtækari úttekt en þá sem gerð var árið 2014 sem mun ná til vátrygginga-, lífeyrissjóða- og verðbréfamarkaða auk bankamarkaðar (e. financial sector assessment program).

Tryggir búferlaflutningar

Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda var samþykkt í september 2016. Áætlunin byggist á fimm stoðum sem eru samfélag, fjölskylda, menntun, vinnumarkaður og flóttafólk. Í áætluninni eru 30 aðgerðir sem eiga allar að stuðla að jöfnum tækifærum allra landsmanna, óháð einstaklingsbundnum þáttum og aðstæðum. Vinna er hafin vegna 21 aðgerðar sem ýmist eru í undirbúningsferli, vinnslu eða lokið. Helstu áskoranir eru að skapa tækifæri og aðstæður til að innflytjendur geti orðið virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Alþjóðastofnanir hafa kallað málefni flóttafólks einhverja stærstu áskorun sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag og er Ísland þar engin undantekning. Helsta áskorun varðandi flóttafólk þessi misserin er útvegun húsnæðis.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Jafnrétti kynjanna og réttindi barna og annarra berskjaldaðra hópa er í öndvegi í þróunarsamvinnu Íslands. Sérstakan gaum skal gefa að þeim hópum sem búa við skort á réttindum, eins og hinsegin fólk, fatlað fólk og aðrir sem eiga undir högg að sækja. Helsta markmið þróunarsamvinnu Íslands er að draga úr ójöfnuði milli og innan landa. Þannig beinir Ísland stórum hluta framlaga sinna til fátækustu ríkjanna með áherslu á að styðja þá hópa sem búa við fátækt og ójöfnuð. Í því felst einkum stuðningur við uppbyggingu félagslegra innviða, ekki síst í dreifbýli, þar sem fátækt er hvað mest. Jafnframt er í íslenskri þróunarsamvinnu áhersla lögð á að styðja við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda með jafnrétti og jöfnuð að leiðarljósi.

 

56 Eurostat - Data Explorer, 11. júní 2018, Gini coefficient of equalivalised disposable income - EU-SILC survey

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

10. Aukinn jöfnuður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum