Hoppa yfir valmynd
13.09. 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 11: Sjálfbærar borgir og samfélög

11. Sjálfbærar borgir og samfélög - mynd

Gera borgir og íbúðarsvæði örugg, sjálfbær og öllum aðgengileg

Þéttbýli getur skapað aðstæður þar sem ný störf verða til og velmegun fólks eykst. Að viðhalda slíku ástandi, án þess að skaða umhverfi og auðlindir, felur í sér margar áskoranir. Algeng vandamál tengd þéttbýli fela meðal annars í sér ónægt fjármagn til þess að sinna grunnþjónustu, skort á fullnægjandi húsnæði og hnignandi innviði. Markmiðið um sjálfbærar borgir og samfélög leggur því áherslu á að allir íbúar í þéttbýli hafi jafnan aðgang að grunnþjónustu, orku, húsnæði og samgöngum. Ísland er mjög dreifbýlt land en á hverjum ferkílómetra búa um það bil þrír einstaklingar. Þrátt fyrir það býr meirihluti Íslendinga, eða um 94%, í þéttbýli.57 Í upphafi árs 2016 voru 60 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri samkvæmt tölum Hagstofunnar, en rúmlega 60% íbúanna eru á höfuðborgarsvæðinu. Meðal helstu áskorana stjórnvalda eru að tryggja nægt framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði og tryggja áframhaldandi grunnþjónustu í hæsta gæðaflokki.

Húsnæði og almenningssamgöngur

Þörf er á auknu framboði á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði og er unnið að því að fjölga slíkum íbúðum á grundvelli laga frá 2016 um almennar íbúðir. Árið 2014 var meðalhlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum leigjenda 24,3% og hlutfall leigjenda sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað 18,7% samkvæmt tölum Hagstofunnar.58 Þá var meðalbiðtími eftir félagslegu leiguhúsnæði á landsvísu 26,6 mánuðir árið 2015.59 Allir þéttbýlisstaðir með fleiri en 100 íbúa eru tengdir með almenningssamgöngum; áætlanabílum, ferjum og/eða flugi. Áætlanaflug er til allra landshorna og er ríkisstyrkt þar sem ekki eru markaðslegar forsendur fyrir hendi. Miðað er við að allir íbúar geti nálgast nauðsynlega opinbera þjónustu á skemmri tíma en 3,5 klst. Ekki er merkjanlegur kynbundinn munur á notkun almenningssamgangna, nema í innanlandsflugi þar sem fleiri notendur eru karlar og þá oftast vegna starfa sinna.

Loftgæði

Loftgæði á Íslandi eru almennt góð þrátt fyrir að sum loftmengunarefni fari yfir skilgreind viðmiðunarmörk nokkrum sinnum á ári. Veðurfar getur verið áhrifavaldur í því þegar mengandi efni fara yfir mörk. Helstu uppsprettur svifryks í þéttbýli eru umferð (slit gatna, útblástur bíla o.fl.), byggingarframkvæmdir og uppþyrlun göturyks. Utan þéttbýlisstaða eru uppsprettur svifryks m.a. sandfok, eldgos (öskufall/öskufok) og uppþyrlun ryks af malarvegum. Allnokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á mögulegum heilsufarsáhrifum loftmengunar á Íslandi og margar þeirra sýna fram á samband milli þessara þátta. Rannsóknirnar hafa ýmist beinist að loftmengun af völdum mannlegra athafna (umferð og jarðvarmavirkjanir, svifryk og önnur umferðartengd loftmengunarefni) eða vegna náttúrulegra þátta, þ.e. eldgosa (aska/svifryk og brennisteinsdíoxíð). Nauðsynlegt er að rannsaka þetta enn frekar til að geta svarað spurningunni um hvort raunverulegt orsakasamband sé milli þessara þátta.

Á Íslandi eru mörg sóknarfæri sem hægt er að nýta til að bæta loftgæði í landinu en í því sambandi er mikilvægt að efla vitund fólks um mál tengdum loftgæðum. Með aukinni vitneskju um loftgæði verða einstaklingar meðvitaðri um hvers konar loftmengun er í landinu, hvað megi gera til að takmarka hana og heilsufarsleg áhrif hennar. Nýlega gaf umhverfis- og auðlindaráðuneytið, í samstarfi við Umhverfisstofnun, út áætlun um loftgæði í landinu (Hreint loft til framtíðar – Áætlun um loftgæði á Íslandi) sem stuðla á að bættum loftgæðum í landinu.

Almannavarnir

Markmið stefnu í almannavarna- og öryggismálum er að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða að umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara. Almannavarnalögin kveða á um samhæft viðbúnaðarkerfi vegna hættuástands, m.a. vegna hamfara þar sem lögð er áhersla á forvarnir og áhættugreiningu, mótvægisaðgerðir til þess að styrkja áfallaþol, skýrt stjórnkerfi og boðleiðir þegar brugðist er við hættuástandi, og aðgerðir til endurreisnar í kjölfar áfalla.

Vernda og tryggja menningar- og náttúruarfleifð

Menningar- og náttúruminjar eru verndaðar með lögum. Markmið laganna er að tryggja varðveislu menningarminja í eigin umhverfi, auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar af menningarminjum og greiða fyrir rannsóknum á þeim. Drög að stefnu innan málaflokksins til næstu fjögurra ára, sem nú er unnið að, hefur sex meginmarkmið, þ.e. að styrkja minjavörsluna, auka vitundarvakningu um menningarminjar, ljúka skráningu menningarminja, stuðla að rannsóknum á minjum, nýta minjar á sjálfbæran og skynsamlegan hátt í þágu samfélagsins og efla samvinnu landsmanna, jafnt lærðra sem leikra um minjavernd.

Markmið laga um náttúruvernd nr. 60/2013 er að vernda til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru, þar á meðal líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og fjölbreytni landslags. Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum og verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt. Í lögunum er einnig að finna ákvæði sem stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa og auknu þoli íslenskra vistkerfa gegn náttúruhamförum og hnattrænum breytingum á náttúrunni. Jafnframt miða þau að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda og annarra náttúrugæða. Lögunum er einnig ætlað að stuðla að samskiptum manns og náttúru þannig að hvorki spillist líf né land, loft eða lögur. Þau eiga að auðvelda umgengni og kynni almennings af náttúru landsins og menningarminjum sem henni tengjast og efla þekkingu og fræðslu um náttúruna. Einnig tryggja lögin rétt almennings til að fara um landið og njóta náttúrunnar og stuðla þannig að almennri útivist í sátt við náttúruna, landsmönnum til heilsubótar og aukinnar velsældar.

Markmið laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum nr. 20/2016 er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í tengslum við fjölgun ferðamanna við helstu náttúruperlur og menningarminjastaði á Íslandi. Annars vegar er um að ræða efnislega innviði sem aukið geta álagsþol viðkomandi staðar af völdum aukinnar ferðamennsku. Hins vegar er um að ræða óefnislega innviði, þ.m.t. umgengnisreglur og landvörslu, sem miða fyrst og fremst að því að vernda viðkomandi stað fyrir auknum ágangi án þess að breyta yfirbragði hans til langframa. Landsáætlun skiptist í stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára og þriggja ára verkefnaáætlun og hófst innleiðing hennar árið 2018.

Byggðaáætlun

Unnið er að því að styðja við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með byggðaáætlun stjórnvalda. Sóknaráætlanir landshluta skilgreina svæðisbundnar áherslur byggðaáætlunar og taka mið af öðrum áætlunum ríkisins. Með þeim er sett fram langtímastefnumótun hvers landshluta og framtíðarsýn. Þannig er sóknaráætlununum ætlað að skapa aukna festu og efla fagleg vinnubrögð við áætlanagerð á sviði byggðamála. Með fyrirkomulaginu næst betri nýting á fjármunum og ákvarðanataka er færð nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna. Grunnstefið sem snýr að Íslandi er hvort byggðastefna leiði til minnkandi einangrunar tiltekinna þjóðfélagshópa og að jafnvægi sé á milli þéttbýlis- og dreifbýlisþróunar, t.d. varðandi uppbyggingu innviða og þjónustu.

 

57 Hagstofa Íslands, 20. mars 2017, Landsmönnum fjölgar um 1,8%, hagstofa.is.

58 Hagstofa Íslands, 12. nóvember 2015, Byrði húsnæðiskostnaðar þyngst hjá leigjendum.

59 Velferðarráðuneytið, 25. ágúst 2015, Um 5.000 leiguíbúðir í eigu sveitarfélaga.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

11. Sjálfbærar borgir og samfélög

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum