Hoppa yfir valmynd
05.07. 2019 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðabankastofnanirnar fimm og samstarf Íslands við bankann

Þegar rætt er um Alþjóðabankann er líklegt að flestir sem ekki þekkja til, telji að um sé að ræða eina stofnun. Raunin er þó sú að Alþjóðabankastofnanirnar (World Bank Group) eru fimm talsins, en hver þeirra gegnir sérstöku og afmörkuðu hlutverki í baráttunni gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum á heimsvísu.

Elsta stofnunin er Alþjóðabankinn til enduruppbyggingar og framþróunar (International Bank for Reconstruction and Development, IBRD), en hann var settur á laggirnar árið 1945 með það markmiði að stuðla að efnahagslegri endurreisn í Evrópu og Japan eftir hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Eftir að því starfi lauk breyttust áherslurnar og veitir IBRD nú lán með niðurgreiddum markaðsvöxtum auk tæknilegrar aðstoðar til millitekjuríkja og burðugri lágtekjuríkja.

Næst, eða árið 1956, var Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation, IFC) sett á stofn. IFC styður við framþróun einkageirans í þróunarlöndum með lánveitingum til fjárfesta og með hlutafjárkaupum. Ólíkt IBRD og IDA starfar IFC á samkeppnisgrunni við viðskiptabanka sem veita fjármálaþjónustu á alþjóðamörkuðum. Hlutverk IFC er þó fyrst og fremst að einbeita sér að verkefnum sem hafa gildi fyrir efnahags- og félagslega framþróun í hlutaðeigandi landi, sem einkageirinn hefur vanrækt eða talið of áhættusöm.

 

Árið 1960 var svo Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association, IDA) stofnuð, en hún hefur það hlutverk að aðstoða fátækustu ríki heims í baráttunni gegn örbirgð með styrkjum, lánum og ábyrgðum til þróunarverkefna auk tæknilegrar aðstoðar. Lönd með verga þjóðarframleiðslu á íbúa lægri en 1.145 Bandaríkjadalir eiga rétt á lánum frá IDA, en sem stendur er um 75 ríki að ræða, þar af yfir helmingur í Afríku. Lán IDA eru vaxtalaus, án afborgana fyrstu tíu árin og greiðast upp á 25 til 40 árum. Frá miðju ári 2002 urðu þáttaskil í starfi IDA þegar stofnunin hóf að veita aðstoð byggða á styrkjum til þróunarlanda. Þá felst hluti af stuðningi IDA við fátækustu ríkin jafnframt í skuldaniðurfellingu. Ólíkt IBRD, hvers fjármagn kemur einvörðungu frá hlutafé og endurgreiðslum af lánum, er starfsemi IDA endurfjármögnuð á þriggja ára fresti og kemur fyrst og fremst frá framlagsríkjum. Í ár standa yfir samningaviðræður vegna 19. endurfjármögnunar IDA (IDA19) sem snúa bæði að stefnumiðum og fjármögnun.

Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency - MIGA) var svo sett á laggirnar árið 1966, en hún veitir ábyrgðir vegna fjárfestinga einkaaðila í þróunarlöndum gegn áföllum sem ekki eru viðskiptalegs eðlis (t.d. vegna ófriðar, eignaupptöku eða gjaldeyristakmarkana).

Nýjasta stofnunin var svo stofnuð árið 1989, en Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna (International Center for Settlement of Investment Disputes - ICSID) veitir aðstoð til sáttagerðar og gerðardóma í lausnum fjárfestingardeilna og stuðlar þannig að gagnkvæmu trausti milli ríkja og erlendra fjárfesta.

Samstarf Íslands og Alþjóðabankans í gegnum kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna

Alþjóðabankinn er frábrugðinn stofnunum Sameinuðu þjóðanna að því leyti að atkvæðavægi fer eftir stofnfjáreign. Ríki sem eiga smærri hluti í bankanum mynda kjördæmi og skipar hvert kjördæmi aðalfulltrúa (e. Executive Director) í 25 manna stjórn hans. Stjórnarfulltrúinn talar máli kjördæmislandanna og fer með atkvæði þeirra. Atkvæðinu er ekki hægt að skipta, sem þýðir að mjög náið samstarf fer fram á milli höfuðborga kjördæmislandanna við samræmingu á afstöðu þeirra í málefnum bankans. Norðurlöndin fimm og Eystrasaltsríkin þrjú mynda sameiginlegt kjördæmi og skipta löndin með sér verkum hvað viðvíkur málefnastarfi og stöðum. Ísland er virkur þátttakandi í starfi kjördæmisins, bæði frá Reykjavík og í gegnum starfsmann á skrifstofu kjördæmisins í Alþjóðabankanum. Þá skipar Ísland stöðu aðalfulltrúa í stjórninni til tveggja ára frá og með 1. júlí 2019, en þar áður skipaði Ísland í stöðuna árin 2003-2006. Þess ber að geta að Ísland er fámennasta aðildarríki bankans sem skipar í stöðu aðalfulltrúa í stjórn hans og felst mikill styrkur í nánu samstarfi við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. Sú staðreynd að kjördæmislöndin hafa allflest skapað sér góðan orðstír á alþjóðavettvangi fyrir að vera virk í þróunarstarfi styrkir mjög stöðu ríkjanna innan bankans.

Tvíhliða samstarf Íslands og Alþjóðabankans

Ísland á jafnframt gott og aukið tvíhliða samstarf við bankann þar sem lögð hefur verið áhersla á jarðhita, fiskimál, jafnréttis- og mannréttindamál og veitt eru framlög til sjóða innan bankans á þeim sviðum.

Þannig er Ísland virkur þátttakandi í ESMAP verkefninu (Energy Sector Management Program) sem hefur það hlutverk að veita þróunarríkjum tæknilega ráðgjöf á sviði orkumála og gera þeim kleift að stuðla að hagvexti og draga úr fátækt með áherslu á sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda. Samstarf Íslands og ESMAP hefur einkum snúið að nýtingu jarðhita, en auk framlaga hefur Ísland fjármagnað stöðu sérfræðings í jarðhitamálum hjá ESMAP frá árinu 2009. Þá vetir Ísland bankanum jafnframt stuðning í formi sérfræðiþekkingar íslenskra ráðgjafa og fyrirtækja í verkefnum bankans á sviði orkumála.

Jafnréttismál eru ávallt ofarlega á baugi í tvíhliða samskiptum Íslands og bankans og til að auka framgang þeirra hefur Ísland veitt framlög til verkefnis um kynjajafnrétti og málefni kvenna (UFGE) en markmið þess er m.a. að auka þekkingu á jafnréttismálum innan bankans og efla samþættingu jafnréttissjónarmiða í verkefnum á hans vegum. Ísland er einnig meðal styrktaraðila að styrktarsjóði um mannréttindi sem hefur að markmiði að auka þekkingu á mannréttindum innan bankans og fjölga verkefnum sem stuðla að framgangi þeirra, en sjóðurinn hefur reynst mjög eftirsóttur innan bankans.

Að lokum hefur Ísland lagt ríka áherslu á að bankinn fjármagni í auknum mæli verkefni á sviði fiskimála, og styður í því skyni við styrktarsjóð bankans sem vinnur að málefnum hafsins, PROBLE. Ein af stoðum sjóðsins snýr að fiskimálum þar sem markmiðið er að styrkja sjálfbæra fiskveiðistjórnun, stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum, byggja upp fiskistofna og auka afrakstur þeirra.

Þrátt fyrir að Alþjóðabankinn sé stærsta þróunarstofnun heims hefur Ísland greiða leið að virkri þátttöku á vettvangi hans. Skýrist það meðal annars af reglulegri og beinni aðkomu að stjórnarstarfinu og málefnavinnu í fyrrnefndum samstarfsverkefnum.

Höfundur: Þórarinna Söebech fulltrúi Íslands á kjördæmisskrifstofu Norðurlandanna- og Eystrasaltsríkjanna í Alþjóðabankanum

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira