Hoppa yfir valmynd
05.09. 2019 Utanríkisráðuneytið

UNICEF: Þriðjungur ungmenna orðið fyrir einelti á netinu

© UNICEF/Mark Naftalin - mynd

Um það bil þriðjungur ungmenna í þrjátíu ríkjum segist hafa orðið fyrir einelti á netinu og fimmtungur segist hafa sleppt því að mæta í skólann af þeim sökum. Þetta eru meðal annars niðurstöður úr nýrri skoðanakönnun sem birt var í gær af hálfu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og skrifstofu sérstaks erindreka Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum.

Ungmennin svöruðu spurningum í könnuninni nafnlaust í gegnum samskiptagáttina U-Report. Af svörum þriðjungs þeirra að dæma eru samfélagsmiðlar helsti vettvangur eineltis á netinu, svo sem Facebook, Instagram, Snapchat og Twitter. Alls náði könnunin til 170 þúsund ungmenna, 13 til 24 ára.

 Að mati þriðjungs unga fólksins ættu stjórnvöld í hverju landi að koma í veg fyrir einelti á netinu, rúmlega 30 prósent svarenda taldi ábyrgðina liggja hjá unga fólkinu sjálfu og tæplega 30 prósent skelltu skuldinni á internetfyrirtæki.

„Hvarvetna í heiminum, meðal ríkra og fátækra þjóða, eru ungmenni að segja okkur að það verði fyrir einelti á netinu, það hafi áhrif á menntun þeirra og þau vilja að þessu linni,“ segir Henriette Fore framkvæmdastýra UNICEF sem kynnti niðurstöður könnunarinnar í gær.

Hún minnir á að senn verði fagnað þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það verði að tryggja rétt barna varðandi stafrænt öryggi með öllum tiltækum leiðum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira